Döðlur og hrískökur æsa upp blóðsykurinn!

Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti.
Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti.

Reglulega eru nýir matarkúrar kynntir til leiks. Fólk á að hætta þessu og hinu til þess að ná hinu fullkomna jafnvægi í lífinu. Eitt er þó áberandi sem sameinar flesta heimsins matarkúra. Það er að sykur er tekinn út úr mataræðinu eða hann minnkaður stórlega. Hvers vegna er slæmt að vera með háan blóðsykur? Hvaða áhrif hefur það á heilsuna og hvers vegna er betra fyrir fólk að hafa blóðsykurinn í jafnvægi? 

„Kolvetni, einkum þau auðmeltu, eins og sykur, morgunkorn, pasta, brauð og kartöflur, brotna hratt niður í meltingarveginum og losa sykur út í líkamann. Brisið bregst við með því að framleiða insúlín. Meginhlutverk þess er að ná blóðsykurmagninu niður og veita sykrinum í blóðinu inn í vöðvafrumr og lifur.

Því miður getur óheilnæmt mataræði og áralangt hreyfingarleysi leitt til þess sem kallast insúlínviðnám. Líkaminn verður með öðrum orðum ónæmari fyrir insúlíni. Afleiðingarnar eru þær að langtímablóðsykurinn skríður upp á við en hækkaður langtímablóðsykur er forstigseinkenni sykursýki 2. Þegar blóðsykurinn hækkar bregst brisið við með því að dæla út æ meira insúlíni. En það er eins og að öskra á börnin sín. Fljótlega hætta þau að hlusta.

Þótt offita geti leitt til sykursýki 2 er það ekki óhjákvæmilegt. Hægt er að vera of þungur án þess að vera sykursjúkur og sykursjúkur án þess að vera of þungur. Reyndar getur verið hættulegra að vera grannur og með sykursýki 2 en að vera feitur með sjúkdóminn. Raunverulegi vandinn felst ekki í því hve mörg aukakíló sitja utan á viðkomandi, heldur hvert hún sest. Fólk sem safnar fitu á kviðsvæði er líklegra til að fá hærri blóðsykur með öllum hugsanlegum hliðarverkunum, þar á meðal útlimamissi,“ segir Björn Ófeigsson í grein um blóðsykurinn á hjartalif.is.

Colourbox

Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti segir að blóðsykurinn skipti mjög miklu máli ef fólk ætlar að bæta heilsuna.

„Þegar ég var í námi í næringarþerapíu, þá sá ég fljótlega að blóðsykursstjórn er geysilega mikilvæg öllu heilbrigði. Í mínum huga þá var það svo augljóst og rökrétt. Þegar ég svo byrjaði að starfa sem næringarþerapisti, með ráðgjöf og námskeið, þá var það þetta sem ég elskaði mest að tala um og kenna. Svo er líka svo geggjað hvað árangurinn er góður þegar fólk nær stjórn á þessu og það hefur alltaf gefið mér svo mikið að sjá það. Þetta er það sem ég vil leggja af mörkum í mínu starfi og þess vegna hef ég sérhæft mig í að aðstoða fólk við að losa sig út úr blóðsykursvanda,“ segir Inga.

Þegar Inga er spurð að því hvers vegna það sé svona slæmt fyrir líkamann þegar blóðsykurinn rýkur upp, segir hún að það sé vegna þess að þá geti bólgur myndast í líkamanum.

„Þegar blóðsykurinn er í rugli, kannski árum saman vegna mataræðis eða lífsstíls, þá geta vöðvafrumurnar okkar farið í fýlu og vilja ekki lengur taka við sykrinum úr blóðinu. Þær verða hálfónæmar fyrir áhrifum insúlíns, sem er lykillinn að frumunum sem hleypir sykrinum inn. Ef insúlínið hættir að geta lokið upp frumunni, þá kemst sykurinn ekki úr blóðinu. Það veldur miklum vandamálum, á borð við bólgumyndun og jafnvel bólgusjúkdóma. Nefna má hjarta- og æðasjúkdóma, of hátt kólesteról, of háan blóðþrýsting, sykursýki 2, alls konar liðverki, gigtarvandamál og fleira og fleira. Eitt sem konur á miðjum aldri þekkja líka, er það að öll einkenni breytingaskeiðs verða svo miklu verri ef blóðsykurinn er í ójafnvægi,“ segir Inga.

Kviðfita og þreyta!

Hefur blóðsykurinn áhrif á líkamsþyngd?

„Já, á endanum hefur það líklega þau áhrif og þá fitnar fólk gjarnan um miðjuna, fær kviðfitu, en er kannski grannt annars staðar. Þó er þetta ekki algilt og grannt fólk getur svo sannarlega verið með blóðsykursvandamál.“

Eru til einhver einföld ráð fyrir þá sem vilja koma blóðsykrinum í lag án þess að hætta að borða allt?

„Já, heldur betur! Þetta snýst að miklu leyti um það hvernig raðað er á diskinn. Þá kemst blóðsykurinn í jafnvægi og sykurlöngunin minnkar hressilega. Ég hef haldið fjölda námskeiða um þetta, til dæmis með henni Gurrý þjálfara, sem við köllum Sigrumst á sykrinum. Þar kennum við þessa tækni og kynnum til leiks nýyrðið „Kolvetnakápa“.

Málið snýst um að fólk getur nánast borðað hvað sem er, þannig lagað. Auðvitað ekki mikinn sykur, hveiti, eða einföld kolvetni, en samt nánast allt. Það sem skiptir mestu máli er að passa ávallt að nóg sé á diskinum af próteini, fitu, grænmeti og trefjum. Þá klæðir sú fæða kolvetnin í fæðunni, eins og pasta og kartöflur, í kápu sem róar allt niður. Blóðsykurinn rýkur ekki upp í rjáfur eins og hann myndi gera ef eingöngu væru kolvetni á diskinum. Kolvetnakápurnar eru þess vegna stóra málið og hægt að aðlaga alla rétti og mat að þessu.“

Getur verið að fólk sé oft á tíðum með allt of háan blóðsykur án þess að vita það?

„Já, það getur svo sannarlega verið. Þessar miklu sveiflur eru lúmskar og fólk áttar sig oft ekkert á þeim. Einkenni þeirra geta verið mikil þreyta, orkuleysi, mikil löngun í sykur og koffín, einbeitingarskortur, svefntruflanir, verkir og bólgur í liðum og fleira. Seinnipartsþreytan er sérlega áhugavert fyrirbæri og lagast yfirleitt með rétt samsettum morgun- og hádegismat, sem kemur lagi á blóðsykurinn. Hungurfýlan er líka einkenni, þegar fólk verður mjög geðvont þegar það er svangt. Alvarlegri einkenni sem bent geta til þess að jafnvel fastandi blóðsykur sé hár, sem er alls ekki gott, væru tíð þvaglát og mikill þorsti sem og lamandi þreyta.“

Colourbox

Hvað er hægt að fá í staðinn?

Getur þú tekið nokkur dæmi um mat sem er með lægri sykurstuðli sem er svipaður og annar sem er með hærri sykurstuðli?

„Já, til dæmis brauð og hrökkkex. Venjulega dótið er stútfullt af kolvetnum sem þurfa þá að klæðast þykkri kápu til að vera ekki bombur á blóðsykurinn. Í dag er hægt að fá bæði brauð og hrökkbrauð í mörgum stórmörkuðum, sem er nánast kolvetnalaust og bökuð úr hnetu- og fræblöndu ásamt eggjum og jafnvel osti. Svo er ekkert mál að baka sjálfur úr möndlumjöli og alls konar fíneríi. Svo er hægt að fá pasta sem er unnið úr baunum og linsum sem er þá mun próteinríkara en hefðbundið hveitisullspasta.“

Ef fólk væri bara að spá í einhverju einu hvað varðar heilsuna. Myndi það hjálpa fólki að reyna að koma jafnvægi á blóðsykurinn jafnvel þótt það myndi ekki nenna í ræktina?

„Ef þið viljið gera eitthvað eitt til að bæta heilsuna, þá er það að ná stjórn á blóðsykrinum. Það hentar öllum að vinna með þetta, öllum! Þegar orkan verður betri, með bættri blóðsykurstjórnun, þá kemur áhuginn á að hreyfa sig inn ásamt fleiru sem fólk hefur bara ekki haft orku í. Þetta verður svona jákvæðnihringur. Við höggvum á blóðsykursvandann og sykurlöngunina og þá kemur hitt í kjölfarið,“ segir Inga.

Fólk í aðhaldi byrjar líka oft að borða döðlur í staðinn fyrir sælgæti og borðar svo mikið af hrískökum með dökku súkkulaði. Hvers vegna er ekki gott að borða döðlur og hrískökur?

„Þessar fæðutegundir æsa upp sykurskrímslið! Þetta er kolvetnarík fæða sem hækkar blóðsykurinn hressilega. En það er ekki sama í hvaða félagsskap döðlur og hrískökur eru. Ef við kynnum þær fyrir einhverju prótein- og fituríku, þá verða þær okkur ljúfari,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál