Hvaða mataræði er þetta eiginlega?

Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti.
Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti.

„Þegar ég er að kynna fyrir fólki tæknina, námskeiðin og kennsluna um blóðsykurstjórnun og sykurlöngun, þá spyr það gjarnan hvernig mataræði þetta sé?

Hvort þurfi að taka út ákveðnar fæðutegundir, telja hitaeiningar, vigta matinn, skrá allt niður, lúslesa allar innihaldslýsingar, koma sér upp biluðum lager af allskonar furðulegum fæðutegundum, breytast í listakokk á einni nóttu eða hvað er málið?

Stutta svarið við öllu þessu er nei, en ég mæli ávallt með því að taka sykurinn út í þessar fjórar vikur sem kennslan stendur. Árangurinn og gleðin verður bara svo miklu meiri ef það er gert. Þó er það ávallt ákvörðun hvers og eins, engin boð og bönn hér,“ segir Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti í sínum nýjasta pistli: 

Ef þið ákveðið að taka á ykkar sykurveseni, þá er ekki málið að fara á taugum yfir einhverri sykurögn í mat, skyldi hún leynast þar, heldur er það þessi sjáanlegi sykur sem ekki fer fram hjá neinum sem er málið. Sælgæti, kökur, kex, já einmitt það!

Mataræðið sem ég ráðlegg, er ykkar eigið. Þ.e. að vinna markvisst með þá fæðu sem þið eruð að borða fyrir. Langoftast er það besta leiðin og svo má læða inn hugmyndum um nýjungar hér og þar.

Ég er ekki hrifin af boðum og bönnum, matarplönum eða uppskriftaklámi! Í einfaldleikanum felst árangurinn að mínu mati og það er mjög algengt að fólk sé bara á fínasta mataræði, en ef máltíðirnar eru ekki rétt samsettar, þá skapar það vandamál.

Lykillinn að því að ná stjórn á sykurneyslu og blóðsykri er að raða máltíðunum rétt saman, með fæðu sem þið þekkið.

Svo eftir smá tíma, þegar að blóðsykurinn er orðinn til friðs, sykurlöngunin minni eða horfin, orkan, svefninn og lífið orðið léttara, þá skapast rými til að skoða alls konar nýja hluti og bæta einhverju skemmtilegu inn. Það er bara allt of erfitt að gera það ef orkuleysi, svefnleysi og vanlíðan er mikil.

Kolvetnakápurnar eru mikilvægastar

Hver einasta máltíð þarf að innihalda gott prótein og fitu, það er grunnurinn, aldrei bara kolvetni. Svo er málið að reyna að auka grænmetis- og trefjaneyslu eins og kostur er líka.

Ég kalla fæðu sem inniheldur þessi áður upptöldu næringarefni „kolvetnakápur“, því það er svo magnað hve umlykjandi og róandi áhrif þessi fæða hefur á upptöku kolvetna og kemur í veg fyrir mesta blóðsykursruglið. Bara eins og góð vetrarkápa heldur okkur hlýjum og mjúkum á köldum dögum.

Tökum nokkur dæmi um hvernig væri hægt að vinna með þetta

Kannski eruð þið vön að borða fjórar kartöflur með kvöldmatnum, en gætuð minnkað þær í eina eða tvær og aukið grænmetið á móti, með feitri salatsósu? Svo bara haldið ykkur við fiskinn, kjötið, kjúklinginn eða hvaða próteingjafa þið fílið. Þá virka próteinhlutinn, fituhlutinn og grænmetið sem kolvetnakápa á kartöflurnar.

Kannski er oft súpa, salat og brauð í hádeginu, eitthvað svona „létt og hollt“, en þá þarf að bæta við kolvetnakápum og jafnvel sleppa brauðinu. Bæta eggi, baunum, túnfiski eða osti í salatið og nota góða olíu yfir. Málið dautt!

Kannski eruð þið vön að borða ávexti á morgnana, en það er dálítið blóðsykursruglandi í upphafi dags og hugsanlega betra að borða þá seinnipartinn. Þá væri líka málið að borða smá lúku af möndlum, hnetum eða fræjum á undan eplinu, eða smyrja það með smá möndlu eða hnetusmjöri.

Einföldum lífið!

Það sem kemur fólki mest á óvart þegar það fer að vinna eftir þessu plani er hve einfalt og áreynslulaust það er.

Að mínu mati er alltaf málið að einfalda lífið eins og kostur er þegar kemur að mataræðinu, lífið er alveg nógu flókið og stressandi. Það að vera á taugum yfir hitaeiningaútreikninum, gröfum, öppum, flóknum uppskriftum og allt of ströngum matarplönum skapar bara streitu.

Og viti menn, streita hefur slæm áhrif á blóðsykurinn!

Klæðum okkur bara í fallega kápu og matinn líka og þá er allt í góðu!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál