„Ég var mjög týnd á þessum tíma og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að hreyfa mig“

Ragnhildur Þórðardóttir er kölluð Ragga nagli.
Ragnhildur Þórðardóttir er kölluð Ragga nagli.

Vin­kon­urn­ar Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarnadóttir eru um­sjón­ar­menn hlaðvarps­ins Í al­vöru talað! Ragnhildur Þórðardóttir, sem er oftast kölluð Ragga nagli er gestur í þættinum en hún býr og starfar í Kaupmannahöfn. Hún hefur lengi skrifað beinskeytta pistla, haldið fyrirlestra og frætt fólk um heilsu, líkamsrækt, mataræði og streitu sem byrjaði allt með bloggi árið 2005.

Hún bjó og lærði sálfræði á Englandi en ákvað árið 2008 í hruninu að flytja til Kaupmannahafnar. Hún hefur ekki séð eftir því síðan og ekki haft neinn áhuga á að flytja aftur til Íslands. Hún kann vel við mjög margt í danskri menningu og segir að mikill munur sé á hraða og lífsstíl í þessum tveimur löndum. Að streitan sé mikið minni í danskri menningu.

„Það er bara eitthvað í dönskum kultúr sem náði mér strax. Þar eru ennin þrjú, nýtni, nægjusemi og núvitund. Þeir leggja miklu meiri áherslu á að njóta og vera frekar en að eiga mikið af dóti. Eyða peningunum frekar í ferðalög og veitingastaði. Hjólalífsstíllin heillaði mig líka mikið. Að nota eigin fótafl til þess að komast í vinnuna og vera úti í náttúrunni og súrefninu. En svo finnst mér þeir líka oft drulluleiðinlegir. Þeir eru til dæmis mikið að skamma mann fyrir að brjóta reglur en fara svo ekki endilega eftir öllum reglum sjálfir,“ segir Ragga. 

Ísland hækkar streituna

Hún segir frá því að púlsinn hækki alltaf hjá henni og streitan aukist þegar hún komi til Íslands. 

„Í Danmörku eru minni kröfur um að eiga og gera og svo finnst mér samanburðurinn út frá samfélagsmiðlunum minni þar. Það er miklu meiri metingur og samanburður á Íslandi. Í Kaupmannahöfn eru líka allir farnir heim úr vinnunni klukkan fjögur, við vinnum miklu lengur á Íslandi,“ segir Ragga. 

Ragga segist oft nota myndlíkingu þegar hún ræðir við skjólstæðinga sína um streitu.

„Ef við erum búin að vera í of mikilli streitu og erum búin á því þá væri hægt að segja að það væri að sjóða upp úr pottinum þínum. Það þarf þá að taka pottinn af hellunni, við þurfum að hvíla okkur og ná okkur. Þá er ekki hægt að setja pottinn strax aftur á helluna því þá síður bara strax aftur uppúr. En það þarf líka að slökkva á hellunni sem er umhverfið þitt. Það þarf að breyta menningunni í kringum þig, í samfélaginu og á vinnustaðnum, og minnka streituna í lífinu. Þess vegna eru svona margir á Íslandi að upplifa streitu, það er svo erfitt að slökkva á hellunni með því að breyta menningunni í heilu samfélagi. Við þurfum að breyta því hversu mikil áhersla er lögð á að vera dugleg á Íslandi.“ 

Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarnadóttir stýra hlaðvarpinu Í alvöru …
Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarnadóttir stýra hlaðvarpinu Í alvöru talað!

Byrjaði snemma á breytingaskeiði

Ragga er farin að finna fyrir áhrifum breytingaskeiðs. Það gerðist eftir að hún fékk kórónuveiruna árið 2021 og var þá 42 ára.

„Ég fann að líkaminn var eitthvað off. Ónæmiskerfið mitt er venjulega rosalega sterkt en þarna fór ég að vera oftar veik og fékk útbrot á húðina sem reyndist vera ritstíl. Svo fór ég að sofa illa, fékk hárlos, vöðvamassann minnkaði og ég var mikið þreytt og æfingar urðu erfiðar. Svo hækkaði blóðþrýstingurinn minn mikið sem er venjulega mig lár,“ segir Ragga sem byrjaði í hormónauppbótameðferð í kjölfarið. Hún breytti líka lífsstíl sínum og fór að æfa öðruvísi. Notaði þyngri lóð og gerði æfingarnar rólegar. 

„Ég var mjög týnd á þessum tíma og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að hreyfa mig. Líkaminn hafði breyst og ég þurfti að kynnast í raun nýjum líkama. Grunnbrennslan hafði breyst og þér þyngdist. Það tók nokkra mánuði að finna út úr þessu,“ segir hún.

Hún bendir konum á breytingaskeiði að passa að borða nægt prótein yfir daginn og að fasta henti konum á þessum aldri ekki vel því hún er streituvaldandi fyrir líkamann. Við þurfum einmitt að minnka streitu á þessum aldri. Einnig er gríðarlega mikilvægt að passa upp á svefninn.

„Á breytingaskeiðinu virkar líkaminn okkar öðruvísi en hann hefur gert áður, við þurfum að læra á nýjan líkama,“ segir Ragga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda