„Ljótir hlutir sagðir um mig“

Ása Ástardóttir tekur þátt í Biggest Loser í Þýskalandi.
Ása Ástardóttir tekur þátt í Biggest Loser í Þýskalandi.

„Ég þurfti einhverja breytingu í lífinu og það var ekki bara að missa kílóin heldur þurfti ég að finna sjálfa mig aftur. Breyta einhverju og finna nýtt ævintýri. Byrja upp á nýtt,“ segir Ása Ástardóttir sem vermir nú skjái í Þýskalandi í þáttunum Leben leicht Gemacht, sem er þýska útgáfan af þáttunum Biggest Loser.

Ása hefur vakið mikla athygli í þáttunum sem fóru í sýningu 5. febrúar síðastliðinn. Um hana er rætt í athugasemdum fjölmiðla þar í landi og í nýjasta þætti féllu ófögur orð um hina íslensku Ásu. 

„Mér leið ekki nógu vel síðasta sumar. Ég var búin að fitna svolítið mikið. Ég var orðin 120 kíló og sá myndir af mér og fattaði strax að eitthvað væri ekki í lagi. Ég fann það bara mér að ég þyrfti að gera umfangsmiklar breytingar,“ segir Ása af hverju hún ákvað að skrá sig til leiks.

Ása sendi inn umsókn, tölvupóst með upplýsingum um sig og myndir. Svo var hún valin úr gríðarstórum hópi, en 10 þúsund manns sóttu um. Þættirnir voru teknir upp í Grikklandi síðastliðið sumar. 

Þegar Ása var komin til Grikklands var þó ekki þar með sagt að hún fengi að taka þátt, því 30 manns fóru út en aðeins 20 keppendur taka þátt. „Það var mér því mikill léttir þegar ég fékk bláa bolinn og var valin í það lið,“ segir Ása. 

Komin með verki í bak og hné

Ása, sem hefur búið í Köln í 15 ár, segist alltaf hafa verið frekar þybbin en að hún hafi verið hraust og átt auðvelt með að hreyfa sig. 

„Ég bý á fimmtu hæð hérna í Köln og ég labba mjög mikið. En með því að fara yfir 110 kíló sagði líkaminn minn í raun bara stopp. Ég var komin með verki í bak og hné. Og ég var bara orðin mjög þreytt, mér leið bara illa,“ segir Ása. 

Spurð hvort kórónuveirufaraldurinn hafi spilað inn í þessa þróun segir Ása já, að þetta gætu verið eftirköst. 

„Ég er uppistandari og elska að standa á sviðinu. Það var ekki hægt í faraldrinum og ég hellti mér bara í vinnu og vann allt of mikið og gleymdi mér. Ég passaði ekki upp á sjálfa mig og þarna bara fattaði ég það. Þá vissi ég að ég þurfti einhverja breytingu,“ segir Ása.

Tíu þúsund manns sóttu um að komast í þáttinn og …
Tíu þúsund manns sóttu um að komast í þáttinn og náði Ása í gegn.

Elst í hópnum 

Eftir að Ása var valin í bláa liðið byrjuðu svo þættirnir fyrir alvöru og segist Ása hafa átt frekar erfitt uppdráttar til að byrja með. 

„Fyrst og fremst er þetta alveg svakalega erfitt. Þjálfarinn kemur á morgnana og kvöldin. Þess á milli á maður sjálfur að hreyfa sig og hvert skref skiptir máli. Það sem kom mér á óvart að það voru þarna 19 manneskjur sem ég þekkti ekki áður, og þekktu mig ekki. Ég var elst í hópnum og fyrstu vikurnar átti ég erfitt með að tengjast liðinu,“ segir Ása.

Hún segist fyrst og fremst hafa þurft að hugsa um sjálfa sig og hvernig hún ætti að ná að lifa þetta af. Henni fannst erfitt að tengjast liðsfélögum sínum og erfitt að ákveða hversu mikið hún átti að sýna af sjálfri sér. 

„Og ekki bara er það vigtin, heldur líka þessar áskoranir sem við fáum vikulega. Þær stressuðu mig alveg svakalega en eftir á að hyggja voru þær aðalfjörið,“ segir Ása.

Ása segir áskoranirnar hafa stressað hana mikið, en eftir á …
Ása segir áskoranirnar hafa stressað hana mikið, en eftir á að hyggja hafi þær verið aðalfjörið.

„Kom mér á óvart hversu umtöluð ég er“

Fjórir þættir eru nú þegar farnir í loftið og verður sá fimmti sýndur um helgina. Mikið hefur gengið á í þessum fyrstu þáttum en allt fór í háaloft í þeim fjórða. 

„Í síðasta þætti sem var sýndur sprakk bláa liðið eiginlega framan í mig í rauninni. Ég fékk að hlusta á ýmislegt. Þarna kom allt í einu upp á yfirborðið það sem allir voru að hugsa en enginn var að segja. Ég var bara þakklát fyrir það og áttaði mig á því sem var að gerast. Ég þurfti að sýna mig og opna mig miklu meira,“ útskýrir Ása. 

„Það var misskilningur í gangi. Það voru ljótir hlutir sagðir um mig, meðal annars að ég væri of löt. Eða að ég passaði ekki nógu vel hvað ég borðaði. Og að ég væri ekki að taka þessu nógu alvarlega,“ segir Ása.

Hún segir að eftir þetta kvöld hafi hún opnað sig meira og stemningin breyst í kjölfarið. Ása má eðli málsins samkvæmt ekki segja hversu langt hún komst í þáttunum, en segir þetta hafa verið nokkuð langt ferðalag hjá sér. 

Umræðan um Ásu hefur náð út fyrir þættina og í umræðu á samfélagsmiðlum og athugasemdakerfum þýsku fjölmiðlanna. Ása lætur það ekkert á sig fá. 

„Það sem kom mér á óvart hversu umtöluð ég er. Fólk er að fara yfir um í athugasemdakerfinu. Það eru allir með skoðun á mér. Það er í lagi mín vegna, því ég veit að ég á eftir að sýna víkinginn sem býr innra með mér,“ segir Ása. 

Annað sinn í raunveruleikaþáttum

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ása tekur þátt í raunveruleikaþáttum en hún var þátttakandi í Big Brother í Þýskalandi árið 2015. 

„Já það var bara slys. Það gerðist óvart. Ég man ekki hvernig það gerðist en ég var spurð og allt í einu flutti ég inn í þetta Big Brother-hús,“ segir Ása. „Þar fékk ég líka nokkuð hörð komment á mig og það var í fínu lagi. Það er aftur að gerast núna sem mér finnst persónulega frekar áhugavert. En ég er greinilega svona sterkur karakter og fólk hefur mikið um mig að segja.“

Erfiðast fyrir mömmu heima á Íslandi

Ása segir að á heildina litið hafi hún lært alveg ótrúlega mikið í Biggest Loser. Hún hafi lært mikið um sjálfa sig og náð að vinna í sér. Það sama hafi gerst með Big Brother-ævintýrið. 

„Núna veit ég betur hver ég er, hvað ég ætla að taka mér fyrir hendur og hvað ég á eftir að upplifa,“ segir Ása. 

Spurð út í viðbrögð fjölskyldu sinnar heima á Íslandi segir hún að systir hennar og frænkur séu miklir aðdáendur en að mömmu hennar hafi fundist mjög erfitt að horfa á síðasta þátt. 

„Þetta er langerfiðast fyrir hana. Ég kann alveg að meta umfjöllun því ég veit sannleikann og ég veit að þetta á allt eftir að breytast. Þess vegna er ég alveg róleg og finnst gaman að muna eftir því sem gerðist á Grikklandi. Umrædd vika var mjög mikilvæg fyrir mig og eftir hana náði ég að tengjast öllum hinum. Eftir hana urðu allir mjög góðir vinir,“ segir Ása.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál