Theodor Francis Birgisson, klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, skrifar um streitu í nýjum pistli á Smartlandi.
Streita, sem er óhjákvæmilegur hluti af mannlífinu, kemur úr ótal áttum og birtist á mismunandi hátt – bæði líkamlega og andlega. Hún getur verið hávær eða hljóðlát, uppsöfnuð eða snögg, en hún lætur alltaf á sér kræla. Oft er litið á streitu sem einstaklingsupplifun, en í raun teygir hún sig langt út fyrir persónuleg mörk, inn í okkar nánustu tengsl og samskipti. Streita hefur sérstaklega mikil og viðtæk áhrif í parsamböndum. Í þessari grein fjalla ég um eðli streitu, hvernig hún getur leynst eða blossað upp í samskiptum, og leiðir til að milda áhrif hennar og efla samkennd og nánd.
Ég get varla ímyndað mér að nokkur fræðimaður mótmæli þeirri staðreynd að við búum í samfélagi þar sem streita hefur orðið eins konar ósýnilegur þjóðfélagsþegn – nær stöðugt viðstaddur í daglegu lífi fólks. Einföld staðreynd eins og þróun öndunartíðni síðustu aldir segir sína sögu: Í upphafi iðnbyltingarinnar þótti eðlilegt að einstaklingur andaði sex sinnum á mínútu. Í dag er „eðlileg“ öndunartíðni talin vera á bilinu 12–20 andardrættir á mínútu – tvö- til þrefalt hraðari en áður. Þetta sýnir svart á hvítu hvernig hraðinn í samfélaginu hefur fest sig í líkamanum okkar.
Fagfólk í heilbrigðisgeiranum veit að hröð öndun er bein afleiðing streitu. Líkaminn er í viðbragðsstöðu – jafnvel þótt engin raunveruleg hætta sé til staðar. Streita virðist í dag vera sjálfgefin stilling í taugakerfi líkamans. Rannsóknir benda til þess að allt að 80% ótímabærra dauðsfalla í vestrænu samfélagi megi rekja til langvinnrar streitu og tengdra heilsuvandamála. Þegar við horfum á þetta í samhengi við parsambönd má sjá hve áhrifin eru djúp, vegna þess að þegar einstaklingnum líður illa, líður sambandinu líka illa. Streita er ekki einangruð upplifun – hún er hluta af miklu stærra mengi og er bráð smitandi. Í rómantískum samböndum getur streita smám saman étið upp það sem eitt sinn var líflegt samband, fyllt af hlátri og náinni tengingu. Hún hefur áhrif á allt gangverkið, samskiptin og ánægju fólks í sambandinu – jafnvel þótt báðir aðilar elski hvort annað djúpt. Það er því grundvallaratriði að skilja hvað streita er, hvernig hún birtist, og hvernig hægt er að bregðast við henni með næmni og meðvitund.
Streita er ekki bara eitthvað sem gerist í huganum – hún er lífeðlisfræðileg og sálræn viðbrögð við því sem við upplifum sem ógn í daglegu lífi. Viðbrögð líkamans eru frumstæð og forrituð – við "berjumst, flýjum eða frjósum". Í þeim aðstæðum fer líkaminn að dæla út streituhormónum á borð við adrenalín og kortisól, sem getur verið gagnlegt í bráðatilvikum. En þegar streita er krónísk – þegar hún verður að takti okkar í daglegu lífi – fer hún að tæra líkama, sál og tengsl okkar við hvert annað.
Streituvaldar eru margskonar: vinnuálag, fjárhagserfiðleikar, veikindi, áföll, óöryggi, eða jafnvel langvarandi sjálfsgagnrýni og óuppfylltar væntingar. Það sem eitt par upplifir sem smávægilegan pirring, getur annað par upplifað sem mjög mikinn streituvald. Þess vegna eru áhrif streitu svo einstaklingsbundin – en sameiginlegt er að hún skekkir jafnvægið í samböndum. Í því ójafnvægi birtast oft þau mynstur sem grafa undan trausti, hlýju og tengingu.
Streita hefur bein áhrif á samskiptin – sérstaklega langvarandi streita. Stressaðir einstaklingar verða oft pirraðir, draga sig til baka eða verða minna næmir fyrir þörfum maka síns. Það sem áður var auðvelt samtal verður allt í einu orðið að mjög erfiðu samtali sem getur endað með algerri aftengingu parsins. Misskilningur og gremja fær að blómstra, og fólk byrjar að bregðast við hvort öðru af vörn í stað nærveru. Með tímanum getur þetta skapað tilfinningalega fjarlægð og dregið úr nánd – bæði tilfinningalegri og líkamlegri.
Ástand þar sem hvorugur aðilinn nær að stilla sig af eða endurhlaða orkuna sína getur valdið því að par upplifir sig meira sem herbergisfélaga en ástvini. Skortur á svefni, aukin líkamleg örmögnun, daufara tilfinningalíf – allt þetta getur dregið úr kynhvöt og viljanum til að vera náin. Streitan fer að lita samskipti, og smá ágreiningur getur snögglega orðið að stóru máli. Ef ekki er gripið inn í, getur þessi hringrás leitt til djúpstæðrar fjarlægðar og jafnvel sambandsslita.
Það sem gerir streitu í samböndum svo krefjandi er að hún hefur bæði sýnileg og ósýnileg áhrif. Makar geta orðið minna tengdir hvort öðru, vanrækt þarfir hvors annars – ekki af illvilja heldur einfaldlega af því að álagið í daglegu lífi er orðið mun meira en þeir ráða við. Það leiðir af sér tilfinningu um að vera ekki metinn, ekki séður, ekki elskaður. Slíkar tilfinningar sem fylgifiskur daglegs álags eru eins og ósýnilegar sprungur í undirstöðum sambandsins.
Hvað getum við gert í slíku ástandi? Fyrsta skrefið er að rjúfa þögnina – að tala saman af einlægni um hvernig okkur líður og hvað við erum að upplifa. Opin og örugg samskipti eru ekki munaður, þau eru nauðsyn. Tjáðu tilfinningar þínar og áhyggjur – ekki með ásökunum, heldur með forvitni, virðingu og sjálfsþekkingu. Hlustaðu á maka þinn með samkennd, ekki hlusta til að geta svarað, hlustaðu til að skilja. Reyndu að heyra það sem sagt er og líka það sem ekki er sagt.
Síðan má vinna með streituna beint. Hreyfing, núvitund, öndunaræfingar og slökun eru ekki bara leiðir til að „laga sig“ – þær eru lyklar að tengingu við sjálfan sig og í kjölfarið við maka. Að búa til stundir saman þar sem ekkert þarf að laga – bara vera – getur opnað nýja vídd í samskiptum. Hvort sem það eru göngutúrar, stefnumótakvöld, sameiginlegt áhugamál eða einfaldlega að hlæja saman.
Þegar álagið verður of mikið og okkar einlæga viðleitni nægir ekki og spennan heldur áfram að vaxa þá er mikilvægt að fá utanaðkomandi aðstoð. Ráðgjöf, parameðferð eða einstaklingsmeðferð getur skipt sköpum. Fagmaður getur hjálpað til við að spegla, leiðbeina og opna fyrir nýjar leiðir að nánd og betri samskiptum.
Við þurfum líka að muna að sjálfsumönnun er ekki sjálfselska, hún er gjöf til sambandsins. Þegar við hugsum vel um okkur, sofum nægilega, borðum rétt og fáum viðunandi næringu, hreyfum okkur og hlúum að eigin vellíðan getum við mætt maka okkar með meiri nærveru, hlýju og tengingu.
Streita er óumflýjanleg. En hvernig við mætum henni, í sameiningu, getur orðið til þess að sambandið styrkist, dýpkar og verður að því sem við þráum: öruggur staður þar sem við megum vera við sjálf, í nánum tengslum við maka okkar.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodori spurningu HÉR