„Ég var mikil „jójótýpa“ þegar ég var yngri“

Líkaminn er vinnutól Katrín Mist Haraldsdóttir leikkonu.
Líkaminn er vinnutól Katrín Mist Haraldsdóttir leikkonu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Markviss sjálfsvinna er það besta sem Katrín Mist Haraldsdóttir, leikkona í Borgarleikhúsinu, hefur gert fyrir sjálfa sig. Að sögn Katrínar snýst góð heilsa að stórum hluta um andlega heilsu og hvíld.

„Ég reyni að halda góðu jafnvægi í mataræði mínu og drekka nóg vatn. Ég hef farið í allskonar hringi með þetta í gegnum árin en hef fundið að það hentar mér best að velta þessu ekki of mikið fyrir mér að öðru leyti en að passa að ég sé að borða nóg og fái nægt prótín yfir daginn. Ég borða ekki kjöt svo ég þarf svolítið að passa upp á prótínið. Ég er samt líka algjör nammigrís en finn að ef ég passa upp á að vera dugleg að borða yfir daginn þá dett ég síður í nammibirgðirnar.

Ég tók upp á því í vetur að vera alltaf með box með möndlum og þurrkuðu mangó meðferðis í vinnuna til að fá mér í hléi á sýningum í stað þess að fá mér súkkulaði eins og ég átti til að gera þegar orkan var orðin lág og ég finn mikinn mun. Eins er ég að reyna að temja mér að fá mér frekar steinefni en koffíndrykki til að viðhalda orku í vinnunni og ég finn mjög jákvæð áhrif af því,“ segir Katrín þegar hún er spurð hvernig hún hugsi um heilsuna.

Fáum bara einn líkama

Katrín reynir að hugsa vel um líkamann og halda orkunni góðri en það mæðir mikið á henni í leikhúsinu þar sem hún leikur bæði í Níu lífum og Emil í Kattholti í Borgarleikhúsinu.

„Ég hreyfi mig mikið og er líkaminn minn í raun mitt vinnutól svo ég þarf að vera dugleg að passa upp á hann. Ég er dugleg að fara í nudd til að vinna á bólgum og halda meiðslum í skefjum og eins reyni ég að lyfta lóðum reglulega. Ég er hins vegar alls ekki alltaf í stuði til að fara í ræktina og reyni þá frekar að gera léttar æfingar heima, þó það sé ekki nema nokkrar teygjur, það er svo gott líka fyrir sálina.“

Katrín er meðvituð um þá staðreynd að við fáum bara …
Katrín er meðvituð um þá staðreynd að við fáum bara einn líkama. mbl.is/Kristinn Magnússon

Finnst þér mikilvægt að vera í góðu formi vinnu þinnar vegna?

„Já, ég er sem stendur í tveimur söngleikjum og stundum að sýna báða sama daginn svo álagið getur verið mikið. Á sama tíma heldur það mér á ákveðinn hátt líka í formi svo ég reyni að setja meiri fókus á endurheimt og að koma vel fram við líkamann á milli sýninga.
Mér finnst mjög gott að fara í pottinn, infrarauðu gufuna, fara í sjúkranudd og er svo nýlega byrjuð að fara reglulega í LPG-meðferðir til að vinna á bólgum og finn mikinn mun. Það gleymist svo oft að tala um hvað hvíld og hvernig við hugsum um okkur milli æfinga skiptir miklu máli. Við fáum bara einn líkama svo hvernig við hugsum um hann þegar við erum ung mun skipta svo miklu máli þegar við verðum eldri. Mamma mín var mjög heilsuþenkjandi og fólk er duglegt að minna mig á að þetta var eitthvað sem hún sagði alltaf svo ég hef svolítið tekið þessi hugsun með mér sem nesti út í lífið,“ segir Katrín.

Móðir Katrínar lést þegar Katrín var ung en Katrín hefur reynt að halda arfleifð hennar á lofti. „Dansinn hefur alltaf verið stór partur af mér. Mamma mín átti dansskóla og eróbikstöð þegar ég var lítil. Hún lést svo þegar ég var þriggja ára og þá var skólanum lokað og ég var svona inn og út úr dansi eftir það. Ég var alltaf dansandi en aldrei markvisst í rauninni aftur fyrr en ég varð unglingur. Það halda einmitt margir að ég sé dansari en ekki leikari en ég hef alltaf litið á dansinn meira sem part af því hver ég er frekar en kannski eitthvað sem ég ætlaði að gera að atvinnu,“ segir Katrín.

„Þegar ég kom heim úr leikaranáminu árið 2014 stóð ég á ákveðnum tímamótum í lífinu. Ég hafði aðeins dottið inn í að kenna dans aftur á meðan ég var að reyna að fóta mig í leikhúsbransanum hérna heima og ákvað svo bara að stökkva út í djúpu laugina og opna DSA, gamla dansskólann hennar mömmu, aftur á Akureyri. Ég rek hann ennþá í dag, þó ég búi í Reykjavík, með aðstoð góðs fólks. Það hefur alltaf verið svona ástríðuverkefni sem mér þykir of vænt um til að sleppa tökunum á því þó ég sé kannski ekki jafn mikið á staðnum eins og fyrstu árin.“

Niðurrif skilar ekki árangri

Hefur þú einhvern tímann rekið þig á þegar kemur að heilsu?

„Já algjörlega, ég hef tekið allan skalann og það eina sem öll þessi átök áttu sameiginlegt var að ekkert þeirra virkaði til lengri tíma. Ég var mikil „jójótýpa“ þegar ég var yngri og alltaf í einhverju átaki. Það var í rauninni ekki fyrr en ég átti barn og tók sjálfa mig og andlegu heilsuna almennilega í gegn sem ég náði mér á strik og í gott jafnvægi. Ég held að það mikilvægasta sem ég hafi gert fyrir sjálfa mig og mína heilsu sé að vinna markvisst í sjálfri mér.

Við könnumst held ég flest við það að leita í mat fyrir einhverskonar sálarfyllingu og ég held að minn helsti akkilesarhæll í sambandi mínu við mat hafi verið lélegt sjálfsmat og óánægja með sjálfa mig. Þegar ég fór svo að taka andlegu heilsuna vel í gegn og gerði það markvisst til lengri tíma þá fylgdi heilbrigðara samband við mat í rauninni bara á eftir og ég fann jafnvægi. Ég á það auðvitað til, held ég bara eins og flestir, að detta í góð og slæm tímabil þegar kemur að þessum hlutum en mér finnst algjör lykill líka að rífa sig ekki niður fyrir það að detta í tveggja vikna nammi- og pizzuveislu. Það kemur nýr dagur eftir þennan dag og þetta snýst um jafnvægi og heildarmyndina. Þó þú takir slæma viku þá hefur það ekkert að segja í heildarmyndinni, það þarf líka að geta leyft sér.“

Hvað er besta sem þú hefur gert fyrir heilsuna þína?

„Að hætta að setja ákveðna pressu á sjálfa mig um að ég þurfi að vera svona eða hinsegin, læra að elska sjálfa mig og stunda hreyfingu og hugsa um mataræðið út frá þeirri hugsun að það veiti mér vellíðan og hraustari líkama. Fyrir mörgum árum var sálfræðingur sem spurði mig hvort mér fyndist sanngjarnt að taka kröfurnar sem ég geri til sjálfrar mín og setja þær á þá sem mér þykir vænt um. Svarið við því var svo sannarlega nei. Ég á það ennþá til að gera miklar kröfur til sjálfrar mín en ég reyni að gera það á uppbyggjandi hátt sem hvetur mig áfram frekar en að rífa mig niður. Ég hef reynt að hafa þessa lexíu frá þessum góða sálfræðingi á bak við eyrað þegar ég er aðeins farin að bugast undan álagi sem ég kom mér í alveg sjálf.“

Hvað hvetur þig áfram að lifa heilsusamlegum lífsstíl?

„Þetta er ótrúlega góð spurning! Ég hef kynnst því að lifa ekki heilbrigðum lífsstíl, að borða bara rusl, vera þung á mér, döpur og eiga erfiðara með að hreyfa mig en ég myndi vilja og það er ekki staður sem mig langar á aftur. Heilsa okkar er eitt það mikilvægasta sem við eigum og við megum ekki vanrækja hana. Þessi hugsun um að við eigum bara einn líkama fylgir mér líka alltaf, mér finnst mikilvægt að geta verið vel á mig komin þegar ég verð gömul, sjá dóttur mína vaxa úr grasi og geta spriklað með barnabörnunum.“

Niðurrif þjónar engum segir Katrín.
Niðurrif þjónar engum segir Katrín. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölskyldan borðar saman kvöldmat

Þriggja manna fjölskyldu fylgir mikið skipulag en Katrín segir að þau reyni eftir bestu getu að borða saman kvöldmat.

„Þetta getur stundum verið púsluspil, ég vinn á frekar óvenjulegum tímum sem ruglar oft rútínuna sérstaklega þegar maður er með barn en maður finnur bara sinn takt. Ég er yfirleitt mikið í fríi fyrri hluta dags á virkum dögum svo ég reyni að nýta þann tíma í að stunda hreyfingu, sinna heimilinu eða fara í nudd og þess háttar. Það er líka mikil gjöf í því að vera stundum í fríi á virkum dögum því ég er yfirleitt að vinna mikið um helgar. Ég leyfi því stundum dóttur minni að vera heima með mér einhvern dag í vikunni þar sem við fáum stundum lítinn tíma saman um helgar.

Ég á líka ótrúlega dásamlegan mann sem er duglegur við að elda góðan mat, sinna heimilinu, skutla á dansæfingar og fleira sem skiptir sköpum þegar dagskrá fjölskyldumeðlima er allskonar og álagstímabil stundum mikil. Það er ótrúlegt hvað svona lítil fjölskylda getur oft orðið mikið fyrirtæki og er gott skipulag það sem heldur þessu öllu gangandi. Þrátt fyrir ólíkar dagskrár reynum við fjölskyldan samt alltaf að borða saman kvöldmat. Þegar ég er að sýna er ég yfirleitt farin í vinnuna rétt fyrir klukkan sex og reynum við því alltaf að ná að borða saman kvöldmat áður en ég fer. Stundum er dagskráin bara þannig að það gengur ekki upp og þá gríp ég mér eitthvað, oftast skál frá Serrano eða eitthvað álíka, með mér í vinnuna og þau elda sér eitthvað saman heima.“

Hvað gerir þú til þess að slaka á og dekra við þig?

„Ég er alls ekki nógu dugleg við það að slaka á en ég er alltaf að æfa mig. Mér finnst rosalega gott að kúra uppi í sófa yfir góðum þætti, slökkva á tilkynningum í símanum mínum og fá mér hnetutopp eða hitta vinkonur mínar yfir löngum hádegismat.“

Hvað ætlar þú að gera spennandi árið 2023?

„Ég er ótrúlega spennt fyrir nýju ári, ég er svona mánudagstýpa sem elskar að vígja nýja dagbók. En ég verð áfram í heimi Bubba Morthens í Níu lífum og í Emil í Kattholti í Borgarleikhúsinu. Það verða svo stórar og spennandi breytingar hjá DSA og DSA heilsu í vor sem ég er ótrúlega spennt fyrir. Í sumar er ég svo með skipulagðar tvær utanlandsferðir og gott sumarfrí í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem ég er mjög spennt fyrir.

Ég er ekki með nein sérstök heilsumarkmið önnur en að halda bara áfram að sinna bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Halda áfram að æfa mig í að sýna sjálfri mér og öðrum mildi og kærleika sem er held ég eitthvað sem við megum öll við að láta minna okkur á annað slagið,“ segir Katrín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál