Hætti að vinna sjötug og fór að hugsa sinn gang

Bessí Jóhannsdóttir er dugleg að mæta í ræktina og leikfimi.
Bessí Jóhannsdóttir er dugleg að mæta í ræktina og leikfimi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er allt hægt. Fólk á ekki að sjá lokaðar dyr, það er undir okkur sjálfum komið að opna dyrnar,“ segir Bessí Jóhannsdóttir sem ákvað að byrja að stunda líkamsrækt af krafti þegar hún hætti sem fastráðinn sögukennari í Verzlunarskóla Íslands fyrir fjórum árum sökum aldurs.

Bessí segist alltaf hafa stundað líkamsrækt en það hafi komið í bylgjum.

„Þegar ég varð sjötug og hætti í kjölfarið að kenna þá staldraði ég við og hugsaði minn gang. Hvað ég ætlaði að gera? Ég veit að margir sem hætta snögglega að vinna verða fyrir ákveðnu áfalli. Þetta varð til þess að ég ákvað að byggja sjálfa mig upp og koma mér í gott stand,“ segir Bessí sem stundar líkamsrækt fjórum til fimm sinnum í viku.

Æfir á tveimur stöðum

„Dóttir mín og tengdasonur æfa í líkamsræktarstöðinni Granda 101 og þegar þau bentu mér á tíma sem kallast Heldri Fit þótti mér það spennandi. Stöðin er steinsnar frá heimili mínu. Þetta er bara góður göngutúr út á Granda. Ég er þar tvisvar í viku. Þetta byggist talsvert mikið á því að auka styrkinn, úthald og liðleika. Ég er frá náttúrunnar hendi frekar sterk og hef alltaf haft gaman af því að lyfta,“ segir Bessí sem segir gefandi að vera í umhverfi þar sem hlýja og umhyggja er í fyrirrúmi og starfsfólkið passar að æfingahópurinn fari ekki fram úr sér.

Ertu að reyna að bæta þig?

„Ég nálgast mína heilsurækt til að bæta mig. Ég hef bætt mig hvað varðar vöðvamassa og liðleika. Ég sé ekki að þeir sem eldri eru geti ekki alveg eins stefnt að meiri styrkleika. Við getum haft sömu markmið og þeir sem eru yngri, við bara nálgumst þau á svolítið annan hátt,“ segir Bessí.

Hún æfir líka með góðum kvennahópi hjá líkamsræktarfrömuðinum Sóleyju Jóhannsdóttur en Sóley kallar hópinn Þokkadísirnar. „Eins og Sóley segir þá er hún að efla okkur líkamlega og andlega. Ég er ofsaleg félagsvera. Mér þykir gaman að vera með fólki og hópurinn minn úti á Granda eru vinir mínir. Svo koma alltaf einhverjir nýir inn og þeir eru boðnir velkomnir,“ segir Bessí.

„Ég byrjaði líka að stunda golf þegar ég hætti að kenna. Það er alveg stórkostlegt. Ég bý rétt hjá Nesvellinum, er í Nesklúbbnum og æfi reglulega. Ég prófaði það fyrir 20 árum og þá þoldi ég það ekki en svo fór ég með kennurunum úr Verzló og ég smitaðist af þeim en það er mikil golfhefð í Verzló. Ég fer eins oft út að spila og ég get eða til Tenerife eða Flórída. Það veitir ekkert af að vera í líkamsrækt af því að maður þarf að vera í góðu formi til að spila golf,“ segir Bessí sem er að vinna í forgjöfinni.

Kennarastarfið var gefandi starf að sögn Bessíar.
Kennarastarfið var gefandi starf að sögn Bessíar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kennslan var gefandi

Bessí segir að hún hafi átt einstaklega góðan tíma í Verzlunarskólanum. Í dag á hún góða vini úr skólanum bæði af kennarastofunni og úr nemendahópnum. „Ég hef svo gaman af kennslu. Það var mér ekkert auðvelt að hætta að kenna og þess vegna hef ég verið mjög tilkippileg að grípa í forfallakennslu. Mér finnst skítlegt að fólk skuli vera neytt til að hætta að vinna þegar það er sjötugt. Þeir sem eru í fullu fjöri, andlega hressir, líkamlega vel á sig komnir og njóta vinnunnar.“

Samtalið við unga fólkið í skólanum fannst Bessí mjög skemmtilegt. „Það að vera með svona ungu fólki er svo örvandi. Saga er svo lifandi grein. Það er svo gaman að spjalla um söguna frá mörgum sjónarhólum,“ segir Bessí sem fór með öðrum kennurum til útlanda með nemendur.

Ferðir á slóðir helfararinnar til Póllands og Rússlandsferðirnar voru til að mynda eftirminnilegar og segir hún innrás Rússa í Úkraínu dapurlega. „Við fórum til Rússlands í nokkur skipti með hóp af nemendum til Pétursborgar. Þetta skapar skilning á milli þjóða og er svo menningarlega mikilvægt,“ segir Bessí. 

Málefni barna í brennidepli

Það er aldrei dauð stund hjá Bessí sem sinnir meðal annars yngstu kynslóðinni vel. „Ég reyni að vera góð amma og sinni mínum barnabörnum og barnabarnabörnum. Ég á mikla vináttu við börnin mín og við barnabörnin. Ég gef mér tíma til þess og ferðast meðal annars með þeim,“ segir hún.

Bessí er virk í Sjálfstæðisflokknum, er varaþingmaður og starfar í nokkrum stjórnum. Áhuginn innan stjórnmálanna breytist vissulega en það eru þó ekki endilega málefni eldri borgara sem hún hefur mestan áhuga á. Hún segir að staða barnafólks sé sér hugleikin.

„Mér finnst við alls ekki vanda okkur nógu mikið. Það er allt of mikið talað en ekki nógu mikið hugað að raunverulegri þjónustu við barnafólk. Ég upplifi það í gegnum fólk með börn í kringum mig. Það er öryggisleysi, starfsmannavelta inni á leikskólum og við þurfum að fjölga menntuðu fólki í skólunum. Það er mikið að í þessum geira og það er mikið lagt á það fólk sem er að vinna þarna stöðugt og helst í vinnu. Ég hef mikinn áhuga á því,“ segir Bessí sem segir að ef viljinn er til staðar og fólk hafi löngun þá eigi það að láta vaða og gera eitthvað.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál