Kvíðavaldandi að vakna á morgnana og fara í vinnu

Guðný Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Bataskólanum og stafrænna miðla hjá Geðhjálp, segir óhjákvæmilegt að komast í gegnum lífið án þess að finna einhvern tímann fyrir kvíða á lífsleiðinni.

Hún segir oft geta reynst einstaklingum erfitt að meta hvort um eðlilegan eða óhóflegan kvíða sé að ræða en þegar kvíðinn fer að hafa hamlandi áhrif á hversdagsleika hvers og eins segir hún ástæðu til að leita aðstoðar. Ekki sé þó um algildan mælikvarða að ræða en hann geti þó verið hjálplegur við mat á alvarleika málsins. 

Kvíðahnútur í magann við að fara í vinnu

Í Dagmálum talar Guðný um sína eigin reynslu af því að glíma við þunglyndi og kvíða. Hún segist alla tíð hafa leitað eftir svörum við því hvers vegna henni leið alltaf eins og henni leið; kvíðin, stressuð, leið og flöt.

Það var ekki fyrr en hún var orðin 25 ára gömul og búin að sigla á alls kyns mið í leit að auknum skilningi á líðan sinni að á hugljómun kviknaði þegar hún hitti sálmeðferðarfræðing í fyrsta skipti.

„Þarna er ég orðin 25 ára, búin með háskólanám, er í vinnu en ég er samt þannig að ég vakna á morgnana og það er kvíðavaldandi að fara út í daginn. Þegar ég er að nálgast vinnustaðinn minn þá er ég bara komin með kvíðahnút í magann,“ lýsir Guðný.

Sálmeðferðarfræðingurinn reyndi að komast til botns í sálarlífi Guðnýjar og spurði hana alls kyns spurningar í tengslum við líðan hennar.

„Hann spyr mig hvað ég sé að hugsa þegar mér líður ekki vel, eins og til dæmis þegar ég er í vinnunni og ég veit ekki til þess að ég sé að hugsa einhvern skapaðan hlut,“ segir hún og minnist samtalsins við sálmeðferðarfræðinginn.

„En ég fór svo að veita því meiri athygli og þá kom í ljós að ég var að hugsa svo miklar niðurrifs hugsanir - allt neikvætt.“

Eilíft niðurrif

Hún segir hugsanirnar aðallega hafa beinst að eigin sjálfsmati með tilheyrandi niðurbroti.

„Ég er nú ekki nógu góð í þessu, einhver gæti nú gert þetta betur en ég, ég er ekki nógu klár eða nógu skapandi eða hugmyndarík, og þetta var bara alveg statt og stöðugt í gangi í hausnum á mér,“ útskýrir hún.

„Það er ekki skrýtið að ef ég er að hugsa svona allan liðlangan daginn að mér líði ekki vel.“

Guðný ákvað að leggja upp í andlega vegferð á þessum tímapunkti þar sem hún fór markvisst að vinna í því að hlúa að sér, efla geðrækt, auka sjálfsmatið og rækta vellíðan. Í dag er hún enn í þeirri vinnu þar sem hún hefur áunnið fjölmörg verkfæri og bjargráð sem hún getur gripið í þegar lífið reynir á.

„Þetta tók tíma. Ég er búin að vera í þessari vinnu síðan þá en ég hef áttað mig á því að ég var raunverulega bara með mjög brotna sjálfsmynd. Ég sá sjálfa mig í svo neikvæðu ljósi og ég þurfti að gera eitthvað í því. Það var ekkert að fara lagast af sjálfu sér.“

Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að nálgast viðtalið við Guðnýju í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda