„Ég hefði alveg getað farið út á slæmu brautina“

Hreyfing hefur alltaf verið fastur punktur í lífi Júlíusar Þórs …
Hreyfing hefur alltaf verið fastur punktur í lífi Júlíusar Þórs Sigurjónssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Íþróttir og hreyfing er rauður þráður í gegnum líf Júlíusar Þórs Sigurjónssonar kennara. Íþróttirnar hjálpuðu honum þegar hann lenti í áföllum í æsku og hann var bara unglingur þegar hét því að verða alltaf í góðu formi fyrir framtíðarbörnin sín.

Júlíus átti sér þann draum að verða atvinnumaður í öllum þeim íþróttum sem hann prófaði, svo einbeittur var hann. „Það gekk ekki, sérstaklega ekki eftir að ég valdi körfuboltann tíu ára gamall. Það var svolítið erfitt að vera atvinnumaður 1,64 á hæð í heimi tveggja metra manna. En ég entist í körfubolta til 27 ára aldurs,“ segir Júlíus. Þegar Júlíus var í gagnfræðiskóla fékk þjálfari hann til þess að gerast aðstoðarþjálfari í yngri flokkum. Þar uppgötvaði hann starf með krökkum átti vel við hann.

„Þegar ég fór í menntaskóla fór ég að læra að verða kokkur, lærði matartækni, einkaþjálfun og var mikið í líkamsræktinni,“ segir Júlíus sem segir að það hafi hentaði sér illa að fara á nemasamning i kokkanáminu vegna vinnutímans enda kom það niður á íþróttunum. Að lokum útskrifaðist hann af þremur brautum og valdi að lokum að fara í kennaranám.

Mikilvægt að finna sér tómstund

„Ég er ofvirkur þó ég hafi ekki fengið eiginlega greiningu en ef ég væri í grunnskóla í dag þá veit ég að ég væri greindur með ADHD, lestrarörðugleika, lesblindu og ofvirkni. Ég á ofboðslega erfitt með að vera kjurr,“ segir Júlíus þegar hann útskýrir þá miklu orku sem hann hefur. Hann vill meina að hann taki fáa hluti að sér og geri þá vel.

Júlíus hefur náð að beisla alla orkuna á jákvæðan hátt og þakkar hreinlega fyrir að hafa haft íþróttirnar.

„Það kemur þarna aldur frá 13 til 18 þar sem flestir halda að þeir séu ódrepandi. Ég missi ömmu mína átta ára, afa minn níu ára og pabba minn tíu ára allt á þriggja ára tímabili. Mamma var ein með mig og var að vinna mikið,“ segir Júlíus sem segist hafa fengið gamaldags uppeldi og þurfti snemma að læra að standa á eigin fótum.

„Ég hefði alveg getað farið út á slæmu brautina þegar ég var í kringum margt ungt fólk sem var í neyslu þar sem ég var að vinna. Það sem hélt mér á jörðinni og lét mig vera á móti fíkniefnum var að ég var alltaf með augun á íþróttunum. Þetta er kannski klisjulegt að segja þetta en íþróttir björguðu mér bókstaflega frá öllu. Ekki bara frá röngu brautinni heldur héldu líka andlegu heilsunni eftir að ég missti pabba. Ég fékk félagsskapinn og stuðninginn úr íþróttunum. Þá er ég ekki að tala um að allir hafi verið að klappa mér á bakið. Ég mætti á æfingar. Það var tekið eftir mér og ég var ekki ósýnilegur,“ segir Júlíus sem í dag leggur mjög mikla áherslu við dætur sínar og aðra krakka sem hann umgengst að þau finni sér tómstund. Hvort sem það er hljóðfæraleikur eða fótboltaæfingar, það skilar sér í framtíðinni segir hann.

Hreyfing er stór hlutur af heimilislífinu.
Hreyfing er stór hlutur af heimilislífinu. mbl.is/Árni Sæberg

Ætlaði að vera í standi fyrir börnin

Gott skipulag gerir það að verkum að Júlíus nær að koma öllu því í verk sem hann þarf að gera. „Ég lenti í slysi og missti skammtímaminnið. Þá þurfti ég að læra upp á nýtt að lifa lífinu,“ segir Júlíus sem gleymir fljótt ef einhver biður hann um greiða eða ef hann fer fram til þess að ná sér í kaffibolla. Hann notar til dæmis minnismiða og tölvupósta til þess að hjálpa sér.

„Þetta hefur líka hjálpað mér í fjölskyldulífinu. Við erum með vikumatseðil þannig að stelpurnar vita hvað er í kvöldmatinn og ég veit það þá líka. Það er verslað inn samkvæmt því og ég tek bensín á sama degi í hverri viku. Þetta hljómar geðveikt en virkar fyrir okkar fjölskyldu,“ segir Júlíus og segir mjög margt jákvætt hafa komið út úr þessu skipulagi svo ekki sé talað um að þetta sé gott fjárhagslega.

„Ég setti mér það markmið þegar ég var 16 ára að vera alltaf í standi fyrir börnin mín,“ segir Júlíus og er það meðal annars sem drífur hann áfram í líkamsrækt. Honum finnst mikilvægt að geta farið út í fólbolta með dætrum sínum. Í dag lyftir hann þrisvar í viku og fer síðan í göngutúra eða stundar einhverja aðra hreyfingu hina dagana.

„Þegar ég kynnist konunni minn ákváðum við að hreyfing og almenn góð heilsa væri okkar viðmið í fjölskyldunni. Í okkar fjölskyldu er skylda að vera í einhverju, hvað sem það heitir. Það gildir líka um okkur foreldranna. Við foreldrarnir erum að fara í box eftir áramót af því að yngri stelpan okkar er byrjuð að æfa box. Þess vegna ætlum við að kynnast íþróttinni líka. Ég er búin að prófa crossfit eins og eldri stelpan. Við tölum rosalega mikið saman. Það skiptir rosalega mikið að ræða við börn á jafningjagrundvelli. Við segjum þeim ekki að lesa og við lesum aldrei. Eða ekki vera í símanum og svo erum við sjálf í símanum.“

Júlíus lyftir þrisvar í viku en þess á milli stundar …
Júlíus lyftir þrisvar í viku en þess á milli stundar hann aðra hreyfingu. mbl.is/Árni Sæberg

Nýtir alla reynslu á jákvæðan hátt

Júlíus er búinn að ná góðu jafnvægi þegar kemur að hreyfingu og fjölskyldulífi. Hann er hins vegar mikill keppnismaður og þakkar fyrir að vel kvæntur þegar hann æfði á of öfgafullan hátt.

„Ég fór í crossfit og þá ætlaði ég bara að verða bestur. Ég stoppaði mig af út af fyrri reynslu úr vaxtarræktinni en þá var ég að æfa 7 til 13 sinnum í viku. Jafnvel tvo til þrjá tíma á eftirmiðdögum og klukkutíma á morgnana. Ég þakka fyrir að konan mín var ekki í þessu af því hún dró mig niður á jörðina þegar ég var kominn of langt í þessari geðveiki. Árið 2007 sagði ég við konuna að ef ég yrði Íslandsmeistari á innan við tíu árum þá myndi ég hætta og svo varð ég Íslandsmeistari 2014. Eldri stelpan mín minnti mig á það, ég lofa ekki einhverju og ég stend ekki við það,“ segir Júlíus.

„Allt þetta neikvæða og jákvæða úr vaxtarræktinni nýti ég á jákvæðan hátt í dag eins og þekki takmörkin mín betur líkamlega eins og hvað er of mikið fyrir mig. Himinn og jörð eru ekki að farast þó ég komist ekki á æfingu af því það er leikur hjá stelpunni minni. Hver og einn þarf að finna fyrir sig þetta andlega og líkamlega jafnvægi. Ég er rosalega feginn að vera búinn að finna það í dag,“ segir hann.

„Svo lengi sem ég get staðið eða jafnvel bara setið mun ég halda áfram að lyfta þar til að ég dey af því það hjálpar andlega og líkamlega,“ segir Júlíus sem veitt fátt betra en að stíga út úr ræktinni endurnærður eftir æfingu þrátt fyrir að hafa farið á æfinguna þreyttur eftir vinnu.

Áframhaldandi hreyfing verður í aðalhlutverki hjá Júlíusi og fjölskyldu á næstunni. „Við ætlum að vera duglega að hreyfa okkur, passa andlega þáttinn í formi þessa að hreyfa okkur og passa upp á að vera opin og tala saman. Það vantar stundum upp á hjá Íslendingum. Fólk er oft hrætt við að ræða saman um hlutina sérstaklega milli para. Göngutúrarnir fara oft í þetta hjá okkur og þá komum við til baka endurnærð andlega og líkamlega,“ segir Júlíus að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál