Dauðadeildarheilkennið

Ljósmynd/Samsett

Það verða ákveðin kaflaskil í lífinu þegar fólk kemst á besta aldur og stimplar sig út af vinnustaðnum sínum í síðasta sinn. Fólk er misjafnt. Sumir finna til einmanaleika þar sem þeir tilheyra ekki lengur hópi vinnufélaga en aðrir eru fegnir að þurfa ekki að rífa sig upp í 20 stiga frosti til þess að sigra heiminn.

Það eru forréttindi að fá að eldast en þetta tímabil getur líka verið tregafullt. Ég hef verið svo lánsöm að fá innsýn inn í þetta tímabil í gegnum tengdaföður minn, sem býr í Danmörku. Á síðasta ári fór hann að dvelja reglulega á heimili okkar hjónanna. Það var aðallega til komið vegna þess að hann hætti að vinna um þar síðustu áramót, þá 86 ára gamall. Þegar hann dvelur á Íslandi langar hann ekki að vera einn í íbúðinni sinni í Vesturbænum. Við tókum því fagnandi.

Þegar hann er ekki á Íslandi er hann duglegur að senda okkur tölvupósta með ýmsum hugleiðingum um lífið og tilveruna. Það var einmitt í einum af þessum póstum sem ég heyrði fyrst minnst á dauðadeildarheilkennið. Hann útskýrði að fólk í hans stöðu, sem væri komið með annan fótinn í gröfina, hefði áhyggjur af alls konar hlutum sem það hefði ekki haft tíma til að hugsa um þegar vinnudagurinn var 14 tímar á dag. Dauðadeildarheilkennið er frekar óþægilegt orð enda óttumst við flest dauðann og viljum helst ekki láta hann trufla okkur of mikið. Ég skildi hann samt.

Þótt dauðadeildarheilkennið dúkki upp við og við þá er það sem betur fer ekki á dagskrá á hverjum degi. Hann kann alveg að njóta lífsins. Bestu stundirnar eru þegar hann situr hjá mér í eldhúsinu með „en stiv viski“ og spyr hvernig í ósköpunum ég fari að því að elda allan þennan mat án þess að mæla nokkurn skapaðan hlut. Ég veit ekki svarið við því. Í minni fjölskyldu elda allir af fingrum fram – ekki eftir uppskrift. Þetta er svolítið eins og með lífið. Það er ekki til nein sérstök uppskrift að því. Það er hægt að gera allt eftir bókinni en finna aldrei neistann í hjartanu. Það er líka hægt að hafa allt í óskipulagi en vita á sama tíma upp á hár hvort þú ert að koma eða fara.

Það er reyndar eitt sem fer í taugarnar á honum. Ísskápurinn heima hjá okkur. Þessi glundroðakennda tengdadóttir hans er alltaf með fullan ísskáp af mat í alls konar boxum sem hann skilur ekkert í. Boxin eru nefnilega ekki merkt sérstaklega. Eftir eina heimsóknina í fyrra óskaði hann eftir að fá sérísskáp í sitt herbergi.

Ég spurði hvers vegna í ósköpunum hann vildi sérísskáp? Hann fór í kringum það en þegar ég opnaði ísskápinn blasti það við. Þessi 87 ára gamli regluvörður skilur ekki hvers vegna boxin með matarafgöngunum eru ekki merkt með innihaldi og dagsetningu. Hann vildi fá að hafa sitt skyr í friði í sínu herbergi. Ég skildi hann.

Nú er hann stoltur eigandi að litlum rauðum ísskáp. Þar er allt í röð og reglu og akkúrat pláss fyrir það sem hann borðar fyrir hádegi. Stundum þarf ekki nema eina ferð í ELKO til að minnka álagið þegar dauðadeildarheilkennið birtist.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál