„Þetta er draumurinn. Hér er allt sem þarf.“

Agnes Grímsdóttir snyrtifræðingur býður upp á fjölbreyttar meðferðir á Iceland …
Agnes Grímsdóttir snyrtifræðingur býður upp á fjölbreyttar meðferðir á Iceland Parliament Spa við Austurvöll. Ljósmynd/Íris Dögg

Agnes Grímsdóttir snyrtifræðingur hefur upp á síðkastið verið í óða önn við að nostra við nýja snyrtiaðstöðu í Iceland Parliament hótelinu við Austurvöll og segir að hún sé ein sú fallegasta á landinu.

„Þetta er draumurinn. Hér er allt sem þarf, ekki of mikið og ekki of lítið,“ segir Agnes.

Aðstaðan er öll hin fallegasta.
Aðstaðan er öll hin fallegasta. Ljósmynd/Íris Dögg

 Ekki bara fyrir hótelgesti

„Það er frábært að geta tekið við viðskiptavinunum við þessar aðstæður þar sem allt er eins og ég vil hafa það. Og að geta boðið fólki í spa á eftir er auðvitað toppurinn,“ en aðgangur að heilsulindinni fylgir andlits- og nuddmeðferðum á Parliament Spa og þótt snyrtistofan sé inni á hótelinu er hún opin öllum — ekki eingöngu hótelgestum.

Agnes starfaði áður hjá Madison ilmhúsi og Hreyfingu Spa en flutti sig yfir til Iceland Parliament Spa í haust þegar allt var í mótun enda glæsihótelið nýopnað. 

„Móttökurnar hafa verið stórkostlegar enda staðsetningin frábær og aðstæður svo sannarlega með því allra besta sem við höfum séð. Svo er upplagt að fá sér mat eða kokteil á veitingastaðnum á hótelinu í góðra vina hópi. Frábær uppskrift að frábærum degi.“

Mætir þörfum hvers og eins

Agnes segir að andlitsmeðferðirnar séu afar vinsælar. „Við bjóðum upp á 30, 50 og 80 mínútna meðferðir. Ég legg auk þess mikla áherslu á að laga meðferðir viðskiptavina að þeirra þörfum og löngunum. Það er engin meðferð niðurnelgd og ég er alltaf meira en til í að uppfylla óskir viðkomandi.“

Aðspurð segir Agnes lykilinn að góðu útliti liggi í því að nota fáar en góðar vörur. 
„Ég þreytist ekki á að minna fólk á, sama hvers kyns, að ávinningur og árangur þess að nota fáar vörur sem skipta máli er töluvert mikið meiri en að eiga heilu lagerana af alls kyns serumum og kremum uppi í skáp og fyllast svo valkvíða um hvað eigi að nota þann daginn.“

Andlitsmeðferðirnar eru vinsælastar og Agnes leggur sig fram um að …
Andlitsmeðferðirnar eru vinsælastar og Agnes leggur sig fram um að mæta þörfum hvers og eins. Ljósmynd/Íris Dögg

Vel nærð húð er undirstaða alls

„Það að hreinsa húðina kvölds og morgna, nota dagkrem, næturkrem og sólarvörn kemur flestum húðgerðum óralangt. Vel nærð, varin og hrein húð er lykillinn og undirstaða alls sem á eftir kemur. Svo má byggja ofan á þá grunn rútínu ef áhugi og vilji er fyrir hendi.“

Agnes fer að eigin ráðum þegar kemur að sinni snyrtirútínu. Hún er með ákveðna grunnrútínu sem hún víkur ekki frá, notar til dæmis alltaf sólarvörn og leggur áherslu á ávaxtasýrumeðferðir að vori og hausti. 

„Ég er flesta mánuði ársins að vinna með grunnrútínuna sem ég tala um hér að ofan og hreinsa húðina kvölds og morgna með hreinsimjólk og Sublime Skin Micropeel Lotion frá Comfort Zone sem ég er kolfallin fyrir. Svo nota ég BioEffect Hydrating Cream kvölds og morgna og hef gert í mörg ár og elska það.“

Ávaxtasýrumeðferðir að vori og hausti

„Þá má ekki gleyma sólarvörn auðvitað. Alltaf. Allan ársins hring. Ég skrúbba húðina mína tvisvar í viku með kornaskrúbb frá Comfort Zone og viðurkenni fúslega að maska notkun mín er afar slök. Ég reyni að halda dampi í grunninum svo að ég komist upp með að vera löt í
krúsídúllunum. Svo hef ég verið mjög sönn þeirri ákvörðun minni að fara í ávaxtasýrumeðferðir að vori og hausti. Ég vinn með Comfort Zone sýrurnar á Parliament Spa í þeim meðferðum sem við bjóðum upp á og þær eru dásamlegar. Húðin verður svo mikið jafnari, hreinni og áferðafallegri eftir þær meðferðir. Ég fer í þrjár meðferðir með tveggja vikna millibili að hausti og svo aftur að vori. Fullkomin formúla ef þú spyrð mig. Lauma svo kannski einni inn til viðbótar fyrir jólin.“

Agnes býður upp á andlitsböð, augabrúnalitun, plokkun/vax og nudd og …
Agnes býður upp á andlitsböð, augabrúnalitun, plokkun/vax og nudd og hægt er að bóka tíma hjá henni á noona.is/parliament. Ljósmynd/Íris Dögg

Hugsarðu vel um heilsuna?

„Ég reyni það. Það gengur upp og ofan eins og hjá mörgum. Mér liggur mest á hjarta að líða vel. Ef mér líður vel í sálinni og mínu nánasta fólki sömuleiðis gengur mér töluvert betur að halda uppi góðum siðum.“

Besta leiðin til þess að núllstilla sig?

„Núllstilling. Er það til? Það næsta sem ég næ að líkja við núllstillingu er að syngja með vinkonum mínum í Kvennakórnum Kötlu á mánudagskvöldum og þegar ég næ að mæta snemma niður í bæ á morgnana fyrir vinnu og rölta einn hring í kringum Tjörnina. Allir dagar mættu byrja þannig. Svo getur vel leikin og skrifuð drama sería alltaf og ævinlega hvílt mig á amstri dagsins.“

Hvað er mest heillandi í fari fólks?

„Sjálfsöryggi, vellíðan og skemmtilegar samræður eru þrenna sem ég fell hratt og örugglega fyrir.“

Hvað er framundan?

„Það er svo margt skemmtilegt framundan. Ég hlakka mikið til að eiga mína fyrstu aðventu á nýjum stað og bjóða fólki hvíld og dásemdar meðferðir í jólaundirbúningnum. Svo fara kvöldin mín þessi misserin að mestu leiti í að æfa jólasýningu Borgarleikhússins, Aðventa með Kvennakórnum Kötlu. Þannig að ætli jólin séu ekki framundan svona fyrst og fremst. Og ég hlakka svo innilega til.“

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál