10 áhugaverðustu heilsutrendin 2023

Ljósmynd/Unsplash

„Að halda sér í formi og heilbrigðum fellur aldrei úr gildi en hvernig við náum heilbrigði og vellíðan er alltaf að þróast. Rétt eins og aðrar atvinnugreinar er þróun í heilsu og vellíðan stöðug. Þegar tækninni fleytir fram, þekkingin eykst og nýjar aðferðir eru kynntar breytist það sem verður vinsælt. En líka þegar við enduruppgötvum fornar hefðir sem virka um leið og skiljum við hvers vegna þær virka,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir einn af eigendum Systrasamlagsins í sínum nýjasta pistli: 

Nú eru sérfræðingar á sviði heilsu- og mannræktar hver af öðrum að spá í strauma og stefnur fyrir árið 2023.

Áður en lengra er haldið er áhugavert að skoða þessa strauma með tilliti til kynslóðanna. Hvað vill hver kynslóð fá út úr sinni heilsurækt? Nýlegar erlendar kannanir sýna nefnilega að hugmyndir kynslóðanna um góða heilsu eru ekki endilega nákvæmlega þær sömu. Til dæmis segir kynslóðin sem nú er á aldrinum 18 til 24 ára aðalástæðuna fyrir sinni heilsurækt vera andlegs eðlis. Þau vilja fyrst og fremst halda geðheilsunni góðri. Þeir sem eru 60 ára og eldri horfa gjarnan á hjartalínuritið. Sú kynslóð sem er í miðið einblínir meira á efnið. Þar snýst flest um að styrkja kroppinn, spá í hrukkur og líta sem best út. Þetta er auðvitað ekki klippt og skorið því fólk á öllum aldri spáir í andann og aðrir meira í efnið. Þetta gefur þó ákveðnar vísbendingar um ólíkar hugmyndir kynslóðana.

En óhætt er að segja að heilsu- og mannræktarstraumar ársins 2023 verði alls konar því þeir spanna allt frá andlitsjóga að batakokteilum og frá reiki jóga og efnaskiptabyltingu til djúprar ástar og tengingar við náttúruna.

Mikill áhugi á dýpri tengingu/lækningu

Byrjum á reiki, því það vill svo til að áhugi fólks sem vill ná góðri heilsu og vellíðun beinist þangað. En hvað er reiki? Það vita nú þegar ansi margir. Það er ákveðin tegund af orkutækni sem gefur fólki færi á að slaka á. Margir vitna um að reiki dragi úr streitu og kvíða. Allt með mildri snertingu. Þetta getur verið frábær leið til að létta á langvarandi verkjum og spennu, stuðla að sjálfsheilun og til að örva ónæmiskerfi líkamans. Þær sem eru fróðastar um reiki segja það leiða okkur inn í meðfætt jafnvægi og þann heilunarmátt sem við öll búum yfir. Þegar við lifum þessa visku erum við það sem kallað er í vakandi vitund og um leið afslappaðri. Þá á sjálfsheilunin sér stað.

Reiki og jóga – saman? Já, takk!

Reiki rennur inn í jóga! Jóga- og hugleiðsluaðferðir eru síbreytilegar. Undanfarið hafa yin jóga, jóga nidra og tónheilun, allt þetta mjúka, fest sig í sessi (ekkert kraftaverk hér) og að sjálfsögðu hefur alls konar hugleiðsla náð mikilli útbreiðslu. Margir kjósa að gera meira af endurnærandi æfingum sem eru hægar, meðvitaðar og andlegar. Þetta er málið um þessar mundir. Þá er bara spurningin; hvers vegna ekki að sameina reiki og jóga? Praktísk reiki heilun og jóga gæti verið verið ávísun á eitthvað nýtt og spennandi.

Andlitsjóga

Andlitsjóga nýtur vaxandi vinsælda. Þökk sé andlitsjógakennaranum Koko Hayashi. Andlitsjóga felur í sér nudd og æfingar sem örva vöðva, vefi, húð og sogæðakerfi. Andlitsjóga mýkir og slakar á andlitsvöðvunum og dregur úr spennu, streitu og áhyggjum. Margir húðlæknar taka undir þetta og segja að andlitsjóga sé að verða mjög vinsælt hjá fólki sem vill bæta húðheilsu sína.

Snjalltæknin og svefninn

Um snjalltæknina þarf vart að fjölyrða og heldur ekki um hversu mikið henni fer fram. Þess er ekki langt að bíða uns tæknin verður nýtt til viðurkenndrar heilsufarsmælingar í heilbrigðiskerfinu. Við í Systrasamlaginu getum til dæmis staðfest að margir hafa leitað til okkar undanfarið með ákveðin bætiefni og vítamín í huga sem þau mæla svo með ýmiss konar snjalltækni. Það er gaman að segja frá því að mörg hafa komið vel út í þessum mælitækjum (til dæmis á snjallúrunum), sérstaklega þau sem snúa að því að róa, bæta blóðrás, draga úr streitu og bæta svefn. Þá erum við komin að hugtakinu dægurheilsa og ein af undirstöðum hennar er svefninn. Suðið í kringum svefninn hefur haldið fyrir okkur vöku. Áherslan á að fá góðan nætursvefn hefur þegar leitt til breyttra venja hjá mörgum. Má þar telja fjölgun óáfengra drykkja á kostnað áfengra, bætt mataræði, betri svefnrými og færri tækja í svefnherberginu. Svefn flokkast loks sem hluti af dægurheilsu. Það eru sjálfgefin mannréttindi að fá að sofa vel og flestir leita allra leiða til þess. Í dag á ekki nokkur manneskja að þurfa að missa svefn yfir svefninum.

Óáfengir batakokteilar!

Hér er alls ekkert nýtt á ferð. En staðreyndin er sú að þessir kokteilar halda áfram að bæta líðan fólks. Óáfengur kokteill með bataívafi? Þeir sem framleiða heilsusamlega óáfenga drykki og kokteila segjast aldrei hafa séð eins stórkostlegan vöxt í eftirspurn. Kannski er það vegna þess að betri óáfeng drykkjarmenning dregur úr félagslegum þrýstingi á þá sem kjósa að hvíla sig á eða drekka ekki áfengi. Góðum batadrykkjum er fagnað um allan heim sem skemmtilegum samkvæmisdrykkjum, hvort sem er á kaffihúsum, eftir æfingar, upp á fjöllum eða í partíum.

Náttfatatískan nær flugi

Talandi um svefninn sem er máski er að festa sig í sama mikilvæga sessi og vökustundirnar. Mörg tískuritanna hafa fullyrt að það verði skollin á dúndurnáttfatatíska vorið 2023 og margir af þekktustu hönnuðum heims leggja sig fram um að hanna falleg náttföt. Hér er auðvitað verið að vísa í að náttföt séu alls ekki bara til að sofa eða kósa sig í (þótt það megi líka). Heldur séu þau hugsuð til daglegra nota. Ekki síst til að skemmta sér í. Það verður í góðu lagi að sofna í fallega djammgallanum árið 2023.

Biophilíkar æfingar fyrir líkama og anda

Orðið biophilia er upprunnið úr grísku og „philia“ þýðir „ást á“. Margir kannast við orðið af samnefndri plötu Bjarkar Guðmundsdóttur frá 2011 sem leiddi til kynngimagnaðs samstarfs hennar við David Attenborough. Biophilia þýðir bókstaflega ást á lífinu eða lífverum. Þetta eru manneskjur sem hafa djúpa rótgróna ást á náttúrunni sem þær byggja á því innsæi og þeim náttúrulega drifkrafti sem er innprentað í DNA-ið okkar. Þá erum við komin að því sem málið fjallar um varðandi þetta heilsutrend sem er græn athöfn og meðvitaðar hreyfingar í náttúrunni. Með þessum grænu athöfnum sækjast iðkendur eftir heildrænni skynjun. Líkamsþjálfum með útsýni yfir vatnið, fjallasýn, birtuna og alvörufossa og ekki síður vilja þau finna jörðina undir fótum sér, lyktina af grasinu, moldinni og blómunum og heyra gnauðið í vindinum.

Efnaskiptabyltingin

Flest ef ekki allt heilsuspáfólkið er fullvisst um það að það verði bylting í efnaskiptaheilbrigði árið 2023. Við lærðum árið 2022 að borða (aftur) prótein, kolvetni og fitu í einni og sömu máltíðinni. Eitthvað sem gömlu heilsuvísindin hafa flest mælt með. Þegar allt kemur til alls er ekki víst að allir efnaskipasjúkdómar séu skrifaðir í stjörnurnar. Bætt efnaskiptaheilsa er rétt handan hornsins og möguleikarnir fleiri en nokkru sinni áður. Nú er farið að bera á því að fólk geti fylgst með öllu þessu sjálft (sem er langt umfram BMI-stuðulinn), þ.e. eigin líkamsástandi, heilbrigði beina, efnaskiptahraða, hjartaheilsu, næringarástandi og hormónajafnvægi.

Tenging við eitthvað ennþá meira

En aftur að andlegu heilsunni því líklega snýst hún ekki bara um leitina eftir jafnvægi. Á sama tíma og markaðssetning geðlyfja hefur aldrei verið meiri (og gífurlegar breytingar liggja í loftinu) hefur sjamanismi sprungið út. Hinn óséði heimur er svo áhugaverður fyrir marga vegna þess að mörgum þykir það sem við skynjum í okkar efnislega heimi alls ekki nóg. Tenging við eitthvað svo miklu miklu meira liggur í loftinu.

Sjálfsuppgjör og hófsemi

Þegar öllu er á botninn hvolft hafa síðustu áratugir snúist um svokallaðan sjálfsvöxt. Flest viljum við verða betra fólk. Uppgjörin halda áfram. Að sjálfsögðu. En kannski muntu vaxa meira með því að vilja ekki vaxa? Kannski er það að samþykkja og njóta hinn nýi vöxtur. Það gæti nefnilega verið fræðilegur möguleiki að með því að sætta okkur við minna verði okkur boðið upp á svo miklu meira. Að samþykkja og einfaldlega njóta verður máski hinn nýi vöxtur.

Við munum sætta okkur við minna því það býður upp á meira.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda