Miðaldra konum ráðið frá að synda í köldu vatni

Læknar ráða konum á miðjum aldri frá því að synda …
Læknar ráða konum á miðjum aldri frá því að synda í köldu vatni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kuldaböð og sjósund hafa sífellt orðið vinsælli á undanförnum árum. Hér á Íslandi lifa margir varla vikuna af nema þeir komist í sund í sjónum eða kalda pottinn í laugunum.

Nú hafa læknar varað konur á miðjum aldri við að synda í köldu vatni því það geti leitt af sér alvarleg lungnaveikindi. 

Breska blaðið Telegraph greinir frá og vísar í grein sem birtist BMJ Case Reports á dögunum. Greinin fjallar um konu á sextugsaldri sem veiktist alvarlega í sundi í köldu vatni. Konan er í góðu líkamlegu formi og keppir í þríþraut. 

Í þríþraut er keppt í sundi, hjólreiðum og kapphlaupi. Þá er synt 1.500 metra sund, hjólað 40 kílómetra og hlaupið 10 kílómetra. 

Konan, sem ekki er nafngreind í umfjölluninni, fékk vökva í lungun sem leiddi af sér vökva í hjartavöðva. Hún varði nótt á sjúkrahúsi eftir að hafa ofandað og hóstað upp blóði. Hún hefur náð sér að fullu og er snúin aftur til æfinga. 

Veikindunum lýsa bráðatæknar sem lungnabjúg sem komið getur upp við sund (e. swimming-induced pulmonary oedema (SIPE)) og er ástandið þekkt á meðal þeirra sem stunda köfun.

Fjöldi tilfella vanmetinn

Áhættuþættir fyrir SIPE eru meðal annars aldur og kyn en eldri konur eru þannig líklegri til að fá lungnabjúg við sund. Undirliggjandi hjartasjúkdómar eru einnig áhættuþáttur sem og sund í köldu vatni.

Læknar meta það svo að fjöldi tilfella sé vanmetinn þar sem þau séu oft ekki tilkynnt eða rétt metin. 

Konan sem fjallað er um synti í 17 gráða heitu vatni, í blautbúningi að nóttu til. Var hún búin að synda um 300 metra áður en hún fór að hósta upp blóði. Þurfti hún að draga sig úr keppni sem fara átti fram tveimur vikum seinna. 

Við komuna á sjúkrahús kom í ljós að hún var með gríðarlega háan hjartslátt og á röntgenmyndum sást lungnabjúgur. Í frekari myndgreiningu sást að vökvi hafði einnig komist inn á hjartavöðva, sem olli miklu álagi, en ekki skemmdum á vöðvanum. Einkennin hjöðnuðu um tveimur klukkustundum eftir að hún kom á spítalann.

Algengt á meðal kafara

Orsök SIPE er ekki greinileg, en telja læknar líklegasta áhættuþáttinn vera þann að blóðþrýstingur hækki mikið þegar fólk syndi af mikilli ákefð í köldu vatni, í þröngum klæðum sem valda meira álagi á hjarta- og æðakerfið. 

Vökvi í lungum er algengt vandamál á meðal kafara, en um einn af hverjum tíu sem látast við köfun sýna merki um lungnabjúg. Læknar telja nú að sund í köldu vatni geti kallað þetta fram. 

Þannig mæla læknar með því að fólk syndi hægar, sé ekki í þröngum blautbúningi, syndi ekki einsamalt og syndi í heitara vatni. Einnig er mælt með því að forðast bólgueyðandi lyf á borð við íbúprófen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál