Handritshöfundur Grey's Anatomy gerði sér upp krabbamein

Elisabeth Finch, handritshöfundur Grey's Anatomy.
Elisabeth Finch, handritshöfundur Grey's Anatomy. Skjáskot/Instagram

Elisabeth Finch, handritshöfundur hinna geysivinsælu Grey's Anatomy-þátta, hefur játað að hafa logið til um að vera með fjölda heilsufarskvilla, þar á meðal krabbamein. Þá játar hún einnig að hafa logið til um andlát bróður síns og annarra fjölskyldumeðlima í von um vorkunn og samúð. 

„Ég hef aldrei fengið neins konar krabbamein. Ég laug þegar ég var 34 ára og það voru stærstu mistök lífs míns,“ sagði Finch í samtali við Ankler, en hún segir lygarnar hafa undið upp á sig og orðið sífellt stærri og flóknari. 

Nokkrir af söguþráðum Grey's Anatomy-þáttanna eru byggðir á meintri lífsreynslu Finch, sem hún hefur nú viðurkennt að hafi verið algjör uppspuni. Hún fór í launalaust leyfi fyrr á árinu eftir að hafa verið ásökuð um að gera sér upp mikil veikindi til að fá athygli, og í kjölfarið hófst rannsókn á málinu. 

Grey's Anatomy-þættirnir hafa notið mikilla vinsælda um allan heim og …
Grey's Anatomy-þættirnir hafa notið mikilla vinsælda um allan heim og hlotið fjölda verðlauna. Ljósmynd/imdb.com

Byrjaði allt með hnémeiðslum

Árið 2007 lenti Finch í slysi á hné þegar hún var í fjallgöngu og þurfti í kjölfarið að fara í aðgerð. Meiðslin þróuðust þó fljótt í flókinn lygavef sem Finch þótti erfitt að komast út úr, en í viðtalinu segist hún hafa orðið háð gjörgæslunni og ummönnuninni sem hún fékk þar og í kjölfarið orðið háð því og byrjað að ljúga í von um stuðning og athygli. 

Árið 2012 laug Finch því að vinum sínum og samstarfsmönnum að læknar hefðu fundið illkynja æxli sem væri að ryðja sér til rúms á hryggnum og að það svaraði ekki lyfjameðferð. Á sama tíma laug hún líka til um að hafa misst nýra og hluta af fótleggnum og hafi þar af leiðandi þurft að fara í hnéskipti. 

Laug til um andlát bróður síns

Blekkingar hennar náðu þó einnig yfir annað fólk, en hún laug til um andlát fjölskyldumeðlima hennar til að fá samúð og gekk jafnvel svo langt að segja að bróðir hennar, Eric, hefði fyrirfarið sér árið 2019. Síðar kom í ljós að Eric starfar sem læknir í Flórída. 

Dr. Marc D. Feldman, prófessor í geðlækningum og aðjunkt í sálfræði við háskólann í Alabama, ræddi við Ankler um hið dularfulla mál Finch, en hann sagði hana vera klassískt tilfelli af uppgerðarröskun (e. factitious disorder) þar sem einstaklingar gera sér upp líkamleg eða sálfræðileg einkenni í þeim tilgangi að setja sig í hlutverk sjúklings. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál