„Ég myndi vilja sjá meiri meðferð við spilafíkn því þetta er raunverulegt vandamál. Það eru margir sem eru að spila á netinu, á erlendum spilasíðum og í kössunum. Menn fela þetta, en þegar spilamennskan er orðin mikið vandamál þá er þetta raunverulegt vandamál. Það fer i þetta mikill peningur, mikill tími og mikil hugsun,“ segir Óttar Guðmundsson geðlæknir í hlaðvarpinu Spilavandi sem Alma Hafsteinsdóttir stýrir.
Í viðtalinu rifjar Óttar upp sína reynslu af því að meðhöndla spilafíkn, en hann starfaði lengi í ávana- og fíkniefnameðferðarbransanum. Hann byrjaði að vinna hjá SÁÁ árið 1985, var læknir á Vogi og á eftirmeðferðarstöðum SÁÁ í mörg ár. Upp úr árinu 1990 fór Óttar að vinna á Vífilsstöðum, sem þá var meðferðarheimili fyrir alkóhólista og fíkla. Þegar Vífilsstaðir voru lagðir niður hóf Óttar störf á Teigi, þar sem hann tók þátt í að þróa meðferð við spilafíkn.
„Þegar ég var að vinna hjá SÁÁ komu öðru hvoru menn sem sögðust vera með spilafíkn líka, sem var þá hliðarfíkn við aðra fíkn. Þá var landslagið þannig að þá voru ekki þessir alvöru spilakassar til. Þá voru þessir tíkallakassar, Rauða Kross kassar eins og þeir voru kallaðir,“ segir Óttar og bætir við að á Vífilsstöðum og Teigi hafi hann fljótt áttað sig á að spilafíkn væri vaxandi vandi. „Þá fór ég að átta mig á því að þarna var búið að búa til vandamál sem ekki var til áður. Auðvitað voru til einstaklingar sem voru ánetjaðir pókerspili eða fjárhættuspili eða þvíumlíkt. En þessi kassaspil voru ný. Við fáum þarna nýjan hóp af sjúklingum.“
Óttar hafði samband við Íslandsspil, rekstraraðila spilakassana, og fékk styrk til að senda Helgu Ásgeirsdóttur, sem þá starfaði á Vífilsstöðum, í nám til Bandaríkjanna um hvernig ætti að meðhöndla spilafíkn.
„Það með vorum við komin á kortið sem þá aðili sem meðhöndlaði þessa einstaklinga,“ segir Óttar, en á þessum tíma nutu SÁÁ góðs af hagnaði spilakassa. „Það var margir reiðir út í SÁÁ og vildu ekki leita til SÁÁ út af tengslum SÁÁ við spilakassana. Fannst SÁÁ meðhöndla fólk með vinstri hendinni og hafa af því fé með hægri hendinni.“
Á Teigi var göngudeildarmeðferð en einnig pláss fyrir innlagnir, þó ekki væri um stífa inniliggjandi meðferð að ræða. Óttar hætti síðan í þessum geira árið 1997 og kom ekki nálægt honum aftur fyrr en fyrir nokkrum árum þegar hann varð læknir á meðferðarheimilinu í Krýsuvík.
„Í starfi mínu í Krýsuvík er ég alltaf að rekast á spilafíkla þar sem spilafíknin er hliðarfíkn, þeir eru bæði með alvarlegan fíkniefnavanda og spilafíknina. Það er mjög algengt, að fólk sé með margar fíknir,“ segir Óttar sem lýsir spilafíkn sem „erfiðri“ fíkn. „Spilafíklarnir eru með svo miklar ranghugmyndir um sjálfan sig, um vinningslíkurnar og því um líkt. Þeir lifa oft í óraunverulegum heimi. Alveg sama hvað þeir tapa miklu og hve stór áföllin eru í spilamennskunni þá trúa þeir á að þeir muni vinna,“ segir hann og bætir við að mjög erfitt sé að meðhöndla einstaklinga sem hafi unnið stóra vinninga. „Það er mjög erfitt að meðhöndla þá því þeir vita í hjarta sínu að þeir vinna þennan gullpott aftur. Spilafíklarnir eru sérstaklega slæmir hvað þetta varðar, þeir fara inn í ákveðinn heim og verða sannfærðir um að þeir muni vinna.“
Óttar segir meðferð spilafíkla sé í sjálfu sér eins og meðferð annarra fíkla.
„Það fyrsta sem fíkillinn þarf að gera er að taka ákvörðun um að hann ætli að hætta. Hann þarf að taka þá ákvörðun í alvöru. Hann þarf að fara í gegnum sitt líf og umhverfi og endurskipuleggja,“ segir Óttar. Hann aðhyllist 12 spora kerfinu og það sú meðferðarstefna sem notuð er í Krýsuvík. Það sem hefur bæst við meðferð fíkla í dag síðan hann var á Teig er áhersla á áföll í meðferðum. „Nú er mikið meira verið að reyna að velta fyrir sér hvort einhver grunnur eða ástæða sé fyrir þessari hegðun. Það er mjög mikið unnið með áföll í dag. Það sem tíminn á eftir að leiða í ljós er: er þetta betra? Er þetta eitthvað sem mun hjálpa spilafíklum, að fara í gegnum áfallasöguna og vinna með áföll?“
Óttari finnst miður að meðferð við spilafíkn hafi farið aftur á Íslandi síðustu ár og áratugi og finnst eðlilegt ef einhver opinber meðferðarlína eða - stefna hefði verið mörkuð í þessum efnum. En höfum við sofið á verðinum?
„Já, mér finnst það því þetta er sjúkdómur eða ástand sem virkilega eyðileggur fólk. Eyðileggur fjölskyldur og gerir það að verkum að fólk lifir í fátækragildru sem spilafíknin er.“
Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: