„Mestu máli skiptir að hlusta á líkamann og hafa gaman“

Svandís Dóra Einarsdóttir hugsar vel um heilsuna.
Svandís Dóra Einarsdóttir hugsar vel um heilsuna. mbl.is/Arnþór Birkisson

Leikkonan Svandís Dóra Einarsdóttir leikur handboltahetju í sjónvarpsþáttunum Aftureldingu. Hreyfing er stór þáttur í lífi Svandísar en hún segir mikilvægast að njóta þess að hreyfa sig og hugsa um andlega heilsu á sama tíma.

„Ég elska að hreyfa mig og fer það svolítið eftir því í hvernig stuði ég er í eða hvað hentar hvern daginn. Ég stunda baptiste-jóga í Iceland Power Yoga í Kópavogi sem er mín aðalhreyfing. Dásamleg stöð, lítil og kósí og yndislegir kennarar og iðkendur. Gæti ekki mælt nógu mikið með henni!

Svo er ég með hesta á húsi á veturna. Það er líka þrusuhreyfing að ríða út og auðvitað gegna. En til dæmis núna er ég að sýna frekar líkamlega erfiða sýningu í Þjóðleikhúsinu sem heitir Til hamingju með að vera mannleg og á sýningardögum passa ég mig á að vera ekki of þreytt. Þá finnst mér best að synd um morguninn og taka heita og kalda pottalotu og gufu. Stundum fer ég að hlaupa ef ég er í stuði eða geng á fjöll. Ég elska útiveru. Mestu máli skiptir að hlusta á líkamann og hafa gaman.“

– Hvað gefur það þér að hreyfa þig?

„Mjög mikið! Ég trúi því að það sé mjög nauðsynlegt fyrir alla að hreyfa sig en það þarf kannski ekki að vera alla daga vikunnar tvo tíma í senn. Líkaminn þarf á hreyfingu að halda en það skiptir mestu máli að maður njóti þess og fari vel með sig. Líkamlega hliðin og sú andlega þurfa að haldast í hendur. Það er svo gott þegar maður finnur endorfínið kikka inn eftir öfluga æfingu en það er líka dásamlegt að fara í stuttan göngutúr í fallegu umhverfi, fá súrefni og taka lífið inn. Þetta snýst um jafnvægi, vellíðan og njóta.“

Lærði að elska líkamann

Brynja í Aftureldingu er í þrusuformi, ertu vön að vera það líka eða gerðir þú eitthvað til þess að massa þig sérstaklega upp?

„Ég hef alltaf verið í íþróttum og sem leikkona vil ég hugsa vel um líkamann og vera heilbrigð. Líkaminn minn er hljóðfærið mitt þannig að það skiptir máli fyrir mig að vera í góðu standi. Hins vegar vildi ég líkjast atvinnuíþróttakonu eins mikið og ég gæti þannig að ég undirbjó mig mjög vel fyrir þetta hlutverk. Ég byrjaði að æfa handbolta aftur með meistaraflokki Vals (U-liðinu) og svo bætti ég inn styrktaræfingum og fékk að æfa með Mjölni meðan á tökum stóð. Ég reyndi samt að fara einu sinni til tvisvar í viku í jóga fyrir andlega heilsu og það fer svo vel með líkamann. Ekki alveg eins mikið álag eins og handboltinn.“

Svandís hefur grunn í handbolta og æfði sjö til átta ár á sínum yngri árum. Hún hætti alveg í menntaskóla þegar hestamennskan tók yfir. „Mótin voru farin að skarast þannig að ég varð að velja og valdi hestaíþróttina. Ég prófaði samt held ég flestar íþróttir nema frjálsar og fimleika þegar ég var lítil sem er mjög þakklát fyrir en handboltinn og hestarnir urðu fyrir valinu ásamt tónlistarnámi.“

– Ertu mikið að fara allt á hörkunni eins og Brynja?

„Ekki lengur! Það blossaði alveg aftur upp gamla keppnisskapið þegar ég fór að æfa aftur handbolta, ég viðurkenni það alveg. Ég átti það til alltof lengi að fara á hörkunni, taka þetta á kassann og ganga of nærri mér á mörgum sviðum. Ég gekk á tímabili of langt í stífum æfingum og mataræði sem er alls ekki gott og var að hreyfa mig út frá einhvers konar útlitslegum kröfum sem ég setti sjálfri mér en ekki út frá heilbrigði eða vellíðan. Jafnvel út frá einhvers konar refsingu í staðinn fyrir kærleika og þakklætis til líkama míns. Það var eiginlega ekki fyrr en ég varð ólétt fyrir fjórum árum sem ég fór að elska líkama minn svona í alvöru og finnast hann stórkostlegur. Það að geta búið til barn, gengið með það og allt sem kemur í kjölfarið er magnað og er ég óendanlega þakklát fyrir það. Eftir að ég fór að æfa og borða út frá því að elska líkamann og vilja fara vel með hann þá komst ég í mitt besta form að mínu mati.“

mbl.is/Arnþór Birkisson

Lífsglaður nautnaseggur

– Ertu sælkeri eða ertu með stífar reglur þegar kemur að mataræði?

„Ég er mikill sælkeri en ég hugsa líka vel um mig. Þetta er allt spurning um jafnvægi. Ég borða það sem lætur mér líða vel, ég vil næra líkamann og fara vel með hann en ég trúi heldur ekki á boð og bönn. Mér finnst hollur matur góður og reyni að halda mig frá sykri og unnum mat. Mér líður best af hreinni fæðu en elska líka gott rauðvín og osta og stundum dökkan súkkulaðimola. Lífið er til þess að njóta líka!

Ég borða frekar prótínríkan mat að staðaldri því mér líður vel af honum en fyrir tökurnar varð ég enn strangari. Ég tók alveg út allan sykur og reyndi að halda kolvetnum í lágmarki, ekkert brauð, pasta, hrísgrjón og svo framvegis. Ég borðaði samt allt grænmeti og ávexti og var svo sem ekkert að vigta ofan í mig en passaði bara að minnka aðeins kaloríuinntöku því ég vildi skera mig aðeins niður. Engar öfgar samt og ég var aldrei svöng, borðaði bara hollan og góðan mat og fór vel með mig.“

mbl.is/Arnþór Birkisson

– Hvernig hugsar þú um andlega heilsu?

„Það er ekki síður mikilvægt! Það sem ég elska við baptiste-jóga er að það er þrískipt og allt jafn mikilvægt; líkamlegar stöður, hugleiðsla og sjálfsskoðun. Ég hugleiði á hverjum degi og hef gert í nokkur ár og það algjörlega breytti lífi mínu. Ég hef líka reglulega farið til sálfræðings í gegnum tíðina sem er mjög mikilvægt að mínu mati. Einnig skrifa ég niður á morgnana fyrir hvað ég er þakklát. Það getur verið eitthvað stórt eða einfaldlega góður kaffibolli þá stundina. Bara fyrsta sem manni dettur í hug. Það skiptir svo miklu máli að taka reglulegt stöðutékk á eigin líðan. Hvað lætur mér líða vel? Líður mér vel? Hvernig get ég haldið áfram að stækka, þroskast og bæta mig? Er ég að staðna? Það skiptir máli að fara reglulega út fyrir þægindarammann því hann smám saman minnkar og minnkar og fer að þrengja að manni þó hann sé kannski þægilegur fyrst. Svo er bara halda áfram að læra, vera forvitin, upplifa, njóta og fókusera á það sem er gott. Lifa út frá gnægð en ekki skorti.“

– Hvað gerir þú til þess að dekra við þig?

„Ég elska nudd og spa! Ég er eiginlega öfugt við það að vera snertifælin og elska að láta fikta í mér, nudda og knúsa. Ég er svo vel gift að ef við hjónin förum upp í sófa þá er ég nánast undantekningarlaust búin að bora tánum eða hausnum í fangið á manninum mínum og byrjuð að mala.

Svo finnst mér líka dekur að fara í almennilega hestaferð upp á hálendið og upplifa frelsi og taumlausa gleði með dýrum og mönnum í fallegri náttúru. Eða fara gott út að borða í góðum félagsskap, hlæja, dansa og fíflast. Ég finn dekur víða í stórum og litlum hlutum. Ég myndi segja að ég væri lífsglaður nautnaseggur!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál