Hótað fangelsisvist fyrir að skrifa upp á Ivermectin

Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir er nýjasti gestur í hlaðvarpi Sölva …
Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir er nýjasti gestur í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sérfræðingur í heimilislækningum, er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Hann segist sjálfur hafa orðið fyrir útskúfun og miklum árásum, en sér ekki eftir neinu.

„Ég vil ekkert vera að naga í fjölmiðlana, en það gerðist oftar en einu sinni á Covid-tímabilinu að íslenskir blaðamenn hringdu í mig og vildu fá upplýsingar, en sögðu svo að þeir mættu ekki hafa neitt eftir mér. Væntanlega af því að ég var ekki á sömu skoðun og yfirvöld. Ég efast ekki um að þetta fólk sé að gera sitt besta, en aftur, þá er bara svo auðvelt að sjálfsritskoða sig þegar pressan er jafnmikil og hún var þegar faraldurinn stóð sem hæst. Þeir sem héldu fram öðrum skoðunum en sóttvarnayfirvöld fengu á sig alls konar árásir og voru kallaðir álhattar eða samsæriskenningafólk,“ segir Guðmundur og bætir við að það hafi gerst oftar en einu sinni að fólk hafi svo snögglega skipt um skoðun þegar það veiktist sjálft af Covid.

„Það gerðist oft að fólk sem hafði haft sterkar skoðanir á Ivermectin opinberlega og tekið undir með meginstraumsumræðunni hafði svo persónulega samband við mig til að reyna að verða sér úti um lyfið.“

Mikilvægt að ræða um Covid-tímabilið

Guðmundur Karl vakti athygli í heimsfaraldrinum fyrir að viðra skoðanir sem ekki áttu upp á pallborðið hjá öllum.

„Þetta er þrautreynt lyf sem er nánast algjörlega án aukaverkana og hefur verið notað í áratugi á milljónir manna. Rannsóknirnar bentu strax til þess að þetta tiltekna lyf gæfi frábæra raun sem ein af meðferðunum við Covid. En einhverra hluta vegna var Ivermectin gert að einhvers konar bannorði. Lyf sem er með færri aukaverkanir en Panodil og hefur verið gefið í 4 milljörðum skammta til mannfólks í gegnum tíðina. Við hljótum að geta verið sammála að það sé eitthvað skrýtið við þessi ofsafengnu viðbrögð gagnvart þeim læknum sem vildu nota þetta lyf. Ég var kærður af Lyfjastofnun og mér var hótað fangelsisvist eins og ég væri að gera eitthvað stórhættulegt.“

Guðmundur segist ekki vera að ráðast á einn né neinn þegar hann ræðir um Covid-tímabilið, heldur finnist honum mikilvægt að við sem samfélag förum yfir þennan tíma með gagnrýnum huga.

„Við sem mannfólk eigum rosalega margt sameiginlegt og við erum öll í þessu saman. En á þessu tímabili var mjög margt gert til að reyna að aðgreina okkur og skipta okkur í hópa. Óbólusettir á móti bólusettum og þar fram eftir götum. Við hljótum að geta verið sammála um að við viljum opið samfélag með opinni umræðu þar sem fólk hefur frelsi til að hafa sínar skoðanir og taka sínar eigin ákvarðanir.“

Þú get­ur hlustað á hlaðvarp Sölva Tryggva­son­ar á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál