Æfir í 21 klukkustund á viku

Landsliðskonan Margrét Lea lauk nýverið keppni á Evrópumótinu í áhaldafimleikum …
Landsliðskonan Margrét Lea lauk nýverið keppni á Evrópumótinu í áhaldafimleikum í Þýskalandi. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Það er óhætt að segja að líf landsliðskonunnar Margrétar Leu Kristinsdóttur hverfist um fimleika, en hún hefur æft íþróttina frá þriggja ára aldri og eyðir meirihluta vikunnar í fimleikasal Bjarkanna í Hafnarfirði. Margrét lauk nýverið keppni á Evrópumótinu í áhaldafimleikum, sem haldið var í Þýskalandi, en aðdragandi mótsins reyndist Margréti erfiður, jafnt líkamlega sem andlega. 

Við fengum að skyggnast inn í líf afrekskonunnar sem verður tvítug á árinu, en samhliða því að æfa 21 klukkustund á viku starfar hún sem fimleikaþjálfari. Í sumar lenti Margrét í erfiðum meiðslum sem settu stórt strik í reikninginn, enda keppnistímabilið í fullum gangi.

„Ég er heppin að eiga góða fjölskyldu sem styður mig …
„Ég er heppin að eiga góða fjölskyldu sem styður mig í öllu, og einnig þjálfara sem hafa hjálpað mér í gegnum sigra og ósigra,“ segir Margrét.

Vildi keppa á öllum áhöldum

„Fyrir átta vikum lenti ég mjög illa á æfingu og tognaði illa á tveimur liðböndum í ökklanum. Ég missti því bæði af Íslands- og Norðurlandamótinu,“ útskýrir Margrét. „Það var mjög krefjandi að koma til baka á svona stuttum tíma. Æfingarnar fyrir Evrópumótið reyndu mikið á mig andlega með ný meiðsli að hugsa um og margt annað sem spilaði inn í,“ segir Margrét.

Þrátt fyrir meiðslin heldur Margrét ótrauð áfram í átt að markmiðum sínum, en hún segir lykilinn að baki velgengni sinni vera að hún gefst aldrei upp. „Ég er mjög sátt með mína frammistöðu á Evrópumótinu en ég hefði viljað fá tækifæri til að keppa á öllum áhöldum því þetta var eina úrtökumótið fyrir Heimsmeistaramótið í október. Núna er markmiðið að bæta við æfingarnar mínar, sem ég var byrjuð að gera áður en ég meiddist í sumar,“ segir Margrét. 

Margrét hefði viljað keppa á öllum áhöldunum á EM.
Margrét hefði viljað keppa á öllum áhöldunum á EM. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Rútínan alltaf mikilvæg

Aðspurð segir Margrét álagið alltaf aukast fyrir mót, en henni þykir þó mikilvægt að halda sömu rútínu. „Ég þekki líkamann minn mjög vel og veit hvað ég get lagt á hann. Því er mjög mikilvægt fyrir mig að fylgja minni rútínu þó ég æfi í öðrum aðstæðum. Svefn er mjög mikilvægur fyrir mig og ég sef alltaf í kringum 9 klukkustundir,“ segir Margrét.

Á keppnisdag byrjar Margrét alltaf á því að fá sér góða næringu. „Morgunrútínan mín er yfirleitt alltaf eins. Fyrir keppni finnst mér best að borða gríska jógúrt með banana og múslí,“ segir Margrét. Hún hefur mjög gaman af því að gera sig til á keppnisdag, en uppáhaldssnyrtivörur Margrétar þessa dagana eru Hollywood Flawless Filter ljómagrunnur frá Charlotte Tilbury og glimmeraugnblýantur. 

Margrét stefnir á að fara í háskóla í Svíðþjóð, en …
Margrét stefnir á að fara í háskóla í Svíðþjóð, en hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut frá Flensborg sumarið 2021. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Þarf bæði líkamlegan og andlegan styrk

Þótt Margrét þekki líkama sinn vel segist hún enn vera að læra á sjálfa sig þegar kemur að því að takast á við streitu og mótlæti tengt æfingum og keppni. „Það sem hefur nýst mér best er að hafa sjálfstraustið í lagi. Ég hef nýtt mér að fara til íþróttasálfræðings til að hjálpa mér, en ég lærði einnig mjög ung að nota skynmyndaþjálfun,“ segir hún. 

Það er ekki síður krefjandi fyrir hugann en líkamann að æfa fimleika, en íþróttin reynir mikið á bæði líkamlegan og andlegan styrk. Hugarfarið skiptir því miklu máli og hefur Margrét komið sér upp möntru sem hún fer með áður en hún stígur inn á keppnisgólfið. „Ég hugsa alltaf: „Ég get, ég vil, ég ætla, ég skal,“ segir Margrét. 

Það er einmitt allt álagið sem fylgir íþróttinni, bæði andlegt og líkamlegt, sem Margréti þykir mest krefjandi við að vera afrekskona í fimleikum. „Það sem er hins vegar svo gefandi er þegar öll vinnan sem ég legg í þetta skilar árangri,“ segir Margrét. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál