Fólk ætti að spá minna í útlitinu

Rafn Franklín Johnson.
Rafn Franklín Johnson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafn Franklín Hrafnsson einkaþjálfari segir að blóðsykurinn segi mjög mikið um heilsufar fólks. Hann bendir á að fólk eigi að beina athyglinni að innra útliti, ekki því ytra. 

„Ég er einfaldlega heltekinn af öllu því sem viðkemur heilsu, eins og þeir sem fylgja mér líklegast vita. Ég fylgist því vel með þróuninni í heilsufræðunum og reyni að vera með puttann á púlsinum á sviði næringar og heilsu. Ég reyni að kynna mér allar nýjustu rannsóknirnar og þær nýjungar sem koma upp hverju sinni. Eftir að hafa fylgst með nokkrum af fremstu læknum og sérfræðingum á þessu sviði fjalla um hve öfluga innsýn blóðsykursmælingar veita inn í þína eigin heilsu, langaði mig að vinna með minn eigin blóðsykur til að fylgjast með heilbrigði mínu og mínum persónubundnu þörfum í mataræði og lífsstíl.

Á þessum tíma voru svona sílesandi blóðsykursmælar enn illfáanlegir nema í gegnum lækni eða fyrir sykursjúka. Með ákveðnum krókaleiðum náði ég að panta mér nokkra mæla að utan til að prófa og í kjölfarið hóf ég mikla tilraunastarfsemi á sjálfum mér varðandi mataræði og áhrif mismunandi matvæla á minn líkama. Nú, þegar þessir mælar eru orðnir fáanlegir hér á landi, hef ég fylgst með mælingum hjá tugum manna og séð hvernig líkami fólks bregst mismunandi við ýmiss konar matvælum og lífsstílsháttum,“ segir Rafn Franklín.

Finnst þér blóðsykurinn hafa fengið of litla athygli hingað til?

„Umræða um blóðsykur og blóðsykursstjórnun á klárlega skilið meiri athygli þar sem þetta er ein af mikilvægari vísbendingum um eigið heilsuástand.

Eins og ég hef lengi predikað finnst mér fólk upp til hópa of upptekið af útlitinu í stað þess að huga betur að „innlitinu“, eða því sem er í gangi innra með okkur, bæði líkamlega og ekki síður andlega. Við einblínum frekar á mat sem fitar eða grennir okkur heldur en næringarefni, vítamín og steinefni en það eru efnin sem gera okkur kleift að hugsa betur, líða betur og starfa betur. Þetta er skiljanlegt að ákveðnu leyti þar sem útlitið blasir við okkur en til að fá innsýn í „innlitið“ þurfum við yfirleitt tól og tæki.

Í dag erum við hins vegar komin með tækni eins og sílesandi blóðsykursmæla og öflugar blóðprufur sem Greenfit hefur til dæmis verið að bjóða upp á hér á landi. Þessi tól getum við notað til að fá innsýn í eigið heilsufar og nýtt upplýsingarnar til að gera viðeigandi breytingar, hámarka heilsuna okkar og vera í toppstandi að innan sem utan. Það sem fólk gleymir oft er að þegar þú tekur heilsuna í gegn þá fylgir útlitið og líkamsformið yfirleitt með. En þegar þú tekur formið og útlitið í gegn er ekki víst að heilsan fylgi,“ segir hann.

Hvað er fólk almennt að borða allt of mikið af sem er slæmt fyrir blóðsykurinn og heilsuna almennt?

„Að mínu mati erum við Íslendingar að gera margt gott. Við reynum að halda í góðar og gamlar venjur eins og að borða reglulega fisk, innmat eins og lifrarpylsu og blóðmör, íslenskar mjólkurafurðir, kjöt og grænmeti þar sem lítið er notað af varnarefnum, lyfjum og lélegu fóðri. Við þyrftum hins vegar að draga úr neyslu á öllum þeim ónáttúrulegu og verksmiðjuframleiddu matvælum sem hafa læðst inn á matarborðið síðustu áratugi. Ýmsir láta ofan í sig óhóflegt magn viðbætts sykurs, unnar fræolíur, ásamt hinum ýmsu bragð-, litar- og gerviefnum sem eru notuð til að blekkja bragðlaukana og breyta matvælum á ýmsa vegu. Við þurfum að færa okkur aftur í átt að ferskleikanum og upprunanum. Ferskt kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir, lítið unnar gæðaolíur, ferskar mjólkurvörur, hreint smjör og fleira sem hefur haldið heilsunni góðri frá upphafi.“

Hvað hefur það kennt þér að vera með sílesandi blóðsykursmæli?

„Ég hef lært heilmikið á þessum síðustu árum. Það eru ákveðin matvæli sem virðast henta mínum líkama verr en öðrum. Að sama skapi komu önnur matvæli mér á óvart þar sem þau hækkuðu blóðsykurinn minna en ég hafði gert ráð fyrir. Til dæmis hunang.

Það er ákveðinn misskilningur hjá mörgum sem hafa dembt sér í þessar mælingar að halda að blóðsykurinn megi aldrei hreyfast og eigi að vera stöðugur allan sólarhringinn. Það er fullkomlega eðlilegt að blóðsykurinn hreyfist yfir daginn og taki sveiflum þegar þú innbyrðir kolvetni. Það sem ég hef frekar haft í huga eru stærðir og lengdir sveiflnanna ásamt langtímablóðsykurstölum hjá mér. Þetta eru að mínu mati sterkar vísbendingar um hversu góð efnaskiptaheilsan mín er, hversu skilvirk blóðsykursstjórnin er og hversu vel líkaminn þolir mismunandi fæðu. Svo er líka áhugavert að sjá hvernig blóðsykurstjórnunin breytist eftir streituástandi, svefngæðum og fleiru.“

Haustið er tíminn þar sem fólk fer á fullt. Byrjar að æfa alla daga og ætlar að massa þetta í eitt skipti fyrir öll. Hvers vegna er það slæmt?

„Frá mínum bæjardyrum séð er alltaf frábært þegar fólk ákveður að taka hreyfingu og heilsu föstum tökum. Vandamálið sem kemur hins vegar oft upp er að fólk ætlar sér of mikið, of hratt og hefur kannski ekki skýra stefnu og haldgóða þekkingu. Innblásturinn er oft mikil þegar rútínan skellur á með haustinu. Þá er um að gera að nýta hann en vera hreinskilinn við sjálfan sig og breyta lífsstílnum í hóflegum skrefum. Ef þú hefur ekkert æft sl. ár er kannski óraunhæft að ætla að mæta í ræktina sex sinnum í viku. Enda líka algjör óþarfi. Flott byrjun væri sem dæmi að setja sér það markmið að mæta fast tvisvar í viku í líkamsrækt og reyna þess á milli að bæta inn meiri hreyfingu í daglega rútínu, eins og í vinnunni eða göngutúra eftir vinnu eða um helgar. Þegar þú hefur sýnt stöðugleika í mætingu í að minnsta kosti 3 mánuði getur þú íhugað hvort þú viljir bæta inn einum aukadegi. Það sama á við um mataræði og aðra lífsstílsþætti. Það er betra að gera breytingar í smáum skrefum til frambúðar en að taka allt í gegn og viðhalda því í viku.“

Rafn Franklín er fylgjandi því að fólk borði meira prótein til að byggja upp frumur líkamans.

„Þetta er málefni sem ég fjallaði bæði um í bókinni minni Borðum betur og hef upp á síðkastið verið að kafa dýpra ofan í í hlaðvarpinu mínu 360° heilsa. Af orkuefnunum þremur, fitu, próteini og kolvetnum, er próteinið frábrugðið að því leyti að það er að minna leyti nýtt sem orkuefni og meira sem uppbyggingarefni frumna líkamans. Fólk hefur síðastliðin ár rifist fram og til baka yfir því hvort fitan sé óvinurinn eða hvort það séu kolvetni og í leiðinni hefur próteinið orðið aðeins út undan.

Prótein er okkur virkilega mikilvægt fyrir hina ýmsu líkamsstarfsemi en einnig til að viðhalda og byggja upp vöðvamassa. Að auki er prótein, út frá því sem ég hef séð, mest seðjandi af orkuefnunum þremur. Gegnum árin mín sem þjálfari hef ég tekið eftir því að flestir borða of lítið af próteini. Þetta leiðir bæði til þess að fólk sér minni árangur af líkamsræktinni og það endar yfirleitt á að borða meira magn af annað hvort fitu eða kolvetnum heldur en það myndi gera ef prótein væri stærra hlutfall máltíðarinnar.

Aukin próteinneysla getur því bæði auðveldað fólki að komast í betra form með því að draga úr heildarhitaeiningainntöku og gefið líkamanum efnin sem þarf til að byggja upp aukinn styrk og vöðvamassa. Svo ekki séu nefnd öll þau önnur hlutverk sem prótein sinnir í líkamanum til að halda þér við góða heilsu og vellíðan.“

Hvað finnst þér vera mest spennandi af því sem er að gerast í heilsuræktarheiminum akkúrat núna?

„Í heilsuræktarheiminum erum við að sjá þá þróun að fólk og sérfræðingar eru meira að færa sig í átt að þeim mataræðis- og lífsstílsvenjum sem hafa verið nokkuð stöðugar frá upphafi mannsins. Sérfræðingar færast í auknum mæli nær því að þessir þættir séu besta leiðin til að stuðla að bættri heilsu fólks og virka sem fyrirbyggjandi lausnir á lífstílssjúkdómum. Lítið unnin fersk matvæli, meiri tenging við náttúruna, meiri áhersla á náttúruleg og frjálsari hreyfimynstur í æfingum, takmarkaðri skjánotkun og fleira.

Á sama tíma erum við að nýta tækniþróun og aukna þekkingu til þess að hjálpa fólki að komast að rót sinna heilsufarsvandamála. Það er verið að búa til alls kyns tæki og tól sem geta bæði hjálpað okkur að lifa heilsusamlegra lífi miðað við nútíma lífsstíl og gefið okkur skýrari mynd af því hvernig við bætum heilsuna okkar á persónubundinn hátt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál