Hvernig á að standa við áramótaheitin?

Margir láta sig dreyma um breytta lífshætti við upphaf hvers …
Margir láta sig dreyma um breytta lífshætti við upphaf hvers árs. mbl.is/Thinkstockphotos

Rannsóknir sýna að flestir ná að standa við áramótaheitin alveg fram í febrúar. Eftir það fer að síga á ógæfuhliðina hjá miklum meirihluta eða 55% fólks. Aðeins 19% ná að halda út árið eða lengur.

Sérfræðingar eru sammála um að það skipti miklu máli að setja sér einföld og viðráðanleg markmið. 

„Allt of margir setja markið of hátt og vilja breytast í einni hendingu. Það skapar mikla pressu á fólk,“ segir Anna Williamson markþjálfi. 

„Upphaf árs er venjulega mjög krefjandi tími. Bæði er kalt og dimmt úti og svo er fólk kannski illa statt fjárhagslega eftir jólin. Ef aðstæðurnar eru erfiðar er enn erfiðara að ætla sér stórar breytingar á lífsstílnum.“

„Meginástæða þess að fólk missir dampinn er að markmiðin eru óraunhæf. Þá getur verið að þau hafi verið ákveðin í flýti eða séu ekki nógu nákvæm. Það að breyta sínum föstu venjum krefst góðs undirbúnings, fólk þarf að þekkja sjálft sig og vera tilbúið til að skuldbinda sig í breytingu,“ segir einkaþjálfarinn Rachael Sacradoti.

Þetta þarftu að gera áður en þú ferð af stað:

1. Búðu til aðgerðaáætlun

Skrifaðu niður hvernig þú ætlar að ná markmiðum þínum með eins nákvæmum hætti og hægt er. Þetta geturðu gert í dagbók eða á miða sem þú hengir á spegilinn og sérð á hverjum degi.

„Eins er mikilvægt að geta fylgst með árangrinum t.d. einu sinni í viku eða mánaðarlega út árið. Það heldur manni ábyrgum og hvetur mann áfram.“ 

2. Hugsaðu hvernig áramótaheitið passar inn í líf þitt

Það er mikilvægt að huga að því hvernig markmiðin passa inn í þitt daglega líf. Sumir hafa meiri tíma en aðrir og geta kollvarpað öllu. Aðrir geta það ekki. Finndu út hvað hentar þínum lífsstíl til þess að ná settu marki. 

„Það er tilgangslaust að setja sér áramótaheit ef maður hugsar ekki út í hvort maður hafi tíma til þess. Þetta á sérstaklega við um þá sem vinna úti.“ 

3. Ekki setja þér of mörg áramótaheit

Í byrjun árs erum við öll mjög spennt fyrir breytingum en allir sérfræðingar mæla gegn því að breyta of miklu í einu. Það sé ávísun á uppgjöf.

„Það getur virkað yfirþyrmandi að setja sér of mörg áramótaheit. Það er frábært að vilja breyta til góðs en maður þarf samt að passa sig á að geta staðið við þau. Sjálfstraustið minnkar ef við náum ekki að standa við gefin loforð þannig að það er betra að hafa markmiðin fá, einföld og skýr. Veldu til dæmis eitthvað þrennt sem þú veist að þú getur staðið við.“

4. Byrjaðu á einhverju frekar en að hætta einhverju

„Þetta er allt spurning um hvernig við römmum eitthvað inn. Það virkar jákvætt og hvetjandi að taka upp ný áhugamál og heilbrigðari venjur frekar en að banna sér að fá sér nammi. Því þá fer maður í niðurrif ef maður svíkur loforðið. Við skulum ekki banna okkur neitt, frekar bæta við einhverju æðislegu. Það gæti verið hvað sem er eins og til dæmis að elda hollan mat einu sinni í viku. Eitthvað viðráðanlegt og eitthvað sem býður upp á sveigjanleika.“

5. Spurðu þig hvers vegna

Er þetta til þess að bæta líf þitt eða heilsu? Efla andann eða félagslífið? Er þetta eitthvað sem þig hefur alltaf langað til þess að gera? 

Það að vita hvaðan hvatinn kemur drífur mann áfram að settu marki. 

6. Búðu til rútínu

Ef þú ert ekki vanur að halda þig við ákveðna rútínu hvað líkamsrækt varðar þá getur verið krefjandi að finna stað fyrir það í lífinu. Þess vegna er mikilvægt að hafa aðgerðaáætlun tiltæka og skrifa markmiðin niður á blað.

„Ég hef mikla trú á styrktaræfingum og það er hægt að gera þær hvar og hvenær sem er. Ef maður hefur ekki tíma til þess að eyða klukkustund í ræktinni þá getur maður byrjað á að gera hnébeygjur heima í fimm mínútur á dag og svo bætt við æfingar smátt og smátt. Í hvert skipti sem maður hreyfir sig virkar það hvetjandi á mann og maður verður allur jákvæðari.“

7. Slepptu því að vera með samviskubit

Áramótaheit geta verið drifkrafturinn sem þú þarft til þess að breyta lífi þínu en þau geta líka verið rót alls samviskubits. Það er bara gaman að standa við sett markmið ef þau veita manni ánægju en rífa mann ekki niður andlega. Þau verða að vera viðráðanleg og skemmtileg en ekki eins og skyldustörf.

8. Fagnaðu litlu sigrunum

„Mundu að fagna öllum litlu sigrunum, sama hversu litlir þeir eru. Það að lifa í núinu og njóta lífsins er afar mikilvægt til þess að halda þetta út til langs tíma.“

Algengustu áramótaheitin:

  • Hreyfa sig reglulega
  • Hugleiða daglega
  • Borða hollari mat
  • Leggja fé til hliðar
  • Lesa fleiri bækur
  • Keyra minna, ganga meira
  • Ferðast meira
  • Verja meiri tíma með vinum og ættingjum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál