„Það er mjög gott ef þú ert í fríi að byrja daginn á æfingu og það er í raun engin afsökun að sleppa því. Í mörgum tilfellum hefur fólk meiri tíma til að æfa í fríinu.“ Þetta segir hlauparinn og einkaþjálfarinn Íris Dóra Snorradóttir um að halda sér í formi í sumarfríinu.
„Á mörgum hótelum erlendis og hérlendis er t.d. líkamsrækt og fyrir hlaupin þarf bara skó. Þegar fólk ferðast með börn þá getur líka verið bara gaman að labba um og skoða umhverfið.“
Íris segir hreyfinguna ekki þurfa að vera mikla eða erfiða og ef hreyfing er ekki inni í myndinni þá er um að gera að passa mataræðið, huga að skammtastærðum og „ekki missa sig“.
„Það er alltaf hægt að gera styrktaræfingar þótt það sé ekki rækt. Hægt er að taka kviðæfingar á gólfinu, armbeygjur, framstig, hnébeygjur og planka. Það eru ýmsar leiðir, það er hægt að gera æfingar hvar sem er og þær þurfa ekki að taka langan tíma.“
Íris leggur áherslu á að klára æfinguna fyrir daginn á morgnana og segir það betra en seinnipart dags, þá verði meiri líkur á að borðaður sé hollari matur yfir daginn.
„Ég er með bakgrunn úr fótbolta og byrjaði þar mjög ung og var „all-in“. Íris spilaði upp yngri flokkana með HK og í meistaraflokki með sameinuðu liði HK og Víkings. Á meðan hún spilaði þar var hún valin knattspyrnukona HK, fékk verðlaun fyrir mestu framfarir og varð markahæst í liðinu. Í úrvalsdeildinni spilaði húm með Fylki úr Árbænum. Hún var valin í úrtakshóp landsliðsins U-19 og endaði ferilinn með Aftureldingu í Mosfellsbæ.
„Ég byrjaði að hlaupa sjálf árið 2012 og fór að gera hlaupin að alvöru í kóvid, árið 2020.“
Í dag æfir Íris hlaup með FH og tekur þátt í öllum þeim mótum sem hún hefur möguleika á, t.a.m Reykjavík Games og Meistaramóti Íslands. Fyrr á árinu varð hún tvöfaldur Íslandsmeistari innanhúss. Hún er einnig iðin við að taka þátt í götuhlaupum á sumrin.
Hvenær og af hverju fórstu að læra einkaþjálfun?
„Mig langaði alltaf að verða einkaþjálfari. Það var alltaf ofarlega í huganum og mér fannst það passa vel við mig. Ég hef alltaf verið dugleg í styrktar- og ræktaræfingum með fótboltanum þegar ég var að æfa og núna með hlaupunum,“ segir Íris sem hefur einnig lokið B.Sc.-gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Þá sótti hún einnig námskeið í einkaþjálfun erlendis og klárarði auk þess meistaragráðu í forystu- og mannauðsstjórnun við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst.
Í dag starfar hún sem einkaþjálfari hjá líkamsræktarstöðinni World Class.
Spurð um hvernig best sé að koma sér í gott form, eða a.m.k byrja að hreyfa sig, segir Íris stöðugleika vera númer eitt, tvö og þrjú.
„Þú verður að finna þér lífsstíl og halda honum, setja þér t.d. markmið um að hreyfa þig tvisvar sinnum í viku, gera það og halda því. Þetta á einnig við um mataræðið.“
Íris nefnir að gott sé að setja sér ný markmið reglulega, sérstaklega þegar sóst er eftir meiri árangri.
„Um leið og þú finnur hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og finnur færni í henni, sem er ótrúlega jákvætt, þá er alveg líklegt að þú viljir meira, sem er hollasta og besta leiðin til að byrja heilbrigðan og góðan lífsstíl. Svo er fólk með mismunandi keppnisskap en ég held að í flestum tilfellum vilji fólk verða ennþá betra.“
Svo koma auðvitað dagar þegar erfiðara er að standa upp úr sófanum og hafa sig á æfingu, hvað gera bændur þá?
„Einhver æfing er betri en engin æfing. Maður má ekki vera of góður við sjálfan sig. Stundum þarf maður að rífa sig upp. Klæddu þig a.m.k í fötin, reimdu á þig skóna og sjáðu hvort þú komist ekki í stuð.“