Ólst upp án foreldra og lærði að axla mikla ábyrgð

Sigurjón Ernir Sturluson.
Sigurjón Ernir Sturluson. Ljósmynd/Árni Sæberg

Ultramaraþonhlauparinn Sigurjón Ernir Sturluson hefur hlaupið meira en flestir undanfarin ár. Nálgun hans á heilsu og aðferðir hans við að koma sér í gegnum 160 kílómetra keppnishlaup hafa vakið athygli. Sigurjón segir, í viðtali í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar, að drifkrafturinn komi ekki síst frá löngun til að geta hjálpað öðru fólki. Með því að æfa sig í að leggja mikið á eigin herðar geti maður aðstoðað aðra. 

„Við erum hætt að hugsa um náungann og ekki síst fólkið sem byggði þetta land upp. Það sem gerist er að á endanum leitar fólk til þín ef það finnur að þú ert sterkur. Ég hef aldrei lent í kulnun eða öðru slíku allan þennan tíma og með því að vera staðfastur og halda alltaf áfram verður maður smám saman klettur sem annað fólk leitar til. Í dag erum við hætt að leggja hluti á börn og unglinga sem hjálpa þeim að verða sterkir einstaklingar. Auðvitað á ekki að þrælka barni, en börn sem ólust upp í sveit á Íslandi þurftu að ganga í alls kyns verk sem hjálpuðu þeim að axla ábyrgð og læra á lífið. Að mínu mati erum við að ala upp einstaklinga í dag sem kunna lítið á lífið þegar þau eru orðin fullorðin. Af hverju er harka orðin mjög neikvætt orð í dag? Er ekki jákvætt að geta verið harður af sér þegar það á við. Börnum og unglingum líður ekki illa í öguðu umhverfi. Þvert á móti verða til alls konar vandamál ef það verður of mikið agaleysi. Okkur þarf að líða reglulega illa til að finna raunveruleg þægindi. Það er engum hollt að lífið sé alltaf þægilegt og auðvelt.“ 

Ákvað strax að axla mikla ábyrgð

Sigurjón segir í þættinum frá því hvernig ástríða hans fyrir hreyfingu byrjaði strax þegar hann var barn. Hann ólst upp við erfiðar aðstæður og fann strax í æsku að honum liði betur ef hann hreyfði sig. 

„Ég átti skrýtið uppeldi og ólst upp við aðstæður sem voru á köflum erfiðar. Ég fann mjög fljótt að hreyfing var mitt meðal. Þegar eitthvað bjátaði á vissi ég að mér myndi líða betur ef ég myndi hreyfa mig. Ég gerði þessa tengingu strax í barnæsku og notaði hreyfingu beinlínis sem meðal til að slá á vanlíðan. Hvort sem það var körfuboltinn sem ég æfði lengi eða önnur hreyfing. Ég ólst upp án föður sem ég hitti mjög lítið og svo dó hann úr krabbameini. Svo flytjum ég og tvíburabróður minn frá móður minni og við bjuggum hjá systur móður minnar. Við fengum gott uppeldi, en auðvitað var það öðruvísi en hjá öðrum að vera hvorki með föður né móður á staðnum. Ég ákvað strax að axla mikla ábyrgð og vildi bera ábyrgð á bæði mér og bróður mínum. Ég passaði í raun upp á okkur báða á ákveðinn hátt og einhverra hluta vegna ákvað ég strax ungur að ég myndi taka ákvarðanir og axla eins mikla ábyrgð og ég gæti.“

Lærir mikið um sjálfan sig í langhlaupum

Eftir að Sigurjón hætti í körfubolta fór hann að halla sér meira að einstaklingsíþróttum og smátt og smátt fann hann löngun til að reyna eins mikið á sig og hann gæti. Hann hefur ítrekað hlaupið ofurhlaup allt að 160 kílómetrum og stundum með upphækkun allt að 9 þúsund metrum.

„Orðið ofþjálfun er í raun kolrangt orð. Það er bara til eitthvað sem heitir of mikil þjálfun fyrir þig. En þegar maður byggir sig upp í áraraðir til að þola hluti, er ýmislegt mögulegt. Maður byggir hægt og rólega bæði upp líkamann og hausinn til að þola meira og meira. En það er ekki hægt að fara alla leið á hausnum ef líkaminn fylgir ekki og öfugt. Lengsta hlaupið mitt er 160 kílómetrar, en mesta áskorunin var hlaup í Frakklandi sem var rúmlega 150 kílómetrar með meira en 9 þúsund metra hækkun.

Eina leiðin til að vita hvað maður þolir er að kanna hvar mörkin liggja og ég hef lengi viljað skoða hvað ég get þolað mikið. Það sem gerist í ofurhlaupum eins og þessum er að maður fer í gegnum allan skalann af tilfinningum og stundum meira en maður vissi að væri hægt. Fólk lærir jafnvel meira á sjálft sig í einu svona hlaupi en á mörgum árum í lífinu sjálfu. Áskorun af þessu tagi er eins og hraðspólun af lífinu sjálfu. Þú ferð í gegnum spennu, kvíða, vellíðan, vanlíðan, þú lærir að koma þér út úr aðstæðum, þarf að spyrja þig hvernig þú komst þér í aðstæðurnar og þar fram eftir götum. Svo kannski í miðju hlaupi ferð þú að hágráta af því að eitthvað gamalt fær að koma upp á yfirborðið.“

Þáttinn með Sigurjóni Erni og alla aðra hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á vef þáttanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál