Flakkaði á milli lækna í 10 ár án svara

Ástralska sjónvarpskonan og dýragarðserfinginn, Bindi Irwin, fór nýverið í aðgerð …
Ástralska sjónvarpskonan og dýragarðserfinginn, Bindi Irwin, fór nýverið í aðgerð vegna endómetríósu. Skjáskot/Instagram

Ástralska sjónvarpskonan Bindi Irwin opnaði sig nýverið um að hafa gengist undir aðgerð eftir að hafa greinst með endómetríósu. Irwin er dóttir dýra­lífs­sjón­varps­stjörn­unn­ar Steve Irwin sem lést árið 2006.

Eftir að hafa flakkað á milli lækna í 10 ár fékk Irwin loksins greiningu. Endómetríósa er krónískur, fjölkerfa og fjölgena sjúkdómur sem getur valdið miklum sársauka og haft áhrif á frjósemi. 

„Reyndi að þrauka í gegnum sársaukann“

„Í 10 ár hef ég glímt við óyfirstíganlega þreytu, verki og ógleði. Að reyna að vera jákvæð manneskja og fela sársaukann hefur reynst mjög strembið. Þessi síðustu 10 ár hafa innihaldið ótal prófanir, læknisheimsóknir, skanna o.s.frv.,“ skrifaði Irwin í færslu á Instagram-reikningi sínum. 

Irwin bætti við að á ákveðnum tímapunkti hafi læknar sagt henni að vandamál hennar væru einfaldlega eitthvað sem hún þyrfti að bara „að takast á við“ sem kona. 

„Ég gafst algjörlega upp og reyndi að þrauka í gegnum sársaukann. Ég fékk engin svör fyrr en vinur minn, Leslie Mosier, hjálpaði mér að komast á rétta leið til að endurheimta líf mitt. Ég ákvað að fara í aðgerð vegna endómetríósu,“ skrifaði Irwin. 

Með 37 vefjaskemmdir og blöðrur

Irwin segir læknana hafa fundið 37 vefjaskemmdir (e. lesions), og hafi sumar þeirra verið djúpar og reynst erfitt að fjarlægja þær. Þá hafi einnig fundist blöðrur. Hún vonast til þess að saga hennar geti hjálpað öðrum konum sem þurfa á hjálp að halda. 

View this post on Instagram

A post shared by Bindi Irwin (@bindisueirwin)

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál