Arnar ætlar að fasta í mánuð

Arnar Fannberg Gunnarsson er ekki búinn að borða síðan á …
Arnar Fannberg Gunnarsson er ekki búinn að borða síðan á gamlársdagskvöld og ætlar ekki að borða fyrr en 1. febrúar.

Arnar Fannberg Gunnarsson, vaktstjóri í Dalslaug, er ekki búinn að borða síðan á gamlársdag og ætlar ekki að fá sér neitt að borða fyrr en 1. febrúar næstkomandi. Arnar hefur stundað reglulegar föstur undanfarin ár og fyrir honum eru föstur eins og núllstilling. 

„Samband mitt við mat hefur sjaldan verið gott, þannig að þessi fasta fyrir mig er nokkurn veginn núllstilling fyrir mig. Mín leið til að sýna mér að það er ég sem hef stjórn á matnum, en ekki maturinn stjórn á mér,“ segir Arnar í samtali við Smartland.

Þetta er lengsta fasta sem Arnar hefur tekið en hann byrjaði að undirbúa ferlið í ágúst á síðasta ári. „Þá tók ég ákvörðunina um að láta verða af þessu og nýtti tímann til að undirbúa mig andlega undir þessa breytingu. Ég stefni á að brjóta föstuna 1. febrúar, og þangað til þá þá er það einungis vatn, svart kaffi og te sem ég fæ mér,“ segir Arnar sem einnig tekur fjölvítamín, D-vítamín og salt.

Frá því um áramót hefur Arnar misst 7,4 kíló en hann segir það að mestu vera uppsöfnuð vatnsþyngd. Hann segir ávinning föstu fljótan að koma. „Í þokkabót er vinnubolurinn strax farinn að passa mér betur, hann var orðinn frekar þröngur á mér því maður var alltaf svo út þaninn, en núna er hann bara laus og þægilegur og ég er meira að segja búinn að fara niður um gat í beltinu. En ég sé líka strax mikinn andlegan mun, ég á mikið auðveldara með að bæði sofna og vakna, og orkan yfirhöfðuð er meiri en hún var ásamt því að hugurinn er heilt yfir bara skýrari,“ segir Arnar. 

Myndin til vinstri er á aðfangadag en myndin til hægri …
Myndin til vinstri er á aðfangadag en myndin til hægri var tekin á fimmtudaginn síðasta, 5. janúar.

Missti 50 kíló á hálfu ári

Arnar hefur áður tekið föstur en fyrir um þremur til fjórum árum var hann orðinn 145 kíló. Á sex mánuðum náði hann að losna við 50 kíló með því að vera á kjötætumataræði (e. carnivore). 

„Ég borðaði einungis kjöt, og fastaði allar helgar 48 klukkustundir Nema fyrstu helgi mánaðarins, þá fastaði ég í 72 klukkustundir. En svo datt maður einhvernvegin bara í sama gamla gírinn og áður en maður vissi af var maður dottinn upp í 130 kíló þannig það er kominn tími til að skafa af sér og halda kílóunum af sér í þetta skiptið. Mér hefur í raun alltaf liðið mjög vel með að fasta, og reynslan mín af föstum bættist bara eftir bókina The Obesity Code eftir Dr. Jason Fung. Ég tel hana vera skyldulestur fyrir alla,“ segir Arnar. 

Spurður hvað hann vonist til þess að þessi langa fasti skili honum núna segir hann lægri fituprósent og heilbrigðara líf. „En ég er meira með augun á langtíma markmiðunum. Sem eru einfaldlega heilbrigðara og lengra líf og betra samband við mat,“ segir Arnar sem á sér þann draum að vinna sem kafari og stefnir á að í framtíðinni geti hann ferðast um heiminn og vinna við köfun. „Mig vantar sem betur fer bara ein réttindi í viðbót til að mega byrja aðstoða við köfunarkennslu og leiðsegja þannig þetta er allt að gerast,“ segir Arnar.

Áður en Arnar byrjaði á kjötætumataræðinu og svo hálfu ári …
Áður en Arnar byrjaði á kjötætumataræðinu og svo hálfu ári eftir að hann byrjaði.

„Það að fasta á ekki að vera erfitt“

Hann segist ráðleggja öllum sem stefna á svo langar fötur að gera það í samráði við lækni. Sjálfur fór hann í blóðprufu fyrir, fer um miðjan mánuð og svo eftir að föstu lýkur. Hann segir gaman að geta borið tölurnar saman. 

„Annars er það bara að passa uppá að drekka nóg af vatni, taka steinefni og vítamín og fylgjast með eigin líðan,“ segir Arnar. Hann segir mikilvægt að passa upp á hugarfarið í föstu og fara aldrei í gegnum föstu á þrjóskunni. „Það að fasta á ekki að vera erfitt, manni á að líða vel þegar maður fastar. Ég endurmet stöðuna á hverjum einasta degi og ef sú staða kemur upp að líkaminn minn segir hingað og ekki lengra, þá verður fastan brotin,“ segir Arnar. 

Þeir sem vilja fylgjast með Arnari geta fylgst með vikulegum uppfærslum hans í hópnum Föstusamfélagið á Facebook og einnig á Instagram

Áður en Arnar byrjaði á kjötætumataræðinu og svo mynd þremur …
Áður en Arnar byrjaði á kjötætumataræðinu og svo mynd þremur mánuðum seinna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál