„Með ólík­ind­um að ég slasaðist ekki meira“

Íris Dögg Oddsdóttir lenti í bílslysi í apríl á síðasta …
Íris Dögg Oddsdóttir lenti í bílslysi í apríl á síðasta ári og fékk í kjölfarið hyponatremíu og heilabjúg. mbl.is/Árni Sæberg

Íris Dögg Oddsdóttir lenti í bílslysi í apríl á síðasta ári. Viku eftir slysið var hún lögð inn á gjörgæslu með heilabjúg og hyponatremíu. Lá hún á gjörgæslu í fimm daga áður en hún var útskrifuð á aðra deild. Íris er enn að glíma við eftirköstin en segist aldrei hafa misst trúna á að hún myndi ná fullum bata. 

„Það dó enginn. Ég var með ógeðslegan höfuðverk og í veseni, en ég vissi alltaf að ég yrði góð. Og ég hugsaði strax með mér að ég ætlaði að verða betri en ég var. Maður fer ekki í gegnum eitthvað svona án þess að taka eitthvað með sér úr út því,“ segir Íris Dögg í viðtali við Smartland.

Íris var að koma úr flugi frá Stokkhólmi, en hún er flugfreyja hjá Icelandair. Hún var á leið heim í Mosfellsbæ og bíllinn kyrrstæður í umferðinni þegar pallbíll keyrir aftan á bíl hennar á 60 til 80 kílómetra hraða. 

Íris missti meðvitund og var flutt á sjúkrahús með áverka á höfði og smáskrámur. Hún fór heim með upplýsingablað um hvernig eftirköstin væru eftir heilahristing. „Ég slepp alveg fáránlega vel,“ segir Íris. 

Íris segir mikið áfall að missa heilsuna.
Íris segir mikið áfall að missa heilsuna. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta gerist hægt og rólega“

Næstu daga var Íris frekar rugluð og ringluð heima. Hún mundi fyrst ekki hvar slysið varð og segir allt í þoku þessa daga. Fátt hafi komist að hjá henni annað en að lifa af. Þegar sjö dagar voru liðnir frá slysinu tekur mamma Írisar eftir að eitthvað er ekki í lagi og biður systur hennar um að fara með hana upp á spítala. „Ég enda á gjörgæslu og þau, mamma, systir mín og læknarnir, bjarga mér,“ segir Íris. 

Við höfuðhögg sem þessi verður truflun á boðefnaflutningum í heilanum. Það getur valdið hyponatremíu, sem þýðir að ójafnvægi er á söltum í líkamanum. Þegar ójafnvægi myndast á söltum getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. 

Íris lá í fimm daga inni á gjörgæslu.
Íris lá í fimm daga inni á gjörgæslu.

„Þetta gerist hægt og rólega svo að það er ekki fyrr en eftir viku að ég er komin í þetta krítíska hyponatremíuástand. Þá er ég komin lífshættulega lágt niður í natríum. Ég er orðin svo kvalin og get ekki almennilega tjáð mig því heilinn virkar ekki,“ segir Íris sem var líka komin með heilabjúg. 

Íris lá í fimm daga inni á gjörgæslu. „Þá var ég útskrifuð á almenna deild. Það tekur tíma fyrir líkamann að leiðrétta sig og ná jafnvægi aftur,“ segir Íris.

Sjokk að missa heilsuna

Spurð hvernig það hafi verið að koma svo aftur heim eftir svona átök segir hún að það hafi verið erfitt að ná taktinum aftur. „Það er sjokk að missa heilsuna og erfitt að ná taktinum aftur. Það sem ég er að glíma við núna eru þessi einkenni eftir heilahristing, höfuðverkur og verkir í háls og hrygg,“ segir Íris. 

Íris er þriggja barna móðir. Hún er flugfreyja og jógakennari auk þess sem hún skipuleggur og heldur hleðsluhelgar á Hótel Kötlu. „Ég átti tvær helgar eftir þegar slysið varð. Svo er maður svo ruglaður þegar maður lendir í svona. Þegar ég var að útskrifast af spítalanum hélt ég að ég gæti tekið eina svona helgi,“ segir Íris en helgarnar fela í sér blöndu af útivist og jóga. 

Frá slysinu hefur hún ekki getað snúið aftur í háloftin en í vetur byrjaði hún að kenna jóga í afleysingum og leiðir einn tíma í viku í jóga í Mjölni. Hún segir það hafa hjálpað sér mikið að geta byrjað að mæta í Mjölni aftur. 

Íris segir ómetanlegt að tilheyra samfélaginu í Mjölni. Hún byrjaði …
Íris segir ómetanlegt að tilheyra samfélaginu í Mjölni. Hún byrjaði að æfa í stöðinni árið 2018 með vinnufélögu sínum og er farin að geta mætt með þeim á æfingu aftur.

„Ég hef tvisvar sinnum verið á leið aftur í vinnu. Mér finnst gaman í vinnunni og ég hlakka til að fara í vinnuna. En svo hef ég þurft að hætta við. Ég hef stundum ætlað mér of mikið. Ég á góð tímabil en svo kemur bakslag. Batinn er víst ekki línulegur,“ segir Íris sem segir að yfirmenn hennar hafi sýnt henni mikinn skilning og stutt við bakið á henni. 

„Það hjálpaði að fá að byrja að kenna jóga aftur og finna fyrir þessu „tribevibe-i“. Það er allt öðruvísi að rúlla út dýnunni einn heima heldur en í hóp. Og bara að fá að koma aftur á æfingu. Maður mætir bara á sínum forsendum og gerir bara eins og maður getur. Það er svo gott við þetta,“ segir Íris sem byrjaði að æfa í Mjölni árið 2018 með vinnufélögum. Á undanförnum mánuðum hefur hún mætt í tíma með vinnufélögunum hjáIcelandair. 

Íris kennir jóga einu sinni í viku í Mjölni auk …
Íris kennir jóga einu sinni í viku í Mjölni auk þess sem hún skipuleggur hleðsluhelgar og námskeið sem byggir á sama grunni. mbl.is/Árni Sæberg

Tekur stöðunni eins og hún er hverju sinni

Íris er ekki mikið að velta sér upp úr því sem gerðist eða líta um öxl með biturð eða reiði. Henni finnst best að setja markið hátt og þurfa frekar að stíga til baka. „Það hjálpar ekkert að hanga yfir því sem er búið. Ég lít bara um öxl, klappa mér á bakið fyrir þeim árangri sem ég hef náð og held svo áfram. Ég tek bara stöðunni eins og hún er hverju sinni,“ segir Íris. 

„Það er með ólíkindum að ég slasaðist ekki meira. Það voru einhverjir englar þarna ég veit það, en ég klappa sjálfri mér alveg á bakið. Og ég þakka samfélaginu í kringum mig, meðal annars í Mjölni, líka fyrir hvatninguna. Maður er búinn að byggja sig upp svo vel bæði andlega og líkamlega. Þannig líkaminn og hugurinn voru undirbúin fyrir svona átök,“ segir Íris. 

Íris heldur í staðfestuna sem felst í því að iðka jóga og sækir í þann brunn. „Það er allt eins og það á að vera. Maður treystir bara heiminum,“ segir Íris.

„Allt sem maður gengur í gegnum er til þess að þroska mann. Það dó enginn. Þetta er ekki hræðilegt. Þó ég sitji uppi með höfuðverk og hálsáverka, þá er það svo léttvægt miðað við margt annað,“ segir Íris. Hún vinnur nú að því að skipuleggja jóga- og útivistarnámskeið sem byggir á sömu hugmyndafræði og hleðsluhelgarnar eru komnar aftur á dagskrá. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál