„Það skiptir miklu máli að vera með sterkan haus í hlaupum“

Sara Ósk Jóhannsdóttir varð heilluð af hlaupum eftir að hún …
Sara Ósk Jóhannsdóttir varð heilluð af hlaupum eftir að hún setti handboltaskóna á hilluna. Samsett mynd

Hin 23 ára gamla Sara Ósk Jóhannsdóttir hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem við kemur hreyfingu. Hún æfði lengi handbolta á sínum yngri árum, en eftir að hún lagði handboltaskóna á hilluna varð hún heilluð af hlaupum og hefur í dag tekið þátt í hinum ýmsu keppnishlaupum bæði á Íslandi og erlendis.

Sara er búsett í Óðinsvé í Danmörku þar sem hún mun hefja framhaldsnám í klínískri sálfræði í haust, en hún er með BS gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. „Ég ólst upp í Danmörku svo minn helsti draumur var alltaf að flytja aftur út. Eftir að hafa klárað grunnnámið í HR ákvað ég því loksins að láta þann draum rætast. Ég er mjög ánægð með að búa í Óðinsvé og þykir gaman að sjá hvað almenningshlaup eru vinsæl hér. Það er hellingur í boði fyrir þá sem stunda hlaup, hvort sem þú ert byrjandi eða vanur hlaupari,“ segir Sara. 

Í dag er Sara búsett í Óðinsvé, en hún kann …
Í dag er Sara búsett í Óðinsvé, en hún kann afar vel við sig í Danmörku.

„Foreldrar mínir eru miklir hlauparar og hafa lengi verið að æfa með Hlaupahóp Víkings. Ég hef því lengi fylgst með hlaupaheiminum í gegnum þau og ákvað ég loksins að prófa eina æfingu með þeim árið 2021 og þá var ekki aftur snúið. Ég æfi því með Hlaupahóp Víkings þegar ég er á Íslandi og æfi svo með dönskum hlaupahóp sem heitir Odense Running Crew þegar ég er í Danmörku,“ útskýrir Sara, en hún hefur að undanförnu verið dugleg að sýna frá æfingum og hlaupaferli sínum á samfélagsmiðlum. 

„Það er ótrúlega gaman að eiga sama áhugamál og foreldrar mínir. Við höfum verið að ferðast erlendis til þess að taka þátt í keppnishlaupum og svo eyðum við meiri tíma í eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt. Ég lít mikið upp til þeirra þegar kemur að hlaupum og mætti alveg segja að þau séu mínar helstu fyrirmyndir,“ bætir hún við. 

Sara á ekki langt að sækja áhugann á hlaupum, en …
Sara á ekki langt að sækja áhugann á hlaupum, en foreldrar hennar eru miklir hlauparar.

Hvernig hlaup eru í uppáhaldi hjá þér?

„Mér finnst skemmtilegast að hlaupa hálfmaraþon en svo koma 10 km götuhlaupin sterkt á eftir. Utanvegahlaupin eru einnig mjög skemmtileg þar sem að landslagið er allt öðruvísi en í götuhlaupunum, mér finnst sérstaklega gaman að hlaupa utanvegar á Íslandi þar sem hægt er að finna fullt af skemmtilegum og fjölbreyttum leiðum.

Ef ég ætti að velja mér uppáhaldshlaup þá er Bakgarðurinn hátt á listanum. Bakgarðurinn reynir meira á seigluna, úthaldið og hversu sterkan huga maður er með og stemningin og stuðningurinn í hlaupinu er svo geggjaður. Það er sjúklega mikil jákvæðni og góð orka sem fylgir Bakgarðinum. Þó svo að götuhlaupin séu núna mín aðaláhersla þá sé ég fram á að utanvegahlaupin eigi eftir að verða stærri hluti af mínum hlaupaferli, og þá er Laugavegshlaupið eitt af þeim hlaupum sem mig langar að hlaupa á næstu árum.“

Sara spáir því að utanvegahlaupin eigi eftir að verða stærri …
Sara spáir því að utanvegahlaupin eigi eftir að verða stærri hluti af hlaupaferlinum enn daginn.

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég er mjög mikil rútínumanneskja – finnst best að fara snemma að sofa og byrja daginn snemma. Ég vakna oftast í kringum 06:30, og ef ég er að fara á morgunæfingu þá er ég búin að gera æfingafötin mín tilbúin kvöldið áður. Mér finnst svo best að fá mér hafragraut í morgunmat og bæti oftast chia fræjum, bönunum og hnetusmjöri við hafragrautinn.“

Sara er mikil rútínumanneskja og finnst best að fara að …
Sara er mikil rútínumanneskja og finnst best að fara að sofa og vakna snemma.

Hvernig er hefðbundin æfingavika hjá þér?

„Hefðbundin æfingavika hjá mér inniheldur yfirleitt þrjár hlaupaæfingar þar sem ég tek eitt tempó-hlaup, eitt interval-hlaup og svo eitt langt og rólegt hlaup. Ég fer svo á Crossfit æfingar tvisvar sinnum í viku. Ég reyni oftast að stunda einhverja hreyfingu á hverjum degi og því getur bæst við vikuna t.d hjólatúr, styrktaræfing í ræktinni eða göngutúr á þeim dögum sem ég er ekki á skipulögðum æfingum.

Mér finnst mikilvægt að stunda einhverskonar styrktaræfingar með hlaupaæfingunum en núna þegar það er að koma sumar er áherslan á hlaupaæfingarnar aðeins meiri. Ég persónulega gerði þau mistök þegar ég var að byrja að hlaupa að ég gerði aldrei neinar styrktaræfingar en styrktaræfingarnar hjálpa til við að fyrirbyggja meiðsli og finnst mér þær því vera mjög mikilvægar í dag.“

Söru þykir ómissandi að stunda styrktaræfingar samhliða hlaupunum.
Söru þykir ómissandi að stunda styrktaræfingar samhliða hlaupunum.

Hversu miklu máli skiptir hugarfar í hlaupum að þínu mati?

„Mér finnst hugarfar skipta mjög miklu máli þar sem að það skiptir miklu máli að vera með sterkan haus í hlaupum. Ég les mikið, m.a. af sjálfshjálparbókum, um jákvætt hugarfar, svefn og mataræði. Jákvætt hugarfar kemur þér mjög langt í hlaupum og almennt í lífinu. Lífið og hlaupin geta verið á svo margan hátt lík, þ.e stundum ertu að klífa brekku og allt er erfitt en stundum er allt bjart og auðvelt og þér líður eins og þú getir sigrað allt.“

Sara hefur verið dugleg að fræða sig um hugarfar, enda …
Sara hefur verið dugleg að fræða sig um hugarfar, enda segir hún það skipta miklu máli bæði í lífinu og hlaupunum.

Hvað finnst þér mest krefjandi fyrir hlaupin? En mest gefandi?

„Mér finnst það að láta hausinn ekki plata sig oft vera krefjandi við hlaupin þar sem að auðvelt er að fara yfir í neikvæðar hugsanir eða þessa djúpa dali sem er oft talað um þegar hlaupin verða erfið.

Mér finnst svo mjög gefandi að geta sýnt sjálfri mér að ég get klárað krefjandi áskoranir. Félagsskapurinn sem fylgir hlaupunum er einnig mjög gefandi. Hlaupararnir í Hlaupahóp Víkings eiga stóran þátt í því af hverju mér finnst gaman að mæta á hlaupaæfingar og er stuðningurinn einnig ómetanlegur.“

Söru þykir félagsskapurinn sem fylgir hlaupunum afar gefandi og hvetjandi.
Söru þykir félagsskapurinn sem fylgir hlaupunum afar gefandi og hvetjandi.

Hvað finnst þér best að borða fyrir langt hlaup eða keppni?

„Kvöldið fyrir langt keppnishlaup reyni ég að borða kolvetniaríka máltíð eins og t.d pítsu eða pasta. Uppáhaldsmáltíðin mín er heimagerð pizza, en það er bæði auðvelt að búa hana til og svo er hún kolvetnarík. Um tveimur tímum fyrir langt hlaup eða keppni fæ ég mér svo oftast beyglu með smjöri og osti. Mér finnst mikilvægt að halda í vana þegar kemur að næringu fyrir keppnishlaup og er því búin að finna hvaða matur hentar mér, en það er mjög persónubundið.“

Fyrir löng keppnishlaup leggur Sara áherslu á að borða kolvetnaríka …
Fyrir löng keppnishlaup leggur Sara áherslu á að borða kolvetnaríka máltíð kvöldið áður.

Ertu með einhver góð ráð fyrir byrjendur sem langar að byrja að hlaupa?

„Mitt helsta ráð er að byrja ekki of hratt, þú græðir lítið á því að bera þig saman við aðra hlaupara og það er í góðu lagi að stoppa eða labba inná milli. Ég get svo einnig mælt með því að prófa æfingar með hlaupahóp, þá bæði ertu undir leiðsögn þjálfara og það gerir hlaupin skemmtilegri þar sem þú færð að æfa með öðrum. Ég sá persónulega mestan árangur þegar ég fór að æfa markvisst og byrjaði að mæta á skipulagðar æfingar með Hlaupahóp Víkings.“

Sara hvetur fólk til að prófa að skrá sig á …
Sara hvetur fólk til að prófa að skrá sig á æfingu með hlaupahóp.

En fyrir þá sem eru að fara að taka þátt í keppnishlaupum í sumar?

„Mitt helsta ráð fyrir þá sem eru að æfa fyrir maraþon eða löng hlaup er að huga að næringu og hvíld. Mér finnst mikilvægi þess að hvíla sig á milli æfinga oft gleymast. Ég myndi einnig mæla með því að æfa næringuna sem þú ætlar að nota í keppnishlaupinu, eins og að æfa líkamann í að taka inn gel, til þess að minnka líkurnar á að fá í magann. Ég myndi svo persónulega vera búin að æfa allan búnað og keppnisfatnað svo maður sé ekki í neinu nýju í keppnishlaupinu en svo er alltaf gott að fylgja hlaupaplani og æfa markvisst.

Sara mælir með því að hlauparar hugi sérstaklega vel að …
Sara mælir með því að hlauparar hugi sérstaklega vel að næringu og hvíld þegar verið er að æfa fyrir löng hlaup.

Hvað er ómissandi að eiga fyrir hlaupin?

„Það er ótrúlega mikilvægt að eiga góða hlaupaskó til þess að fyrirbyggja meiðsli og líðan þín í hlaupum verður betri. Ég myndi svo einnig mæla með því að eiga góðan hlaupajakka, sérstaklega í íslensku veðri.“

Góðir hlaupaskór eru ómissandi að mati Söru.
Góðir hlaupaskór eru ómissandi að mati Söru.

Hvað er efst á óskalistanum þínum fyrir hlaupin?

„Ég elska að hlaupa með hlaupagleraugu svo mig langar mjög mikið að prófa hlaupagleraugun frá NEON þar sem að ég hef heyrt góða hluti um þau. Svo vantar mig reyndar regnheldan hlaupajakka og hef ég því verið með annað augað á UGLOW Ultra hlaupajökkunum.“

Efst á óskalista Söru eru ný hlaupasólgleraugu og regnheldur hlaupajakki.
Efst á óskalista Söru eru ný hlaupasólgleraugu og regnheldur hlaupajakki.

Hvað er framundan hjá þér?

„Ég er mjög spennt fyrir hlaupasumrinu hérna á Íslandi þar sem það eru svo ótrúlega mörg skemmtileg hlaup í boði. Ég er skráð í 10 km í Miðnæturhlaupinu en það er hlaup sem ég er alltaf skráð í. Einnig finnst mér líklegt að ég skrái mig í Hólmsheiðarhlaupið, Ármannshlaupið og Adidas Boost hlaupið. Ætli maður verði svo ekki að taka Reykjavíkurmaraþonið ef ég verð ennþá á landinu, það er varla hægt að sleppa því.

Ég enda svo hlaupasumarið á að hlaupa hálft maraþon í Kaupmannahöfn en með því að hlaupa það er ég að klára annað hálfmaraþonið mitt í hlaupaseríu sem kallast „SuperHalfs“ en ég tók þátt í Berlínar hálfmaraþoninu í apríl á þessu ári. Hlaupaserían gengur út á að klára sex hálfmaraþon í sex mismunandi borgum á ákveðnum tíma. Ég er því mjög spennt fyrir því að fara í keppnishlaup erlendis á næstu mánuðum.“

Það er spennandi hlaupasumar framundan hjá Söru!
Það er spennandi hlaupasumar framundan hjá Söru!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál