„Mér var mest brugðið yfir áhrifunum af álagi og streitu“

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Lyfju er hér með sílesandi blóðsykurmælinn …
Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Lyfju er hér með sílesandi blóðsykurmælinn M1 frá Ultrahuman.

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Lyfju tekur alltaf með sér nesti í vinnuna og gætir þess að lifa heilsusamlegu lífi. Fyrir tveimur árum byrjaði hún að lyfta lóðum og sér mest eftir því að hafa ekki byrjað fyrr. Á dögunum prófaði hún sílesandi blóðsykurmæli. Hún segir að það sem hafi komið henni mest á óvart var hvað streita hefur slæm áhrif á blóðsykurinn og hvernig svefninn raskast ef það verður blóðsykurfall um nætur. 

Blóðsykurmælirinn sem Sigríður Margrét prófaði er frá Ultrahuman og heitir M1. Hann mælir blóðsykur allan sólarhringinn í tvær vikur. Með honum fylgir app þar sem fólk getur fylgst með í rauntíma. 

Appið gefur manni einkunn fyrir efnaskipti og frávik dagsins. Með því að setja inn upplýsingar um máltíðir, æfingar og aðra viðburði sem geta haft áhrif á líkamsstarfsemi veitir mælirinn veitir nákvæmari upplýsingar og ábendingar um leiðir til að bæta heilsuna. Appið kemur til dæmis með hugmyndir um hvernig matvæli hentar betur að borða á undan öðrum, hvort líkaminn þurfi annars konar næringu fyrir æfingar og veitir aðgang að ýmis konar góðri fræðslu og fyrirlestrum um efnaskipti. Það er mikilvægt að hafa í huga að mælirinn er enginn töfralausn. Mælingar úr honum hafa vikmörk en hann er svo frábært dæmi um nýsköpun á heilbrigðistæknisviðinu fyrir fólk sem hefur áhuga á að nýta sín eigin gögn og upplýsingar til að bæta sína eigin heilsu,“ segir Sigríður Margrét. 

Þegar hún er spurð að því hvers vegna hana hafi langað að prófa sílesandi blóðsykurmæli segist hún hafa viljað sjá hvernig lífstíll hennar hefur áhrif á heilsuna. 

„Ég hef alltaf haft áhuga á hvernig nýta má tæknina til að einfalda fólki lífið og líka áhuga á gögnum. Forvarnir eru ein besta fjárfestingin þegar kemur að heilbrigði. Ég vel að setja heilsu og vellíðan í forgang í mínu daglegu lífi. Ég er kominn á þann aldur að ég geri mér svo vel grein fyrir því að lífstíllinn hefur mest áhrif á heilsuna, samansafn allra litlu hlutanna sem maður gerir á hverjum einasta degi.“   

Hvernig voru þessar tvær vikur sem þú varst með mælinn á þér?

„Þær voru skemmtilegar, skrýtnar og valdeflandi. Það tók mig nokkra daga að venjast því að vera tengd í rauntíma við snjalltæki og læra að lesa úr niðurstöðunum. Svo verður þetta eins og tölvuleikur. Það hafði áhrif á hvernig ég hagaði deginum og mataræðinu þegar ég var með mælinn af því að það var hvetjandi að fá góðar niðurstöður og ég vildi bæta einkunnina mína. Ég er mjög sátt við þessa tilraun og veit að ég á eftir að gera hana aftur síðar. Ég er strax farin að sakna þess að geta ekki fylgst með efnaskiptunum í rauntíma.“

Þegar hún er spurð að því hvort eitthvað hafi komið á óvart játar hún því. 

„Mér var mest brugðið yfir áhrifunum af álagi og streitu. Mig grunaði það en að sjá það svart á hvítu í samanburði við mataræðið er mjög áhrifamikið. Það kom mér líka á óvart þegar ég svaf illa eða var að vakna oft yfir nóttina þá virtist blóðsykurinn vera að falla akkúrat á þeim stundum. Það eru ýmis ráð sem ég mun prófa til þess að sofa betur í kjölfarið á þessum mælingum. Mér fannst líka dásamlegt að sjá að mitt mataræði virðist passa mér afar vel.“     

Kom í ljós að eitthvað sem þú hefur verið að borða og talið að væri hollt, reyndist ekki vera það, þegar þú varst með mælinn?

„Mælirinn sýndi að mataræðið mitt virkar mjög vel fyrir mig en ég gerði líka tilraunir og sá svart á hvítu að það sem ég tel vera óhollt hefur neikvæð áhrif á mig.“    

Ertu hætt að borða eitthvað eftir að þú prófaðir mælinn?

„Mælirinn hefur styrkt trú mína á mikilvægi þess að halda rútínu þegar kemur að mataræðinu. Ég fasta fram að hádegi af því að það virkar fyrir mig. Ég tek alltaf nesti með í vinnuna, ég forðast sætindi og að borða seint á kvöldin.“ 

Hvað tekur þú með þér í nesti?

„Það er alltaf eins. Soðið egg, lágkolvetna brauðsneið eða flatkaka með tómat, agúrku eða papriku-sneiðum.“

Sigríður Margrét hefur alltaf hugsað vel um heilsuna og segir að það skipti máli að huga að öllum þáttum heilsunnar. Ekki bara sumum.  

„Góð heilsa er undirstaða alls annars og það eru forréttindi að vera við góða heilsu. Þeir sem setja heilsu og vellíðan í forgang í daglegu lífi passa að fá góðan svefn, passa að næra sig rétt, hreyfa sig og gæta að andlegu heilsunni og eiga góð samskipti við aðra. Ég er svo heppin að fá að vinna við heilsutengd málefni. Ég starfa fyrir fyrirtæki sem hefur þá sýn að lengja líf og auka lífsgæði. Á hverjum einasta degi er þessi ótrúlegi hópur sem vinnur hjá Lyfju að hugsa um heilsuna. Við höfum sett kastljósið á ýmis heilsutengd málefni með forvarnir og fræðslu í forgrunni, höfum til dæmis tekið fyrir breytingaskeiðið, húðina, svefninn, meltingarflóruna, augnheilsuna og svona gæti ég lengi haldið áfram að telja,“ segir hún. Þeirra helsta markmið er að einfalda fólki vegferðina að heilbrigði. 

Hún hefur alltaf lagt ríka áherslu á að hugsa vel um heilsuna en fyrir tveimur árum breyttist margt þegar hún fór að lyfta lóðum.

„Ég hef alltaf stundað líkamsrækt. Þessa dagana fer ég tvisvar í viku á æfingu hjá Hreyfingu, í hópþjálfun í tækjasal, það eru um það bil tvö ár síðan ég byrjaði að lyfta og ég er enn að furða mig á því af hverju ég byrjaði ekki fyrr. Þess á milli geng ég Neshringinn, syndi í sundlauginni á Seltjarnarnesi og spila golf þegar veður og tími leyfa.“ 

Hvað finnst þér vera auðveldasta heilsu-hakk sem þú veist um?

„Rútína, að gera eitthvað smátt oft sem safnast upp yfir tímann hefur gríðarlega mikil áhrif á heilsuna. Að fara að sofa á sama tíma, að vakna á sama tíma, að taka nesti með í vinnuna, að taka frá tíma fyrir líkamsrækt sem ekki verður breytt. Það er aldrei of seint að byrja og það er aldrei hægt að byrja of smátt. Eitt skref í dag verða tvö á morgun, 20 kílóa niðurtog í dag verða 30 kílóa niðurtog eftir mánuð. Þegar okkur líður vel þá gerum við allt betur, við vinnum betur, við hlæjum meira og við njótum okkar betur.“    

Umræða um blóðsykur hefur aukist. Þegar Sigríður Margrét er spurð að því hvort fólk sé oft og tíðum með of háan blóðsykur án þess að vita af því segir hún að það skipti máli að fólk láti mæla gildin í blóðinu.  

„Mæling er frábært fyrsta skref. Þess vegna buðum við hjá Lyfju öllum upp á ókeypis blóðþrýstingsmælingar í janúar og erum farin að bjóða upp á heilsufarsmælingar gegn gjaldi í öllum stærstu apótekunum okkar þar sem sérþjálfaðir starfsmenn mæla blóðþrýsting, blóðfitu, blóðsykur og ummál,“ segir hún. 

Þegar hún er spurð að því fyrir hverja sílesandi blóðsykurmælar séu segir hún að þeir séu fyrir alla sem vilja fá innsýn inn í það hvernig lífsstíllinn hefur áhrif á líkamann. 

„Þeir eru ekki hugsaðir til að greina eða lækna sjúkdóma af neinu tagi en þeir eru frábærir fyrir þá sem vilja skilja betur sinn eigin líkama, fræðast um hvað hentar best og fá hvatningu til að huga að heilsunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál