Valgerður Guðsteinsdóttir er nafn sem ekki margir Íslendingar þekkja en engu að síður hefur hún getið sér gott orð innan hnefaleikaheimsins. Hún er íþróttakona á heimsmælikvarða og eina íslenska atvinnukonan í íþróttinni.
Valgerður undirbýr sig nú af kappi fyrir keppnisbardaga gegn hinni írsku Shaunu O'Keefe, sem er jafnan kölluð The Irish Hammer. Bardaginn fer fram í Dyflinn á Írlandi á föstudag og verður það 13. atvinnubardagi Valgerðar, en til þess að taka þátt í fyrsta atvinnubardaganum þurfti hún að fara út og fá sænskt keppnisleyfi þar sem hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi árið 1956 með lagasetningu og er hún enn við lýði.
Blaðamaður settist niður með Valgerði í anddyri Mjölnis og ræddi við hana um íþróttaferilinn, undirbúningsferlið, ástina og keppnisskapið.
Valgerður hefur keppt sem atvinnukona í hnefaleikum síðustu ár með mjög góðum árangri. Hún fylgdist aðeins með hnefaleikum í sjónvarpi sem barn en kynntist bardagaíþróttinni almennilega þegar hún var 19 ára gömul.
Varstu mikið í íþróttum sem barn?
„Nei, ég get nú ekki sagt það. Ég spilaði fótbolta í fjögur ár sem krakki og prófaði mig aðeins áfram í dansi.“
Hvernig kynntist þú hnefaleikaíþróttinni?
„Góðvinur minn fékk mig með sér á byrjendanámskeið hjá Bjarka Braga í Hafnarfirði. Ég fann fljótt að íþróttin hentaði mér vel og æfði í dágóðan tíma. Eftir nokkurra ára hlé tók ég upp hanskana á ný og hef keppt á atvinnustigi síðastliðin átta ár.“
Er þetta stór heimur á Íslandi?
„Áhugamannahnefaleikar eru alltaf að eflast og eflast, en atvinnuhnefaleikar eru bannaðir hér á landi. Ég er fyrsta og eina konan, enn þá, sem keppir á atvinnustigi og er með sænskt keppnisleyfi þar sem ég má ekki keppa fyrir hönd Íslands, en ég vona að það breytist sem fyrst.“
Valgerður er gift kona og á fjögur loðbörn með eiginmanni sínum Halldóri Má Jónssyni.
Hvernig ræktar þú hjónabandið?
„Ég á alveg dásamlegan og stuðningsríkan eiginmann sem nýtur þess að gera hlutina með mér. Hann er algjör íþróttaálfur, þekkir vel inn á hnefaleikaheiminn og hefur sjálfur keppt í áhugamannahnefaleikum. Hann er einnig Íslandsmeistari í brasilísku jui-jitsu.
Við ræktum hjónabandið með því að eyða eins miklum tíma saman og við getum og hvetjum hvort annað áfram í einu og öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Ég er mjög heppin með hann.“
Hvernig fjármagnar þú sportið þitt?
„Við hjónin lifum ekki eins og venjulegt fólk, ef svo má að orði komast. Íþróttin er tímafrek og tæmir bankareikninginn hratt og örugglega þar sem maður greiðir stærstan hluta úr eigin vasa, sem er að sjálfsögðu alltaf erfitt. Fjölskyldan mín stendur þétt við bakið á mér sem er algjörlega ómetanlegt, en undirbúningur fyrir bardaga er mjög kostnaðarsamur og því eru fjárframlög afar vel þegin.“
Valgerður gerir fátt annað en að æfa, sofa og borða fyrir bardaga. Hún segir því mikilvægt að skipuleggja mataræðið vel og drekka vökva.
„Dagarnir mínir byrja allir eins. Ég er búin að borða sama morgunmatinn í 11 ár og byrja hvern einasta dag á Aloe Vera-vatni, næringarsjeik og ljúffengum tebolla. Ég drekk mikið vatn og passa upp á inntöku næringarefna. Dagana fyrir bardaga borða ég enn hreinna og skipulegg máltíðir í kringum æfingar. Ég legg sömuleiðis mikla áherslu á svefninn.“
Hvernig eru vikurnar fyrir bardaga?
„Það er ekkert félagslíf fyrir bardaga, dagarnir snúast um að æfa, vinna og sofa, það kemst ekkert annað að. Ég æfi tvisvar á dag í tvær til fjórar klukkustundir og allar helgar. Vinir mínir, fjölskylda og samstarfsfólk sýna því mikinn skilning sem og félagar mínir í Villiköttum þar sem ég sit í stjórn félagsins.“
Leyfir þú þér að sukka eftir bardaga?
„Já, algjörlega. Ég bíð spennt eftir að fá mér stóran bjór og súkkulaði-brownie sem maðurinn minn bakar fyrir mig.“
Valgerður, „introvert“ að eigin sögn, nýtur þess að stíga inn í hringinn og segir fátt toppa þá tilfinningu. Hún rifjaði upp bardaga gegn Ólympíumeistaranum Lauren Price sem fram fór á Wembely í júní árið 2022.
„Þetta var tækifæri sem ég einfaldlega gat ekki sleppt,“ segir Valgerður. „Fyrirvarinn var stuttur, ég fékk aðeins eina viku til að undirbúa mig.“
Hvernig var sú upplifun?
„Algjörlega geggjuð! Á móti mér tóku 9000 Bretar sem allir púuðu. Ég var ekki við fulla heilsu í bardaganum en ég hefði aldrei viljað sleppa þessu tækifæri. Þetta var einstök reynsla, þrátt fyrir tap.“
Hvað hefur íþróttin gefið þér?
„Bara allt. Ég hef þroskast, styrkst og ítrekað stigið út fyrir þægindarammann. Hnefaleikarnir hafa sýnt mér nýja hlið á sjálfri mér. Ég er frekar hlédræg og lítið fyrir að trana mér fram en í hringnum gerist eitthvað sem ég get ómögulega útskýrt. Það er magnað, algjörlega ólýsanlegt, að ganga inn í salinn með öskrandi hnefaleikaaðdáendur hvert sem ég horfi og myndavélar í andlitinu, þá kemst ég í ham, en um leið og bardaganum lýkur þá fer ég aftur inn í „introvert-inn“.
Valgerður hvetur að sjálfsögðu landsmenn til að fylgjast með bardaganum og styðja hnefaleikaíþróttina sem hún vonast til að verði gerð lögleg sem fyrst.
Horfa má á bardagann sem verður eins áður var nefnt föstudaginn 20. september í gegnum UFCfightpass.com