Það er orðið mun vinsælla á meðal gagnkynhneigðra karlmanna að vilja fá stæltari og stærri rass og eru margir farnir að leggja aukna áherslu á þetta í ræktinni.
Áður var áhersla lögð á stóra handleggi, magavöðva og læri og oft gleymdust rassvöðvarnir. En nú er það að breytast samkvæmt einkaþjálfurum úti í heimi. Karlar sem eru með stæltari rass virðast ánægðari með sjálfan sig í stuttbuxum og lærin verða oft stæltari líka.
Samkvæmt tímaritinu GQ hefur pílates orðið mun vinsælla hjá körlum en áður voru það aðallega konur sem sóttu í slíka tíma.
Annar einkaþjálfari sem vísað er í í greininni segir þetta farið að snúast meira um jafnvægi. Nú sé ekki aðaláherslan lögð á efri líkamann heldur allan líkamann í heild sinni, sem verður að teljast kostur.
Góður rass telst ekki aðeins fallegur í útliti heldur er hann einnig merki um líkamlega færni. Íþróttafólk sem treystir á sprengikraftinn í neðri hluta líkamans, eins og spretthlauparar, knattspyrnu-, körfubolta- og handboltafólk, sleppir ekki rassaæfingunum. Krafturinn, lipurðin og seiglan kemur frá líkamshlutunum fyrir neðan mitti.
Sterkir rassvöðvar hjálpa einnig til við að hreyfa þig betur. Þeir vernda hnén, styðja við mjaðmirnar, draga úr verkjum í neðri hluta baksins og gera það að verkum að daglegar athafnir eins og að lyfta, bera, hlaupa og hoppa verða skilvirkari.
Þetta á við um öll kyn sem vilja styrkja líkamann; byrja á rassvöðvunum.