Ef þú átt bara fimm mínútur aflögu

Margir vilja komast í form en hafa ekki tíma til …
Margir vilja komast í form en hafa ekki tíma til þess. Getty images

Dr. Rangan Chatterje segir að það þurfi ekki nema fimm mínútur á dag til þess að bæta heilsuna. 

„Stærstu mistökin sem fólk gerir er að ætla sér of mikils með nýju átaki. Minni en stöðugar breytingar gera meira gagn og meiri líkur eru á að maður haldi sér við þær,“ segir Chatterje sem hefur skrifað margar bækur um heilsu og starfað við sjónvarp. Þá heldur hann úti vinsælu hlaðvarpi sem heitir Feel Better, Live More.

„Ef þú getur valið nokkra litla hluti til þess að breyta í hverri viku þá munu áhrifin safnast upp. Ég dansa til dæmis með börnunum mínum og geri litlar æfingar á meðan ég elda matinn.“

Hér eru nokkur ráð frá Chatterje:

1. Lofaðu sjálfum þér og stattu við loforðið

„Það getur verið yfirþyrmandi að breyta um lífsstíl. Það eru litlu skuldbindingarnar sem skipta máli. Veldu eitthvað eitt og haltu þig við það í sjö daga. Það er eitthvað mjög hvetjandi við það að standa við heit sín.“

2. Gerðu hnébeygjur á meðan þú eldar

„Alltaf þegar þú ert að gera eitthvað, elda mat eða ganga upp stigann, reyndu þá að bæta við smá líkamsrækt. Gerðu hnébeygjur við eldavélina eða auka uppstig í stiganum. Gefðu þér mínútu til að hreyfa þig á nýjan hátt.“

3. Settu þér bara nokkurra mínútna markmið

„Allir halda að þeir þurfi að hreyfa sig í að minnsta kosti þrjátíu mínútur svo að það telji. Það er ekki rétt og það getur verið yfirþyrmandi að hugsa þannig ef dagurinn er pakkaður. Ég ráðlegg sjúklingum mínum að stefna á fimm mínútur á hverjum degi. Byrja smátt. Það gæti verið göngutúr eða að hlaupa upp og niður tröppur.“

4. Stattu á einum fæti á meðan þú ert í símanum

„Jafnvægið versnar með aldrinum og við þurfum að þjálfa það upp. Sé jafnvægið slæmt þá eru meiri líkur á að maður detti og slasi sig. Besta leiðin til þess að þjálfa jafnvægi er að standa á einum fæti á hverjum degi. Ég geri það meðan ég er í símanum. Taktu tímann og reyndu líka að gera þetta með lokuð augun.“

5. Veldu þrjá hluti sem færa þér hamingju

„Hamingja er eitthvað sem þarf að hlúa að og næra. Við þurfum að vinna að hamingjunni og mér finnst gagnlegt að skrifa niður nokkra hluti sem færa mér hamingju og passa svo upp á að gera þá í hverri viku. Það getur verið að fara í bað, hlusta á tónlist eða að hitta vini.“

6. Farðu í göngutúr

„Margir virðast halda að maður verði að fara í klukkutíma langan göngutúr til þess að fá eitthvað út úr honum. Það er ekki rétt. Stundum er nóg að rölta í fimm mínútur. Göngutúrar eru frábærir fyrir almenna heilsu, liðamótin og bakið. Þá verður skapið einnig betra.“

7. Dansaðu á hverjum degi

„Ég ráðlegg sjúklingum mínum að dansa alltaf í fimm mínútur á dag. Það er gott fyrir hjartað, andlega heilsu og liðamótin. Settu skemmtilegt lag á fóninn og byrjaðu að dansa.“

8. Settu áhyggjurnar niður á blað

„Það er gott fyrir svefninn að skrifa niður allt það sem maður hefur áhyggjur af. Þannig hreinsar maður hugann fyrir svefninn.“

9. Ekki borða um leið og þú vaknar

„Ég hef komist að því að það skiptir meiru máli hvenær maður borðar heldur en hvað. Við ættum öll að reyna að fasta í 12 klukkustundir á dag. Þetta er það sem líkaminn og meltingarkerfið þarfnast. Ekki borða seint á kvöldin og ekki um leið og þú vaknar.“

Dr Chatterje er vinsæll læknir í Bretlandi sem hefur gefið …
Dr Chatterje er vinsæll læknir í Bretlandi sem hefur gefið út fjölmargar bækur um heilsu. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál