Börn sem syrgja vinna oft ekki úr sorginni fyrr en á fullorðinsárum

Guðrún Þóra Arnardóttir lögfræðingur starfar fyrir Sorgarmiðstöðina.
Guðrún Þóra Arnardóttir lögfræðingur starfar fyrir Sorgarmiðstöðina.

Lögfræðingurinn Guðrún Þóra Arnardóttir segir að börn og unglingar upplifi sorg öðruvísi en fullorðið fólk en hún sjálf missti föður 22 ára gömul. Guðrún Þóra starfar hjá Sorgarmiðstöð og sinnir þar markaðs- og fjáröflunarmálum. Hún situr einnig í stjórn Hringsins þar sem hún lætur gott af sér leiða.  Um næstu helgi fer fram rafíþróttamót til styrkar Sorgarmiðstöðinni sem rekin er með frjálsum fjárframlögum.

Hvers vegna vilduð þið gera það?

„Við viljum vekja sérstaka athygli á þessum hópi syrgjenda, fá aðra unglinga og fjölskyldur til að sýna samhug og styðja við bakið á jafnöldrum sem upplifa ástvinamissi og sorg með því að taka þátt í rafíþróttamótinu. Þetta er styrktarmót þar sem við ætlum safna peningum til að efla ungmennastarfið en Sorgarmiðstöð er einungis rekin á styrkjum og þurfum við því að vera dugleg að finna upp á ýmsum leiðum til að geta haldið úti góðu starfi,“ segir Guðrún Þóra.

Fer yngra fólk öðruvísi í gegnum sorg en eldri einstaklingar?

„Það sem ekki allir vita er að sorgarviðbrögð barna og unglinga og skilningur þeirra á lífi og dauða fer að mestu eftir aldri þeirra. Unglingar skilja hvað dauðinn er en þau hafa ekki sama þroska og fullorðnir til að takast á við hann. Börn í sorg á unglingsaldri draga sig oft í hlé, sýna reiði og taka jafnvel mjög mikla ábyrgð á heimili eða yngri systkinum. Það er algengt að þau vilji lítið ræða um missinn og sorgina. Vilja ekki íþyngja öðrum fjölskyldumeðlimum sem eru í sorg með sínum missi og erfiðum tilfinningum. Þau bera mörg harm sinn í hljóði. Það er líka algengt að þau opni frekar á tilfinningar sínar við bestu vini en þar mæta þau ekki nægum skilning því fáir á þeirra aldri deila reynslu. Þannig að þessi hópur syrgjenda er gjarnan mjög einn og einmana í sorginni,“ segir hún.

Finnst ykkur hjá Sorgarmiðstöð erfiðara að ná til þeirra sem eru yngri?

„Það er alltof oft sem einstaklingar sem missa náinn ástvin á unglingsárum vinna ekki í sorginni fyrr en á fullorðinsárum. Þetta er einn sá hópur sem er erfiðast að ná til. Sorgarmiðstöð vill því sérstaklega vinna að því að ná betur til unglinga og ungmenna í sorg. Efla starfið og gera stuðning, upplýsingar, fræðslu og ráðgjöf aðgengilegri fyrir þau.“

Hafa rafíþróttir hjálpað fólki að komast í gegnum sorgina?

„Það er þekkt erlendis að halda slík styrktarmót en varðandi sorgina að þá getur það verið allskonar. Það sem hjálpar einum virkar ekki endilega fyrir annan og eru bjargráðin margvísleg. Eitt af því sem við þurfum að gera þegar við upplifum sorg er að hvíla okkur frá sorginni og þá getur sjónvarpsþáttur eða góður tölvuleikur verið góð hugmynd,“ segir hún.

Rafíþróttamótið verður haldið 11. september hjá Arena, þjóðarleikvangi Íslands í rafíþróttum. Það fer fram klukkan 14.00 en Rafíþróttasamband Íslands og GameTíví styðja við mótið.

„Mótinu verður streymt á mbl.is esport, Stöð 2 og Twitch rás RÍSÍ og að sjálfsögðu verður íþróttalýsandi til að gera þetta enn skemmtilegra! Íslenska landsliðið í FIFA22 verður á staðnum og hægt er að skora á þau í leik. Þátttaka á mótinu kostar 3.900 kr. og auk þátttöku á mótinu fylgja þrír miðar í lukkupott sem reglulega er dregið úr í gegnum mótið og hægt að vinna glæsileg verðlaun. Áhorfendur geta líka keypt miða í pottinn til að taka þátt og þátttakendur geta keypt fleiri miða til að auka vinningsmöguleika sína,“ segir Guðrún Þóra.

Hún segir til mikils að vinna en á meðal vinninga er hin eftirsótta Playstation 5 tölva og FIFA23.

„Við vonumst til að vekja athygli á þessum hópi syrgjenda og hvetja fólk til að koma saman til að styðja við bakið á þessum viðkvæma hópi ásamt því að eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Þú þarft alls ekki að vera spilari á atvinnustigi til að taka þátt í mótinu og eru allir velkomnir. Við viljum hafa gaman og safna fyrir góðum málstað í leiðinni,“ segir hún.

Hægt er að skrá sig HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál