Var orðin lífssödd og sátt við dauðann 39 ára

Erna Hrönn Ólafsdóttir hefur fest sig í sessi sem ein vinsælasta söngkona landsins. Rödd Ernu Hrannar þykir einstök, ljúf en kraftmikil í senn enda starfar hún sem útvarpskona á milli þess sem hún syngur. 

Erna Hrönn er gestur Kristínar Sifjar Björgvinsdóttur í Dagmálum. Í þættinum fara þær stöllur á vel á dýptina og deilir Erna Hrönn meðal annars þeirri lífsreynslu sem hún varð fyrir þegar hún fór í kulnun. Á þeim tímapunkti fannst henni lífið hafa hrunið og upplifði hún sig fullsadda af lífinu.

Brosti framan í sálfræðinginn og sagðist vera komin með nóg af lífinu

„Ég segi bara sjáðu mig. Ég er 39 ára en sjáðu allt sem ég hef afrekað og sjáðu hvað ég hef lifað frábæru lífi. Mér finnst bara og stundum hugsa ég bara að ef ég myndi deyja núna þá er það allt í lagi,“ lýsir Erna Hrönn og rifjar upp augnablikið þar sem hún sat með sálfræðingnum sínum og sagði að hún væri bara sátt við að deyja og væri orðin lífssödd, líkt og hún orðar það sjálf.

Erna Hrönn hefur verið ötul við að vinna í sjálfri sér og vinna úr þeim áföllum sem hún hefur orðið fyrir og hafa litað líf hennar. Í dag hittir hún sálfræðinginn sinn reglulega til að hlúa að sál og líkama.

„Þegar við ræddum þetta fyrir ári síðan þá spurði hún mig hvort ég myndi eftir þessu augnabliki og hvort mér liði eins í dag,“ minnist Erna og segist hafa svaraði þessu neitandi, enda viti hún það í dag hversu mikið hún á inni og margt enn eftir ógert í lífinu. 

Fannst hún vera viðbjóður

Á þessum tíma segist Erna Hrönn hafa fundið sinn botn. Það hafi hún notað sem eins konar varnarviðbrögð við að sætta sig við dauðann og vera sátt við það sem hún hafði áorkað og skapað í lífinu. 

„Ég var komin á hræðilegan stað þar sem mér leið alveg viðbjóðslega illa og ég held ég hefði ekki getað komist mikið neðar í holuna,“ segir Erna Hrönn. 

„Mér fannst ég vera viðbjóður. Mér fannst ég ekki eiga skilið að vera til og ég veit ekki einu sinni af hverju. Ég var bara komin á þann stað að ég var búin að fá nóg, fannst ég vera ofboðslega ljót og hafði ekkert að gefa. Mig langaði ekki að vera í kringum fólk, langaði ekki að syngja. Mig bara langaði ekki að vera til,“ lýsir hún og segist ekki hafa séð tilgang lífsins á þessum tímapunkti.

Jafnframt segir hún þessa hugsun vera fjarri því sem hún er og þeim gildum sem hún hefur einsett sér í gegnum tíðina enda þekkt fyrir að gefa mikið af sér og hlúa að sér og sínum. Skyndilega fannst henni hún ekkert hafa að gefa.

Náði að krafsa sig upp úr holunni og vinna sig út úr erfiðleikunum

Erna lítur svo á að það hafi verið lán að þurfa að fást við þetta erfiða verkefni þegar heimsfaraldur Covid stóð sem hæst. Á þeim tíma hafi fengið rými til þess að takast á við erfiðleikana án þess að vera undir stöðugu álagi og þjökuð af samviskubiti yfir því að hafna verkefnum sem henni buðust.

Erna Hrönn leitaði til Virk og náði bata í samvinnu við ráðgjafa þar. Það fyrsta sem ráðgjafinn ráðlagði henni var að hvíla sig, sofa og gera ekki neitt. Það ráð þótti Ernu Hrönn ferlega skrítið í fyrstu því hún hreinlega kunni ekki að slaka á.

„Ég gerði það þannig að ég vildi aldrei að börnin fyndu eitthvað sérstaklega fyrir því að mamma væri veik. Það var aldrei þannig að mamma væri eitthvað veik. Ég vaknaði alla morgna, smurði nesti, kvaddi þau inn í daginn og svo hvíldi ég mig,“ segir Erna og reyndi allt sem hún gat að láta eigin veikindi ekki hafa áhrif á börnin.

Kafaði djúpt eftir styrknum

Erna Hrönn segist hafa unnið sig í gegnum veikindin með því að kafa djúpt. Hún segist hafa viljað moka allri drullunni sem hafði búið innra með henni upp á yfirborðið til að vinna úr áföllunum og erfiðleikunum. Hún þráði að losna við eins mikið og hún gat úr líkamanum til að ná heilsunni aftur.

„Þetta sest á taugakerfið og sest á liðina og allt,“ segir Erna en á þessum tíma var hún komin á sterk verkjalyf ásamt því að vera á kvíða- og þunglyndislyfjum og þá líka búin að þróa með sér vefjagigt í ofanálaf. 

„Þegar ég fer svo að rísa upp og næ að krafsa með frábæran sálfræðing og teymi á bak við mig þá fer ég að finna styrk. Þegar ég horfi tilbaka er galið hvað ég var allt í einu komin með mikinn styrk.“

Í dag lítur Erna Hrönn lífið allt öðrum augum og telur hún það vera ávöxt erfiðisins. Hún segir lífið leika við sig og á nýju ári mun hún til að mynda taka við nýju hlutverki þegar lítið ömmu kraftaverk lítur dagsins ljós. Það hefði hún til dæmis ekki fengið að upplifa hefði lífsseddan ráðið för á þeim afdrifaríkri stundu. Erna Hrönn er í meira lagi þakklát lífinu í dag og stolt af sjálfri sér fyrir að hafa tekið á honum stóra sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda