„Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki fyrir alla að mæta á dýnuna“

Una Kolbeinsdóttir er jógakennari.
Una Kolbeinsdóttir er jógakennari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Una Kolbeinsdóttir, markþjálfi og jógakennari, var feimin og með lítið sjálfstraust þegar hún hóf að stunda jóga 17 ára gömul. Hún fann öryggi og vellíðan í jóga og brennur fyrir að kveikja sömu tilfinningar í hjörtum annarra.

„Jóga hefur gert svo margt fyrir mig, örugglega meira en ég geri mér grein fyrir. Ég stunda jóga til að róa hugann og að líða vel bæði andlega og líkamlega. Jóga hefur gefið mér andlegan styrk, þolinmæði og yfirvegun svo fátt sé nefnt. Líkamlega hefur jóga aukið líkamsvitundina mína, bætt liðleika og hreyfifærni, losað um spennu og stífleika. Það er svo magnað að vera með góða líkamsvitund og tengdur sjálfum sér, að finna nákvæmlega fyrir líðandi stundu,“ segir Una.

„Einnig hefur regluleg iðkun kennt mér að mæta sjálfri mér nákvæmlega þar sem ég er hverju sinni án þess að dæma, að sýna mér mildi í því sem er. Að finna fyrir þakklæti og ást gagnvart sjálfri mér fyrir að gera líkama mínum og huga gott, sem er svo fallegt og smitar út frá sér á öðrum sviðum.“

Una Kolbeinsdóttir segir gott að fá hvíld frá hversdeginum á …
Una Kolbeinsdóttir segir gott að fá hvíld frá hversdeginum á jógamottunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andlega vinnan oft erfiðust

Una fór í sitt fyrsta jógakennaranám til Ítalíu árið 2017. Hún var í litlum bæ þar sem hún bjó ásamt öðrum í húsi við ströndina í mánuð.

„Það var krefjandi á góðan hátt að fara ein til Ítalíu í jóganám og þessi reynsla er mér mjög dýrmæt. Dagarnir snérust um jóga, að borða, njóta og sofa. Við byrjuðum alla morgna á því að skola nefið með saltvatni – sem er algjör snilld til að forðast kvef á þessum tíma árs, ég mæli með að kynna sér það. Á milli jógatíma lærðum við um jógafræðin, líffærafræði, heimspeki, að hanna og setja saman tíma og fengum þjálfun í að kenna. Það er mikil upplifun og sjálfsskoðun að fara í jóganám og ég mæli með því fyrir alla sem hafa áhuga á að dýpka þekkinguna sína á jóga að kynna sér það, þó svo að það sé bara fyrir þig en ekki til að kenna.“

Una segir jóga ekki bara snúast um líkamlegan ávinning. Fyrir henni snýst jóga til að mynda aðallega um andlegan ávinning, að finna ró og vellíðan. „Sem dæmi þá gefst okkur færi í jógatíma að staldra við og mæta því sem er og að vera með jafnvel óþægilegum hugsunum eða tilfinningum. Þetta er oft erfiðasta skrefið fyrir marga sem eru að byrja, að vera með því sem er í sátt án þess að hlaupa frá því eða að forðast það á einhvern hátt. En það er ekki síðra að sækjast í jóga fyrir líkamlega ávinninginn, til dæmis eftir mikla kyrrsetu og langan dag er fátt betra en að fara í jóga til að losa um streitu og spennu í líkamanum, það gerir öllum gott.“

Una byrjaði að stunda jóga 17 ára.
Una byrjaði að stunda jóga 17 ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til eru margar mismunandi tegundir af jóga en Una er hrifnust af rólegu jóga, mjúkum hreyfingum og djúpum teygjum. „Yin-jóga er sú tegund sem ég sæki mest í en þá eru jógastöður nálægt jörðinni og þú hvílir í lengri tíma í stöðunum. Það kemur líka margfalt til baka því þegar þú hvílir í stöðu í ákveðinn tíma ferðu djúpt inn í líkamann og bandvefi hans. Það hjálpar líkamanum að öðlast meiri liðleika og hreyfigetu, styður við endurheimt vöðva og örvar blóðrásina. Margir þekkja það eflaust að vilja alltaf vera að gera eitthvað eða hugsa eitthvað merkilegt, en Yin-jóga leyfir þér að stoppa, gefa þér pásu frá öllu í smá stund. Þegar ég leyfi mér að vera í núinu í tímanum og finna fyrir því sem er að gerast í líkamanum og huganum þá er ég alltaf endurnærð eftir tímann og finn fyrir mikilli vellíðan og ró, sama hvað gengur á.“

Stundar þú einhverja aðra hreyfingu meðfram jóganu?

„Já! Ég er mjög hrifin af því að blanda saman alls konar hreyfingu. Núna er ég aðallega að hlaupa og lyfta með en er alltaf opin fyrir að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Jógað hentar mjög vel á móti öðrum krefjandi íþróttum, sérstaklega rólegt Yin-jóga sem gefur gott jafnvægi á móti til að slaka á vöðvum og losa um stífleika og spennu. Það hjálpar einnig til við vöðvaendurheimt og minnkar eymsli í vöðvum.“

Núvitund frá sjö ára aldri

Höfum við nútímafólk gott af því að leggjast á dýnuna og horfa inn á við?

„Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki fyrir alla að mæta á dýnuna og að líta inn á við. En jóga getur verið svo margt. Eins og nútímasamfélagið er í dag erum við gjörn á að vera stíf í líkamanum eftir mikla kyrrsetu eða finna að hugsanirnar stoppa ekki því við viljum alltaf gera eitthvað eða bæta. Jóga er frábær leið til að taka sér smá hlé frá öllu áreiti, að leyfa huganum að fá smá hvíld. Stund til að hlúa að þér til að fá meiri orku og skýrleika og losa um þessa spennu sem getur myndast í bæði líkama og huga.“

Þú ert líka markþjálfi og búin með nám í sálfræði, helst þetta allt í hendur?

„Já! Þetta helst allt mjög fallega í hendur. Í gegnum tíðina hef ég verið dugleg að sækja þekkingu og nám sem tengist vellíðan. Sálfræðinámið gaf mér góðan grunn til að skilja hugann betur og mikilvægi geðheilsu. Markþjálfun er tengd sálfræðinni og á meðal annars rætur sínar að rekja þangað. Þetta er aðferðafræði sem stuðlar að auknum persónulegum þroska, innri vexti, sjálfstrausti og sjálfsskilningi. Allt byrjar hjá þér, það skiptir öllu máli hvernig hugurinn er stemmdur og markþjálfun er fallegt tól til að gera gott betra. Þetta er samtalstækni sem snýst um að hjálpa þér að finna hvað þú raunverulega vilt og að fá þann stuðning sem þarf til að komast á þann stað. Markþjálfun er mögnuð að því leyti að kraftmiklar spurningar vekja upp nýjar hugsanir og lausnir, oft þarf lítið til að kveikja á perunni til að koma sér af stað í það sem maður raunverulega vill gera.“

Hefur þú alltaf pælt mikið í núinu?

„Í fyrsta sinn sem ég man eftir að hafa pælt í núinu var þegar ég var í skíðalyftu í Svíþjóð. Ég ætla að giska á að ég hafi verið í kringum sjö ára en þá spurði ég mömmu hvernig ég gæti notið þessa augnabliks eins mikið og hægt er því mér leið svo vel og ég vildi gera sem mest úr þessari tilfinningu og stund. Svo já, ég myndi segja það að ég hafi lengi verið á þessum stað. En auðvitað þarf ég sífellt að minna mig á að hafa hugann hér og nú.

Þegar ég er hamingjusöm og líður vel þá sækist ég mikið í hugleiðslu og er alveg til í að pæla í núvitund allan daginn, en ég hef tekið eftir að þegar mér líður ekki vel eða er að ganga í gegnum erfiðleika þá forðast ég núvitund eins og heitan eldinn. Þá veit ég að það er einmitt þá sem ég þarf mest á því að halda. Þá getur verið of mikið að sitja í kyrrðinni og taka eftir því sem er að gerast – þá finn ég aðra leið eins og að stunda núvitund þegar ég vaska upp, finna vatnið renna, eða að fara í jógatíma með vinkonu mér við hlið, eða teikna eða skrifa niður hugsanir mínar á blað. Ég reyni alltaf að mæta mér þar sem ég er og ekki að vera ósátt við mig ef ég kem mér ekki í að hugleiða þegar ég veit að ég þarf á því að halda. En eitt sem ég get alltaf gert og er uppáhaldsleiðin mín til að kjarna mig er að finna fyrir iljunum,“ segir Una og mælir með því að fólk veiti iljunum á sér athygli og og taki svo eftir því hvort öndunin sé djúp eða grunn.

Hvað gerir þú til þess að slaka á og dekra við þig?

„Það fer algjörlega eftir skapinu hvað ég sækist í þegar ég þarf að slaka á. Ég er mjög hrifin af því að fara ein í sund þegar ég finn að ég þarf að slaka á og hugsanirnar eru úti um allt. Einnig að fara í göngutúr og að eiga góða stund með fjölskyldu og vinum. Ég er líka mjög hrifin af því að finna jógatíma á netinu, gera huggulegt í kringum mig, kveikja á kertum og leyfa mér algjörlega að sleppa takinu og njóta líðandi stundar og kúpla mig frá öllu áreiti meðan á jógatímanum stendur. Ég er mjög spennt að bjóða upp á jógatíma á netinu sem snúast einmitt um þetta, að líða vel og losa um streitu í líkama og huga. Til að dekra sérstaklega vel við mig þá tek ég kvöldið frá og elda gott og heiðarlegt pasta, kveiki á kertum og horfi á mynd eða finn góða bók. Uppskrift að núllstillingu og vellíðan ef þú spyrð mig,“ segir Una sem ætlar að halda áfram að kenna jóga, sinna markþjálfun og njóta með vinum og fjölskyldu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál