„Ég fann mig aldrei í neinni íþrótt þegar ég var yngri“

Hreyfing skapar stóran sess í lífi Ingunnar Kristjönu Þorkelsdóttir, en …
Hreyfing skapar stóran sess í lífi Ingunnar Kristjönu Þorkelsdóttir, en hún starfar sem íþróttafræðingur og þjálfari ásamt því að standa vaktina inn á milli í Sportvörum. Samsett mynd

Íþróttafræðingurinn og þjálfarinn Ingunn Kristjana Þorkelsdóttir hefur mikla ástríðu fyrir hreyfingu, en hún byrjaði þó ekki að hreyfa sig að ráði fyrr en hún var orðin 16 ára gömul og fann sig aldrei í neinni íþrótt sem barn. Ingunn varð hugfangin af ketilbjöllum þegar hún skráði sig í Víkingaþrek hjá Mjölni. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á byrjaði hún að vinna sig áfram með þessa nýfundnu ástríðu á stofugólfinu heima en í kjölfarið fór boltinn að rúlla.

Í dag er Ingunn með BS-gráðu í viðskiptafræði og MS-gráðu í íþróttavísindum og þjálfun. Hún starfar sem íþróttafræðingur og líkamsræktarþjálfari í Heilsuklasanum, þar sem hún þjálfar bæði hópa og einstaklinga, en samhliða þjálfuninni er hún í hlutastarfi hjá Sportvörum.

„Ég tel það mikil forréttindi að vinna við það sem ég elska. Það er ekki sjálfgefið að hlakka til að mæta í vinnuna á morgnana, enda hef ég aldrei upplifað það fyrr en ég fór að vinna í fullri vinnu við þjálfun,“ segir Ingunn.

Ing­unn er þakk­lát fyr­ir starf sitt og hlakk­ar til að …
Ing­unn er þakk­lát fyr­ir starf sitt og hlakk­ar til að mæta í vinn­una á hverj­um morgni.

Slysaðist í íþróttafræðinám og varð þjálfari

„Það er eiginlega galið að segja frá því að ég fann mig aldrei í neinni íþrótt þegar ég var yngri. Ég fór ekki að hreyfa mig að ráði fyrr en ég var orðin 16 ára gömul. Um það leyti held ég að eðlið mitt hafi kikkað inn og þörfin fyrir útrás. Í einhverri prófatörninni fékk ég bilaða löngun til að fara út að hlaupa. Ég fann alltaf svo mikla streitulosun að því loknu, sem veitti mér betri einbeitingu við lærdóminn,“ segir Ingunn.

„Í framhaldi fannst mér eitthvað heillandi við það að skrá mig í Boot Camp. Örugglega af því að ég fékk alltaf svo mikla „gleðivímu“ eftir „útrásarhlaupin” mín. Ég stundaði Boot Camp í ábyggilega fimm ár með pásum inni á milli. Í framhaldi færði ég mig yfir í Víkingaþrek Mjölnis, þar sem ég fann ástríðu mína fyrir ketilbjöllum. Kórónuveirufaraldurinn gerði það svo að verkum að ég varð að vinna sjálf með þessa ástríðu mína heima á stofugólfinu. Eitt leiddi af öðru og ég slysaðist í íþróttafræðinám og þaðan í fullt starf í þjálfun. Þetta bara gerðist – ég var aldrei með neitt niðurneglt plan,“ bætir hún við.

Ingunn er hugfangin af ketilbjöllum og notar þær mikið í …
Ingunn er hugfangin af ketilbjöllum og notar þær mikið í þjálfun sinni.

Ást Ingunnar á ketilbjöllum blómstrar enn, en hún hefur þó einnig verið dugleg í utanvegahlaupum síðustu ár. „Ketilbjalla verður trúlega mörkuð á legsteininn minn. Mér finnst hún snilld og ég nota hana langmest af öllum æfingabúnaði. Ketilbjöllur skila manni svo ótrúlega árangursríkri æfingu á stuttum tíma þegar maður hefur lært á þær. Það sem ég elska mest er hvað þær taka á fjölþættum eiginleikum eins og þoli, styrk, sprengikrafti og liðleika – allt í einum pakka,“ segir Ingunn.

„Aftur á móti datt ég aðeins inn í utanvegahlaup fyrir fjórum árum og stunda þau, sérstaklega á sumrin, samhliða bjöllunum. Það er heppilegt hvað það virkar vel að blanda saman styrktaræfingum og hlaupum, þess vegna vil ég meina að þau passi vel inn í lífsstílsjöfnuna. Aftur á móti hef ég líka lært að maður þarf að bera virðingu fyrir þessum löngu hlaupum og vega og meta hvenær maður er að gera sér gott og hvenær maður er einfaldlega að ofgera líkamanum. Hlaup eru fremur einhliða hreyfing sem setur mikið álag á liði og þar af leiðandi skiptir miklu máli að líkaminn ráði við höggið,“ bætir hún við.

Ingunn stundar þol- og styrktaræfingar fimm sinnum í viku en á sumrin bætir hún þó oft í hlaupin og minnkar styrkinn á móti. „Ef ég ætti þó að velja á milli myndi ég velja ketilbjöllurnar, þær hafa allt til alls, nema útivist. En vissulega er útivist ómissandi,“ segir hún.

Á sumrin nýtur Ingunn þess að hlaupa og hefur tekið …
Á sumrin nýtur Ingunn þess að hlaupa og hefur tekið þátt í hinum ýmsu skemmtilegu hlaupum.

Mikilvægt að fólk upplifi öryggi og ánægju á æfingum

Í þjálfun sinni leggur Ingunn mikla áherslu á að fólk upplifi öryggi og ánægju.

„Margir sem koma til mín í þjálfun eru stressaðir fyrst um sinn að byrja að hreyfa sig, mögulega vegna þess að það er langt síðan síðast eða þeir upplifa sig í lélegu standi. Mér finnst mikilvægt að fólk fái góða kennslu á æfingarnar og ég legg langmest upp úr gæðum umfram hraða. Aftur á móti skal það ekki gleymast að það að einblína of mikið á „rétta“ beitingu getur í raun haft þveröfug áhrif á fólk – þ.e. fengið það til að upplifa sig aldrei geta gert neitt „rétt“,“ útskýrir hún.

„Fólk ætti ekki að upplifa hreyfingu sem hættulega og við erum í grunninn ekki brothætt. Miklu frekar legg ég upp með að það finni fyrir gleði og ánægju af æfingunum. Þannig er það líklegra til að halda áfram að æfa sig og ná betri árangri með tíð og tíma. Þér bara einfaldlega verður að finnast hreyfingin sem þú stundar ánægjuleg svo að þú nennir að stunda hana til frambúðar. Ánægjan er mikilvægasti þátturinn, en oft tekur það tíma og þolinmæði að upplifa hana,“ bætir Ingunn við.

Ingunn segir hvata skipta öllu máli þegar kemur að hreyfingu og segir það algengan misskilning að sjálfsagi ráði þar förinni. „Við erum bara þannig í eðli okkar að við gerum ekki hluti án hvata (e. motivation). Þeir sem segjast vakna á æfingu vegna sjálfsaga en ekki hvata eru samt með hvata. Við erum öll einhvern veginn af ástæðu, þess vegna finnst mér mikilvægt að sýna öllum mildi. Manneskja sem hefur aldrei hreyft sig markvisst þarf ekki að vera bara einhver aumingi – manneskjan kann að hafa mikinn drifkraft á öðrum sviðum. Þeir hvatar sem eiga sér sterkustu tenginguna við hreyfingu eru ánægja og hæfni (e. mastery). Hæfni þýðir að við upplifum okkar hæf eða „nógu góð“ til að stunda hreyfinguna. Þarna kemur sjálfstraustið sterkt inn. Hreyfing hefur góð áhrif á sjálfstraust og gott sjálfstraust hefur jákvæð áhrif á það hvernig við hreyfum okkur,“ útskýrir hún.

Ingunn segir hvata skipta miklu máli þegar kemur að hreyfingu.
Ingunn segir hvata skipta miklu máli þegar kemur að hreyfingu.

Hvernig nær fólk raunverulegum árangri?

„Við erum svo ofboðslega ólík og drifkraftur okkar liggur á svo ótrúlega mismunandi stöðum. Þess vegna er engin ein uppskrift að árangri. Árangur fæst samt ekki nema þú vinnir vinnuna óháð drifkrafti. Hjá mér náðist hann í raun „óvart“ í fyrstu, þ.e. ef ég ætti að skilgreina árangurinn sem aukinn vöðvamassa. En í mínu tilfelli var það bara hliðarafurð. Hreyfing var bara eitthvað sem ég gerði því mér fannst ég vera dugleg ef ég stundaði hana. Hún gerði eitthvað fyrir sjálfsmyndina mína og skilaði mér aukalegum ávinningi fyrir vikið. Mín kenning er að fólk verði að finna eitthvað fyrir sig í hreyfingunni, hvort sem það er sálrænt eða líkamlegt.“

Hvernig getur hreyfing haft áhrif á daglegt líf og lífsgæði okkar?

„Hreyfing er geðlyf sem þú færð ekki uppáskrifað í apóteki. Mikið hefur verið sýnt fram á gagnsemi hreyfingar til að sporna gegn og meðhöndla lífsstílstengda sjúkdóma og geðsjúkdóma ásamt almennum jákvæðum áhrifum á andlega og líkamlega líðan. Öll aukning frá lítilli hreyfingu er gagnleg og oft þarf minna til en fólk heldur. Göngutúr tvisvar í viku getur gert gæfumuninn.“

Ing­unn seg­ir hreyf­ingu vera allra meina bót, en fjöldi rann­sókna …
Ing­unn seg­ir hreyf­ingu vera allra meina bót, en fjöldi rann­sókna hef­ur sýnt fram á já­kvæð áhrif hreyf­ing­ar á ýmsa kvilla.

Hvað leggur þú sjálf áherslu á í þinni hreyfingu?

„Ég legg mesta áherslu á að líða vel í eigin skinni. Ég vil geta gert hvað sem mér dettur í hug þá stundina þangað til ég verð hundgömul. Ef mig langar að ganga Laugaveginn þegar ég verð sextug ætla ég að hafa gert allt sem ég get til að geta það.“

Hvað leggur þú áherslu á þegar kemur að mataræði?

„Ég elska mat! Og ég borða allan mat. Auðvitað finnst mér hann misgóður en ég veit fátt skemmtilegra en að prófa eitthvað nýtt. Ég get því miður ekki sagt að ég sé dugleg í eldhúsinu, en ef þér finnst gaman að elda fyrir aðra skal ég glöð koma í mat. Ég passa mig að borða nóg af grænmeti, próteini og hollum kolvetnum. Ég er ekki með neina bannlista. Viðmiðið mitt er samt oftast að borða þannig að mér líði vel í maganum og upplifi seddu svona þrisvar sinnum yfir daginn. Svo verður maður auðvitað stundum að fá að borða yfir sig.“

Hvaða aðrar venjur leggur þú áherslu á þegar kemur að heilsunni?

„Ég legg mikla áherslu á svefn, vil helst ná átta klukkustundum og oftast tekst það. Einnig er ég mikil félagsvera og nærist af félagsskap. Sem betur fer á ég góða og „aktíva“ vini sem ég er dugleg að bralla alls konar með.“

Ing­unn nær­ist mikið af fé­lags­skap og er því dug­leg að …
Ing­unn nær­ist mikið af fé­lags­skap og er því dug­leg að blanda sam­an hreyf­ingu og fé­lags­lífi.

Eru einhverjar mýtur í kringum heilsu og hreyfingu sem þér finnst þurfa að fjarlægja?

„Það er til rosalega mikið af matarmýtum sem mætti helst jarða við fæðingu. Líkaminn okkar er miklu seigari að vinna úr öllu en við höldum oft. Jafnframt finnst mér óþarflega mikil áhersla á öll þessi mælanlegu markmið í ræktinni, þ.e. að bæta þyngdir og fjölga endurtekningum, fremur en hvernig hreyfingin lætur okkur líða.

Ég vil einnig ítreka að öll hreyfing er holl. Sumir líkamsræktarþjálfarar vilja selja þér einhverjar útreiknaðar lausnir á öllum þínum vandamálum, þegar lausnin felst kannski bara í litlum venjunum þínum. Sjaldnast virka svona söluvörur til frambúðar, en þær selja vel í „janúarátakshópinn“.“

Ing­unn vill ít­reka að öll hreyf­ing sé holl og seg­ir …
Ing­unn vill ít­reka að öll hreyf­ing sé holl og seg­ir litlu venj­urn­ar geta skipt sköp­um.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda