Endaði í veikindaleyfi á breytingaskeiðinu

Guðrún Björk Þorsteinsdóttir hugsar vel um heilsuna á breytingaskeiðinu.
Guðrún Björk Þorsteinsdóttir hugsar vel um heilsuna á breytingaskeiðinu. Ljósmynd/Aðsend

Guðrún Björk Þorsteinsdóttir er 51 árs hjúkrunarfræðingur hjá Gynamedica. Guðrún hefur persónulega reynslu af breytingaskeiðinu en þá breyttist meðal annars hormónatengt mígreni sem olli henni miklum vandræðum. Guðrún endaði í kjölfarið í veikindaleyfi en hefur í dag náð góðum árangri með heilbrigðum lífstíl, lyfjum og hormónaplástrum.

Guðrún segir að það sé talsvert síðan að hún byrjaði að finna fyrir einkennum breytingaskeiðsins. Þá var minni umræða um breytingaskeiðið en í dag. „Það helsta hjá mér er að mígrenið mitt breyttist mikið. Ég hef verið með hormónatengt mígreni í um það bil 25 ár. Í stað þess að fá mígrenisköst í kringum blæðingar oft í þrjá daga þá breyttist mígrenið í næstum daglegan þrýsting í höfði sem oft endaði í höfuðverk/ mígreni. Áður var mígrenið stundum það slæmt að ég komst ekki fram úr rúmi en breytingin gerði það að verkum að verkirnir urðu ekki eins slæmir en bara miklu oftar og eiginlega alltaf seyðingur.

Ég var misslæm af mígreni og reyndi lengi að skilja hvað það var sem orsakaði en oft var það óútreiknanlegt þó vissulega margt hafi áhrif. En svo með tímanum fattaði ég að þessi breyting á mígreninu mínu tengdist líklega estrógen flöktinu sem einkennir breytingaskeiðið, þ.e. miklar sveiflur í estrógeni og sérstaklega miklar dýfur koma klárlega af stað mínu mígreni. Sem sést best á því að ég fékk alltaf mígreni þegar blæðingar byrjuðu en þá lækkar estrógengildið, ég var laus við mígreni á meðgöngum en fékk mjög slæm mígrenisköst daginn eftir fæðingu. Vitað er að estrógen hækkar á meðgöngu en fellur aftur við fæðingu barns.

Ég vil þó nefna að það er mjög margt sem getur komið af stað mígreni og sennilega misjafnt eftir fólki. Önnur einkenni breytingarskeiðsins sem ég fann vel fyrir voru kvíði, hjartsláttarónot, hitakóf, þreyta og orkuleysi, depurð, minnisleysi, einbeitingarleysi, svefnvandi, dofi fram í handleggi,pirringur, þyngdaraukning og örugglega einhver fleiri sem ég er að gleyma.“

Gerir þú eitthvað til þess að bæta líðan?

„Já, ég hef gert og prófað mjög margt svo sem ýmis lyf við mígreni meðal annars líftæknilyfið Aimovig. Ég hef stundað jóga og hugleiðslu, ýmiskonar sjálfsvinnu og námskeið. Ég hef lesið mikið og aflað mér upplýsinga. Ég fór í veikindaleyfi í heilt ár vegna þessara breytinga á mínu mígreni og þá fékk ég allskyns aðstoð frábærra fagmanna. Ég hef reynt að hlúa að sjálfri mér og mínum lífstílsþáttum, ég hef alltaf passað vel upp á mataræði, ég drekk mjög sjaldan áfengi, hef aldrei reykt og lifi heilsusamlegu lífi. Ég finn að vegna mígrenisins og breytingaskeiðsins er ég miklu viðkvæmari fyrir ýmsu áreiti og streitu í kringum mig. Ég finn að mikil streita getur komið af stað mígreni svo ég verð að forðast streituna. Það hefur reyndar verið erfitt í gegnum tíðina að vera hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, og mega helst ekki vera í streitu, en ég hef verið hjúkrunarfræðingur á Kvenlækningadeild og bráðamóttöku kvennadeildar síðastliðin 16 ár en hætti núna í haust og fór yfir til Gynamedica.“

Mígrenið breyttist

Það getur verið skynsamlegt að byrja að undirbúa breytingaskeiðið áður en það hefst en Guðrún segist því miður ekki hafa gert það.

„Ég bara brunaði áfram á fullum krafti þangað til ég keyrði í þrot og taugalæknirinn minn sendi mig í veikindaleyfi, það kom mér á óvart, því ég var svo vön að harka bara af mér, en var það langbesta sem læknir hefur ráðlagt mér. Það var hún Guðrún Rósa taugalæknir sem þekkir mjög vel mígreni og hún hefur hjálpað mér mikið. Ég fór í Virk og vann á ýmsan hátt í að láta mér líða betur og reyna að ná mér. Allt sem ég gerði sjálf hjálpaði mér að líða betur en ég fór líka á hormóna í gegnum Hönnu Lilju Oddgeirsdóttur lækni sem þá var að vinna á heilsugæslunni í Grafarvogi. Hormónarnir höfðu fljótt áhrif á ýmis einkenni breytingarskeiðsins en ég fann ekki alveg strax mun á mígreninu. Það getur tekið tíma að finna hvaða hormónamagn hentar manni og ég þarf að fara varlega í allar breytingar því ég er með þetta mígreni. Ég fann hins vegar að þegar ég fór á hormónaplástur þá fór ég að finna mun. Þá er jafnara hormónaflæði en með gelinu. Ég er sannfærð um að estrógensveiflur eiga stóran þátt í mínu mígreni en það á ekki endilega við um allar tegundir af mígreni.

Öll sú frábæra umræða sem hefur átt sér stað um breytingaskeiðið undanfarið hefur orðið til þess að konur eru mun fyrr farnar að huga að breytingaskeiðinu og jafnvel vilja sumar vera búnar að undirbúa sig fyrirfram sem er mjög gott. Sumar konur muna hvernig mæður þeirra voru á breytingarskeiðinu og vilja ekki lenda í því sama og leita því til okkar í ráðgjöf. Breytingarskeiðið getur byrjað í kringum 40 ára aldur jafnvel fyrr og í sumum tilvikum finna konur fyrir því í tíu ár áður en blæðingar hætta og tíðahvörf verða. Þetta er því klárlega mun lengra tímabil en áður var talið og hefur gífurleg áhrif á daglegt líf margra kvenna.“

Guðrún Björk fékk meðgöngueitrun tvisvar sinnum en konur sem fá …
Guðrún Björk fékk meðgöngueitrun tvisvar sinnum en konur sem fá meðgöngueitrun eru í aukinni hættu að fá aðra sjúkdóma. Ljósmynd/Aðsend

Fékk tvisvar meðgöngueitrun

Guðrún fékk tvisvar meðgöngueitrun en konur sem hafa fengið sjúkdóminn eru í aukinni hættu á að fá aðra sjúkdóma seinna á ævinni.

„Meðgöngueitrun er mjög lúmsk og maður finnur eiginlega ekkert fyrir henni í byrjun. Ég var á fullu að vinna á Kvenlækningadeildinni og bara hoppaði yfir í áhættumæðravernd til að fara í tékk sem þá var á sömu hæð. Ég var þá greind með alltof háan blóðþrýsting, prótein í þvagi og bjúg svo ég var kyrrsett og lögð beint inn á deild. Ég fann eiginlega ekkert fyrir neinu í byrjun og fannst ég ekkert vera veik en af því ég er hjúkrunarfræðingur þá vissi ég af hverju ég var kyrrsett. Ég hef tvisvar fengið meðgöngueitrun og legið inni í fjórar vikur bæði skiptin. Fæðingu var komið af stað fyrir tímann í bæði þessi skipti. Það er mjög gott eftirlit hér á landi í mæðravernd og alltaf verið að skima fyrir meðgöngueitrun. Mér fannst ég vera í mjög öruggum höndum og eftirlitið var gott á spítalanum.

Meðgöngueitrun (e. Preeclampsia) er fjölkerfa stigvaxandi sjúkdómur sem kemur fram eftir 20 vikna meðgöngu og er oft einkennalaus í byrjun. Orsök er ekki þekkt og þrátt fyrir áratuga rannsóknir er enn ekki vitað að fullu hvers vegna meðgöngueitrun kemur fram. Ástandið gengur oftast til baka eftir fæðingu og engin lækning til önnur en sú að koma fæðingu af stað. Þó eru vissulega gefin ýmis lyf til að halda blóðþrýsting niðri, blóðþynnandi lyf, lyf til að koma í veg fyrir krampa og nákvæmt eftirlit með móður og barni. Oftast er um vægan sjúkdóm að ræða en ein af hverjum 200 konum fá þó alvarlegan sjúkdóm sem getur verið lífshættulegur fyrir móður og barn. Alvarleg meðgöngueitrun getur truflað ýmsa líkamsstarfsemi svo sem starfsemi nýrna, lifrar og/ eða blóðstorkukerfi. Einnig getur hún haft áhrif á fylgjuna sem veldur því að barnið vex ekki eðlilega eða legvatnið minnkar. Meðgöngueitrun veldur um 18% dauðsfalla mæðra í Bandaríkjunum ár hvert og er ein aðalástæða fyrirburafæðinga þar.“

Meiri áhætta hjá konum sem hafa fengið meðgöngueitrun

Þegar orðið meðgöngueitrun kemur fyrir hugsa margir um afmarkaðan tíma. En er þetta eitthvað sem fylgir manneskju út lífið?

„Já, konur sem hafa sögu um meðgöngueitrun eru í aukinni áhættu á ýmsum heilsufarsvandamálum síðar á ævinni svo sem hjarta-og æðasjúkdómum, háþrýstingi, heilablóðfalli, nýrnasjúkdómum, efnaskiptasjúkdómum og sykursýki. Gífurlegt álag er á líkama konu sem fær meðgöngueitrun og geta orðið skemmdir í æðakerfi móður sem hægt er að mæla mörgum árum síðar. Rannsóknir hafa sýnt að áhættan hjá þessum konum er verulega aukin miðað við konur sem ekki hafa fengið meðgöngueitrun. Vegna þessa hafa nú þegar verið gerðar breytingar á leiðbeiningum Amerísku hjartasamtakanna (e. Amercian Heart Association) og Evrópsku hjartasamtakanna (e. European Society of Cardiology) og bætt við blóðþrýstingsvandamálum á meðgöngu sem áhættuþætti fyrir hjarta-og æðasjúkdómum. Ég hef ekki séð að það hafi verið gert hér á landi þó. Svo ef við erum að tala um konu sem bæði er komin á breytingarskeið og líka með sögu um alvarlega meðgöngueitrun þá er verulega ástæða til að konan fái fræðslu og vitneskju um að hún sé í aukinni hættu fyrir hjarta og æðasjúkdómum til þess að hún sjálf geti gert ráðstafanir í sínum lífstíl.“

Í ljósi heilsufarssögu sinnar hugsar Guðrún sérstaklega vel um lífsstílsþættina eins og mataræði, hreyfingu, svefn og streitu auk þess að vera á lyfjum. „Ég er á blóðþrýstingslyfjum, fylgist hæfilega með blóðþrýstingnum og er í eftirliti hjá mínum hjartalækni. En svo er ég auðvitað á hormónameðferð sem hefur styrkjandi áhrif á hjarta og æðakerfið. Estrógen er mikilvægt hormón mtt. hjarta og æðakerfisins. Eftir tíðahvörf verður mjög mikill skortur á estrógeni og þá aukast verulega líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum.“

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi. Mikil ættarsaga hjarta- og æðasjúkdóma er í fjölskyldu Guðrúnar og þess vegna vill hún gera það sem hún getur til að vinna gegn þeirri þróun. Hún velur því að vera á estrógenmeðferð. Henni finnst mikilvægt að konur fái fræðslu og geti með hjálp læknis vegið og metið hvort þær fari á hormóna eða ekki út frá heildrænu sjónarhorni en að það sé ekki ákvörðun læknis eingöngu. Guðrún segir mikilvægt að upplýsa konur um þessa áhættu þar sem þær átta sig ekki alltaf almennilega á því að þær séu í aukinni áhættu á því að fá hjarta- og æðasjúkdóma eftir meðgöngueitrun.

„Á síðustu árum hafa verið gerðar rannsóknir á því hvað er hægt að gera til að draga úr áhættunni. Mikilvægt er að heilbrigðiskerfið leiðbeini konum um fyrirbyggjandi lífstílsbreytingar og að þær fái fræðslu og eftirlit. Eftir því sem ég best veit er ekkert formlegt eftirlit með konum eftir meðgöngueitrun hér á landi. Ég sjálf þurfti alveg að hafa fyrir því að koma mér inn í reglulegt eftirlit hjartalæknis því ekki var talin þörf þar sem ég var svo ung og ekki með hækkun á kólesteróli, ekki of þung, blóðsykur í lagi, aldrei reykt og almennt hraust. Ég fékk munnlegar upplýsingar frá mínum sérfræðilækni á spítalanum að mikilvægt væri að ég færi í eftirlit til hjartalæknis eftir þessa meðgöngueitrun. Hinsvegar var ekkert í kerfinu sem hélt utan um slíkt eftirlit.“

Er í draumstarfinu

Finnst þér umræðan um breytingaskeiðið vera að breytast?

„Já klárlega og sem betur fer! Mér finnst konur mjög meðvitaðar um breytingaskeiðið í dag og öll þessi frábæra umræða sem hefur verið bara síðustu tvö til fimm ár hefur vakið fleiri og fleiri til umhugsunar um ýmis einkenni sem geta tengst breytingarskeiðinu önnur en bara hitakóf. Ég skil eiginlega ekki af hverju það var tabú að tala um þetta hér áður fyrr. Held það hljóti að vera aðallega þekkingarleysi um að kenna. Það er klárlega mikilvægt fyrir konur að afla sér upplýsinga, því það hvernig við tökumst á við breytingaskeiðið hefur áhrif á okkar langtíma heilsu út ævina og margt sem hægt er að fyrirbyggja með réttum lífstíl og réttum hormónum. Í löndunum í kringum okkur hefur það sama verið að gerast, þ.e. opnari umræða um breytingaskeiðið og meiri vitneskja sífellt að bætast við. Það er bara mjög góð breyting.“

Ert þú að vinna með kvenheilsu í þínu starfi og á hvaða hátt?

„Ég er búin að vera að vinna í mörg ár á kvenlækningadeild Landspítalans þannig að kvenheilsa er klárlega eitthvað sem ég hugsa mikið um og hef gert í nokkur ár. Ég er líka í diplómanámi í sálrænum áföllum og ofbeldi við Háskólann á Akureyri þar sem mín verkefni hafa mestmegnis snúist um kvenheilsu og námið þar gefið mér mikið. Ég hef í raun brennandi áhuga á ýmsum málefnum sem snúa að konum og ekki hefur fengið mikla athygli í heilbrigðiskerfinu hingað til svo sem endómetríósa, breytingaskeið kvenna, áfallasögu kvenna og margt fleira sem tengist kvenheilsu. Mér finnst starfið sem ég er í núna hjá Gynamedica vera mitt draumastarf því þar sameinast þessi áhugi og þar er veitt heildræn nálgun á konur og þeirra heilsu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda