„Þú verður að vera með þolinmæðina að vopni“

Rakel María tók þátt í Kerlingafjöll Ultra á dögunum. Það …
Rakel María tók þátt í Kerlingafjöll Ultra á dögunum. Það er nýtt utanvegahlaup og fyrsta hlaupið sem haldið hefur verið í Kerlingarfjöllum. Ljósmynd/Cindy Rún Li

Hlaupadrottningin Rakel María Hjaltadóttir er óstöðvandi þessa dagana og hleypur hvert langhlaupið á fætur öðru. Hún nýtur sín hvergi betur en úti í náttúrunni og þekkir allar bestu hlaupaleiðirnar.

Rakel María hafði engan íþróttabakgrunn þegar hún byrjaði að hlaupa fyrir sex árum síðan. 

„Fyrst um sinn gat ég ómögulega hlaupið einn kílómetra án þess að stoppa. Þetta er erfitt í byrjun en það skiptir miklu máli að halda áfram. Hlaup er krefjandi en ótrúlega gefandi,“ útskýrir Rakel María sem deilir hér bestu ráðum sínum fyrir byrjendur í hlaupum.

Ekki ofhugsa hlutina!

„Það eina sem þú þarft að gera er að reima á þig skóna og koma þér út, flóknara er það ekki. Þú þarft ekki allan heimsins búnað eða græjur þegar þú byrjar. Það er mikilvægt að ofhugsa ekki tíma og vegalengd í fyrstu. Að fara út og hlaupa á milli ljósastaura er frábær leið til að byrja.“

Ekki ætla þér of mikið í upphafi!

„Það tekur tíma að byggja upp þol og form. Þú verður að vera með þolinmæðina að vopni þegar þú byrjar í hlaupum en án hennar gengur þetta aldrei upp. Þeir sem ætla sér of mikið í byrjun lenda oft á vegg og detta út áður en þeir finna neistann. Treystu mér, ef þú heldur þig við efnið þá muntu finna neistann og þá líður ekki á löngu þar til hlaupabakterían tekur yfir.“

Gleðin er gjöf sem hlaupin gefa.
Gleðin er gjöf sem hlaupin gefa. Ljósmynd/Aðsend

Finndu gleðina í hlaupunum!

„Mér finnst ótrúlega mikilvægt að fólk finni gleðina í hlaupunum áður en það fer að hugsa um vegalengdir og tíma. Hlaupin eiga að snúast um það að gefa okkur gleðihormón og vellíðan. Ég mæli því með að fara rólega af stað og njóta hvers skrefs. 

Góð þumalputtaregla er að fara það rólega að þú getur haldið uppi samræðum á meðan þú hleypur. Þegar þú ert farin að læra að elska hlaupin þá getur þú farið að hugsa um hraða, tíma og vegalengdir.

Mantran mín er alltaf: „Eitt skref í einu“. Þannig kemst maður í gegnum allt.“

Rakel María segir það afar mikilvægt að teygja á líkamanum …
Rakel María segir það afar mikilvægt að teygja á líkamanum fyrir og eftir hlaup. Ljósmynd/Egill Árni Jóhannesson

Settu þér markmið!

„Það getur verið ótrúlega drífandi að hafa gott markmið fyrir stafni. Settu þér markmið þegar þú byrjar. Ég mæli með að skrá þig í hlaup. Á heimasíðunni hlaup.is er hægt að sjá hlaupadagskrá fyrir allt árið. Veldu þér hlaup sem þér finnst spennandi og skráðu þig. Það er svo sannarlega góð leið til að kveikja á hlaupaáhuganum. Ekki láta frammistöðukvíða stoppa þig, kýldu bara á það.“

Félagsskapur á hlaupum!

Eitt það skemmtilegasta við hlaupin er félagsskapurinn. Finndu þér hlaupahóp eða einhverja félaga til að hlaupa með. Hlaupasamfélagið er sístækkandi. Það er frábært aðhald í hlaupum að tilheyra hóp og einnig frábær leið til að kynnast öllu flotta fólkinu. Það er því algjör óþarfi að hafa áhyggjur að því að þú sért byrjandi, allir voru það á einum tímapunkti. Í hlaupahópum eru allir að gera þetta á sínum hraða og forsendum.“

Ekki gleyma að teygja!

Það er mikið álag fyrir líkamann að hlaupa og því afar mikilvægt að hugsa vel um hann fyrir hlaup og að hlaupi lokni. Það er mjög gott að taka nokkrar hreyfiteygjur áður en lagt er af stað og svo er gott að taka stöðuteygjur þegar þú klárar hlaupið.

Það er einnig mikilvægt að taka styrktaræfingar inn á milli og huga að því að styrkja kvið, bak og auðvitað fætur. Sterk miðja tengir saman efri og neðri hluta líkamans og skiptir sköpum í allri hlaupahreyfingu.

Rakel María hefur tekið þátt í þó nokkrum utanvegahlaupum það …
Rakel María hefur tekið þátt í þó nokkrum utanvegahlaupum það sem af er að árinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál