„Líkamlega og andlega leið mér eins og 20 ár hefðu farið af mér“

Auðun Georg Ólafsson fjölmiðlamaður þegar hann fór í heilsuferð til …
Auðun Georg Ólafsson fjölmiðlamaður þegar hann fór í heilsuferð til Póllands síðasta sumar. Ljósmynd/Aðsend

Auðuni Georg Ólafssyni, fréttastjóra á K100, fannst hann vera orðinn 20 árum yngri eftir heilsuferðir til Póllands síðasta sumar. Í fyrstu hélt hann að ferðirnar væru bara fyrir eldri konur en segir það kolrangt og mælir með að karlmenn hugi líka að heilsunni.

Ég var ekkert endilega í mjög slæmu ástandi þegar ég fór fyrst til Póllands en kórónuveirukílóin höfðu læðst aftan að mér. Mig langaði í meiri orku og lífsgleði og að fá endurnærandi hvíld frá daglegu stressi. Það var lögð áhersla á að þetta væri ekki einhver megrunarferð þar sem einhverjum töfrum var lofað heldur einföld aðferð til að endurheimta fyrri orku og styrk,“ segir Auðun um ástæðu þess að hann fór í heilsuferð til Póllands síðastliðið sumar.

Auðun náði góðum árangri á aðeins tveimur vikum í Póllandi en leið svo vel að hann ákvað að vera lengur.

„Ég fór svona tautandi og röflandi til Póllands. Ég sá fljótlega að þetta hentar öllum og í hvaða formi sem viðkomandi er. Fyrst var ég í tvær vikur í hópi með öðrum og svo framlengdi ég um aðrar tvær vikur. Hópurinn gaf mér jákvæða hvatningu og leiðsögn þegar á þurfti að halda. Þegar ég fór á eigin vegum átti ég svolítið í basli með þetta og var orðinn mjög eirðarlaus. Ég átti svo kost á að bæta við tveimur vikum síðar um sumarið svo samtals urðu vikurnar sex. Best gekk mér þegar ég var í hópi sem náði mjög vel saman, það er einhver óútskýranlegur kraftur sem myndast við það frekar en þegar maður er einn í þessu. Flestir ná miklum árangri á einungis tveimur vikum og ég fann strax mikinn mun á minni líðan, ekki bara í skrokknum. Kílóin sem fuku voru eiginlega aukaverkun af bættri heilsu.“

Auðun Georg Ólafsson fann mun á sér eftir dvöl í …
Auðun Georg Ólafsson fann mun á sér eftir dvöl í Póllandi síðasta sumar. Ljósmynd/Olga Björt Þórðardóttir

Jákvæður bónus að léttast

Varstu í slæmu ástandi þegar þú fórst út?

„Mér fannst það ekki þegar ég fór en þegar ég skoða myndir af mér frá þessum tíma þá var ég klárlega of þungur og með mikinn bjúg á líkamanum. Allur bólginn og skakkur einhvern veginn af dæmigerðu vinnustressi. Það var mjög áhugavert hversu fljótt líkaminn aðlagaðist því sem var í boði í Póllandi. Ég fór að sofa betur, brosa meira og fá meiri orku.“

Hvaða árangri náðir þú?

„Líkamlega og andlega leið mér eins og 20 ár hefðu farið af mér. Maður nær algjörlega að afstressast í þessu umhverfi og fær betri tengingu við sjálfan sig og aðra. Kílóin sem fuku urðu svona jákvæður bónus ofan á aukinn kraft og lífsgleði. Fólk sem fer í svona ferðir talar oft um jákvæðar breytingar á húð sinni og það kemur kankvís glampi í augun sem erfitt er að lýsa en ég upplifði mjög mikla vellíðan sem mér finnst mjög eftirsóknarvert að viðhalda,“ segir Auðun.

Lífið í Póllandi er ljúft.
Lífið í Póllandi er ljúft. Ljósmynd/Aðsend

„Ég varð hissa hversu fljótt ég náði góðum tökum á þessu og náði fljótt árangri. Fyrst ætlaði ég bara að dvelja þarna mjög stutt og skoða fleiri staði en áttaði mig fljótt á því að þetta var algjörlega besti staðurinn til að vera á. Frábært hótel, yndislegt starfsfólk, falleg náttúra og allt til alls. Ég átti ekki von á að mér myndi finnast maturinn eitthvað sérstaklega góður en hann var fallega fram settur og bragðaðist mjög vel. Það var líka boðið upp á holla djúsa og súpur svo maður varð aldrei svangur. Ég átti líka ekki von á að hafa jafn mikla orku og ég hafði til að fara í gönguferðir og gera þrekæfingar á jafn litlu fæði en það var alveg magnað að upplifa það. Það sem gerðist innra með mér kom mér líka á óvart. Mér leið mun betur í eigin skinni og ég fór að gefa mér fimmur í speglinum.“

Maturinn er girnilegur og hollur.
Maturinn er girnilegur og hollur. Ljósmynd/Aðsend

Auðun segir vissulega hægt að ná góðum árangri heima svo lengi sem álagið sem fylgir vinnunni nær ekki í skottið á fólki og súkkulaði og önnur óhollusta fær ekki að fara ofan í innkaupakerruna.

„Þegar farið er í svona ferð er maður í pínu bómull þar sem hollur matur er settur fyrir framan þig og það er stutt í næsta göngutúr eða æfingu með frábærum þjálfurum. Það er gríðarlega langt í næstu sjoppu og næsta skyndibitastað. Auðvitað er hægt að ná sama árangri með miklum aga heima fyrir og um að gera fyrir sem flesta að reyna það.“

Hættur á blóðþrýstingslyfjunum

Auðun fór ekki í svokallaða stólpípumeðferð og segir að slíkar meðferðir séu á undanhaldi.

„Það er alveg í boði að fara í ristilskolun en slík meðferð er hjá lækni sem er með stofu í bænum sem er svolítið fyrir utan hótelið. Fólk getur valið að þiggja svoleiðis eða ekki. Ég kaus að sleppa því og drakk bara mikið vatn.“ 

Af hverju eru karlmenn ekki jafnduglegir að fara í heilsuferðir og konur?

„Ég hélt fyrst að svona ferð á heilsuhótel í Póllandi væri ekki fyrir karlmenn eins og mig. Það reyndist algjört rugl. Ef ég tala fyrir mig þá var ég með mjög margar fyrirfram gefnar skoðanir og svolítið að reyna að massa lífsstílsbreytingar á eigin forsendum. Pirraðist á einhverjum rosalega góðum ráðum sem ég var að lesa um í einmitt viðtölum eins og þessum. Efaðist um allt, hamaðist í ræktinni og hljóp hálft maraþon, reyndi að hætta að borða nammi og pizzu og sprakk svo reglulega. Það fylgir þessu líka dálítil uppgjöf, að gefast upp fyrir eigin skoðunum og gefa einhverju séns sem maður hefur ekki prófað áður. Kannski eru konur betri í því, ég veit það ekki. Það vantar klárlega fleiri karla í þessar ferðir,“ segir hann.

Auðun er það heillaður að Póllandi að hann er búinn að skipuleggja ferðir til Póllands. „Við Helga Möller og Skúli Guðmundsson höfum tekið að okkur að skipuleggja ferð til Póllands núna 7. til 21. janúar og aftur í maí. Það gefur okkur mikið að miðla af okkar reynslu til að bæta heilsu annarra,“ segir Auðun.

Auðuni gengur vel að viðhalda árangrinum sem hann náði í sumar. „Auðvitað eru freistingar út um allt og stressið í daglegri rútínu minnir fljótt á sig. Hjartalæknirinn tók mig nýlega af blóðþrýstingslyfjum svo eitthvað er ég ennþá að gera rétt,“ segir Auðun spenntur að fara aftur út til Póllands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál