Stofnaði skotboltahóp eftir erfitt tímabil

Kolbrún Tómasdóttir ákvað að stofna skotboltahóp eftir erfitt tímabil.
Kolbrún Tómasdóttir ákvað að stofna skotboltahóp eftir erfitt tímabil. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbrún Tómasdóttir stofnaði skotboltahópinn Skytturnar í fyrra. Meginmarkmið hópsins er að skemmta sér. Konurnar hittast ekki til þess að halda líkamlega forminu góðu en hreyfingin er stór plús

Hópur af félagsþyrstum konum eftir alltof langan heimsfaraldur sem eru kannski ekkert klikkað góðar í íþróttum en langar að hittast og hreyfa sig.“ Svona lýsa Skytturnar sér en hópinn stofnaði Kolbrún, eða Kolla eins og hún er kölluð, eftir erfiðan tíma í heimsfaraldrinum.

„Kórónuveiruárin voru erfið hjá mér eins og hjá svo mörgum öðrum. Ég lenti líka í miklum áföllum á þessum árum og það gerði allt enn þá erfiðara. Fyrir þetta allt saman var ég mjög félagslega virk og stundaði mikla líkamsrækt. Ég vildi koma mér aftur af stað og ekki bara að hreyfa mig heldur vildi ég líka byrja að hitta fólk aftur. Nýlega höfðu vinkonur mínar stofnað skotboltahóp í öðru bæjarfélagi, já ég lýg því ekki að það eru fleiri kvennaskotboltahópar í gangi, og ég hugsaði bara með mér að þetta væri ég til í að gera.“

„Ég hóaði í systur mína og vinkonur og taldi þeim trú um það að þetta yrði ótrúlega skemmtilegt og gefandi,“ segir Kolla og segir að í dag séu konur úr öllum áttum og á öllum aldri í hópnum. „Á tímabili vorum við orðnar mjög margar í hópnum en með tíð og tíma hefur aðeins síast úr og við erum mjög samheldinn og þéttur hópur í dag. Öllum er frjálst að bjóða vinkonum með sér að koma og prufa og svo er það þeirra ákvörðun hvort þær vilja vera hluti af hópnum okkar eða ekki.“ 

Komnar með treyjur og bakhjarl

Hvaða áhrif hefur skotboltahópurinn haft?

„Þessi skotboltahópur hefur haft gífurlega jákvæð áhrif á mig og þetta er skemmtilegra en mig hafði nokkurn tímann grunað. Ég hef notið þess að fara að hreyfa mig með vinkonum mínum og ég hef kynnst mörgum góðum konum á þessum mánuðum sem við höfum verið að æfa. Ég finn að þetta hefur jákvæð áhrif á okkur allar og við héldum þessu ekki áfram ef okkur fyndist þetta ekki skemmtilegt. Ég meina, við erum komnar með treyjur, bakhjarl og allt saman, hér er engin að grínast lengur. Við bíðum bara spenntar eftir símtalinu frá ÍSÍ.“

Skotboltahópurinn Skytturnar.
Skotboltahópurinn Skytturnar. Kristinn Magnússon

Hefur þú alltaf verið svona jákvæð og drífandi?

„Í sannleika sagt, já. Ég á auðvelt með að kynnast fólki og mér finnst gaman að gera eitthvað nýtt og draga fólk með mér í einhverja vitleysu. Ég þarf helst að vera með fimmtán bolta á lofti í einu og vera með alls kyns verkefni á prjónunum.“

Kolla var ekki mikið í íþróttum þegar hún var yngri og var aldrei í liðsíþrótt þó hún hafi verið að dugleg að hreyfa sig í seinni tíð. „Ég kynnist náttúrlega bara skotbolta eins og flest önnur börn, í grunnskóla,“ segir Kolla. Gamlir handboltahetjuhæfileikar eru því ekki nauðsynlegir á skotboltaæfingum.

Það er tekið á á æfingum.
Það er tekið á á æfingum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta snýst aðallega um að hafa gaman af en ég ætla ekkert að ljúga, við svitnum alveg duglega á þessum klukkutíma. Á þessum klukkutíma förum við bara svolítið aftur í grunnskólaárin og erum ekki í neinum erfiðum æfingum. Upphitunin okkar er oftast það sem við köllum setubolta, ef þú ert skotin að þá sestu þar til sá sem skaut þig er skotin eða þú nærð að teygja þig í bolta sitjandi. Svo höfum við líka hitað upp með kýló og stórfiskaleik. Það hefur komið upp sú umræða að taka píptest en það var slegið mjög hratt út af borðinu. Eftir upphitun förum við alltaf í það sem kallast gryfjubolti sem er mjög hraður og skemmtilegur leikur og þá náum við að svitna vel,“ segir Kolla.

Er hægt að keppa í skotbolta?

„Heldur betur! Við höfum einu sinni keppt við stelpurnar úr Norðlingaholtinu, þær hafa verið aðeins lengur í þessu en við. Það var ótrúlega gaman að fá þær til okkar og þær kenndu okkur betur á þetta allt saman. Við kepptum í gryfjubolta og það var gífurlega skemmtilegt. Við vitum að það eru fleiri lið þarna úti og stefnum á það að keppa við fleiri. Hver veit nema við hendum síðan í gott skotboltamót við tækifæri.“

Aðalatriðið er að hafa gaman.
Aðalatriðið er að hafa gaman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jákvætt að rækta bæði líkama og sál á sama tíma

Er flókið að koma fyrir æfingu á föstum tíma þegar það þarf að sinna heimili og öllu sem tilheyrir?

„Já það er frekar erfitt, þegar maður er með stórt heimili er dagurinn fullur af verkefnum og maður á það til að týna sjálfum sér í amstri hversdagsins. Það er svo nauðsynlegt að hafa eitthvað fyrir mann sjálfan, eitthvað sem fær mann úr vinnu- eða mömmugallanum. Sumir fara á keramiknámskeið, aðrir setjast niður og prjóna á meðan að fólk eins og ég stofnar skotboltahóp og fer aftur í ræturnar. Í dag er þessi klukkutími á fimmtudagskvöldum heilagur tími fyrir mig og allir á heimilinu vita það. Sjö ára sonur minn talar akkúrat þvílíkt stoltur um það út á við að mamma hans æfi sko skotbolta.“

Það er hægt að keppa í skotbolta.
Það er hægt að keppa í skotbolta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Er kannski of oft lögð áhersla á að hreyfa sig til þess að halda sér í góðu formi í stað þess að njóta sín í góðum félagsskap?

„Mér finnst það mikið vera að breytast. Ég man þegar ég byrjaði fyrst að stunda líkamsrækt, þá var maður oftast bara einn með sjálfum sér að lyfta og fór síðan í einn og einn spinningtíma. Í dag finnst mér miklu meira framboð af hópatímum og námskeiðum og þar leitar maður oft líka í félagsskapinn. Allavega á námskeiðunum, það eru til að mynda líka komnir göngu- og hlaupahópar úti um allar trissur og ég veit að margir haldast þar út af félagsskapnum. Það er jákvætt að rækta bæði líkama og sál og frábært að gera það á sama tíma.“

Mætti fólk vera duglegra að hittast og leika sér?

„Algjörlega! Ég hef alveg heyrt af því að konur þori ekki að koma af því þær eru hræddar um að þær séu ekki í nógu góðu formi eða þær þekki engar sem mæta. En við erum jafnmisjafnar og við erum margar þegar kemur að daglega forminu. Það er engin að þessu út af forminu. Við erum bara að þessu til að hafa gaman af, hreyfingin er bara rosalega mikill plús í þessu öllu saman.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál