Guðmundur Emil Jóhannsson, Gummi Emil eins og hann er kallaður, komst í kast við laganna verði í vikunni þegar hann var færður af lögreglu á spítala þar sem hann gekk nakinn eftir Suðurlandsvegi. Nú hefur Gummi Emil snúið vörn í sókn og auglýsir nú nýtt lífsstílsprógramm.
Gummi Emil hefur verið einkaþjálfari í fimm ár og segist brenna fyrir því að þjálfa fólk og því kynni hann til leiks nýja þjálfun, eða Alvöru Víkingaþjálfun eins og hann kallar æfingarnar.
„Það er ekkert betra en að upplifa kraft náttúrunnar á eigin skinni. Með sjósundi, útiæfingum og gufu nærðu að tengjast náttúrunni á nýjan hátt, styrkja bæði líkama og sál, og finna ljósið kvikna innra með þér. Við bjóðum upp á fjölbreyttar æfingar þar sem þú ræður sjálf/ur hvenær þú mætir – þú getur tekið til dæmis tvær æfingar í viku eða allar,“ segir Gummi Emil á Instagram-síðu sinni.
Hann ætlar að vera með útiæfingar í Öskjuhlíð alla virka daga frá 6.30-7.30 og á þriðjudögum og fimmtudögum frá 17.00-18.00 og á miðvikudögum í hádeginu.
Í víkingaprógrammi Gumma Emils verður hann líka með sjósund í Nauthólsvík og með göngur á Esjuna.
„Af hverju er þetta mikilvægt? Sjósund eykur blóðflæði, styrkir ónæmiskerfið og stuðlar að aukinni endorfínframleiðslu – þetta lækkar streitu, bætir skap og gefur þér meiri orku.
Útiæfingar í köldu lofti auka fitubrennslu, bæta þol. Þegar við stígum út í náttúruna, sérstaklega í köldu veðri, kviknar sérstakt ljós innra með okkur. Kuldi örvar blóðflæði, bætir andlega heilsu og gefur þér orku og skýrleika sem er erfitt að fá annars staðar,“ segir hann.
Í prógramminu eru líka gufu- og kuldaæfingar.
„Gufa og kuldaæfingar hjálpa líkamanum að jafna sig hraðar, bæta svefn og hafa jákvæð áhrif á geðheilsu. Þetta er lykillinn að betri líðan, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Að vera úti í náttúrunni er ómetanlegt fyrir þol og andlega vellíðan. Að taka æfingar í fersku lofti hefur öflug áhrif á líkamann, bætir svefn, minnkar streitu og gefur þér tækifæri til að endurheimta orku.“
Gummi Emil rukkar 19.990 kr. fyrir námskeiðið.