„Verslið frekar minna en meira og takið eftir því ef þið hendið“

Indíana Nanna Jóhannsdóttir er stofnandi og yfirþjálfari GoMove Iceland.
Indíana Nanna Jóhannsdóttir er stofnandi og yfirþjálfari GoMove Iceland. Skjáskot/Instagram-síða indianajohanns

Segðu okkur aðeins frá nýja námskeiðinu þínu og hvað það felur í sér.

„Um er að ræða 60 daga netnámskeið fyrir heilsumiðaðar nútímakonur sem vilja sækja sér hnitmiðaðan fróðleik, leiðsögn og hvatningu til að bæta mataræðið og auka svefngæði. Námskeiðið inniheldur allar mínar helstu áherslur og þumalputtareglur sem ég hef sjálf að leiðarljósi þegar kemur að mataræði, næringu og svefni. Mig langar að veita konum innblástur og gefa þeim hugmyndir. Ég vil hvetja þær áfram og sýna fram á að hollur, bragðgóður og næringarríkur matur þarf alls ekki að vera leiðinlegur, tímafrekur eða valda hausverk. Matur á að vera gleðiefni og láta okkur líða vel. Betri svefn skilar sér alltaf í betri líðan og er mikilvægasta undirstaðan fyrir allt annað sem við gerum. Við erum ekki að fara að vigta matinn okkar eða telja kaloríur. Við ætlum ekki að gera mataræðið eða svefninn að leiðinlegu heimaverkefni. Við setjum okkur heilbrigð mörk og leggjum áherslu á næringu, vellíðan og skemmtilega fræðslu. Við ætlum að einblína á að vera saddar, sælar, úthvíldar og vel nærðar.“

Hverjar eru aðaláherslurnar á námskeiðinu?

„Höfuðáhersla verður á að elda og útbúa sjálfar næringarríkan og bragðgóðan mat. Í gegnum námskeiðið deili ég uppskriftum, innkaupalista og þeim þumalputtareglum sem ég vil að nýtist heima fyrir hjá þeim sem stunda námskeiðið. Gæðasvefn er mikilvægur fyrir eðlilega líkamsstarfsemi og skýrar hugsanir til að takast á við dagleg verkefni. Við skoðum tengsl mataræðis og svefns: Hvernig hefur svefn áhrif á matarlyst eða langanir? Hvernig hefur mataræðið áhrif á svefn? Við setjum saman svefnrútínu og vinnum að því að auka gæði svefnsins til að gera hvern einasta dag betri. Ef við ætlum að ná árangri á einhverju sviði lífsins er svefninn alltaf undirstaðan. Það er alltaf mikilvægt að vinna í hugarfarinu og vera opin fyrir nýjum hugmyndum. Við setjum okkur einföld og raunhæf markmið og vinnum svo saman að því að ná þeim. Við gefum okkur líka rými fyrir mistök, það er alltaf nauðsynlegt!

Við látum verkin tala og lærum með því að prófa okkur áfram, ekki bara með því að lesa eða hlusta á það sem kemur fram á námskeiðinu. Ég legg fyrir lítil verkefni og litlar áskoranir, fer yfir stutta matardagbók og fleira skemmtilegt.“

Er fólk orðið öruggara með að stunda námskeið á netinu?

„Ég hugsa að margir séu að átta sig betur og betur á því hve þægilegt er að sækja sér fróðleik og hvatningu í gegnum netið. Sjálf gat ég nælt mér í kennararéttindi á síðasta ári í svokölluðu Animal Flow, sem er ákveðið æfingaform, með því að taka námskeið í gegnum Zoom á stofugólfinu heima. Atburðir síðasta árs hafa hvatt marga til nýsköpunar, sem er bara stórkostlegt.“

Hverjar eru þínar áherslur í mataræði?

„Heilnæmt, bragðgott og hversdagslegt mataræði á að næra bæði líkama og sál. Það á ekki að valda okkur hugarangri heldur vera gleðiefni. Við borðum oft á dag og á hverjum degi alla okkar ævi svo það væri synd að njóta þess ekki eins og hægt er.

Matur er mér hjartans mál og hefur lengi verið. Sterkustu minningarnar úr æsku eru flestar ef ekki allar tengdar mat á einhvern hátt. Sjálf hef ég verið grænmetisæta, vegan, kjötæta, mjög óholl, mjög holl, borðað sykur, ekki borðað sykur, talið kaloríur og fleira. Mér finnst gaman að gera tilraunir í mataræði og finna þannig út hvað hentar mér best. Á þessu námskeiði langar mig að aðstoða hverja og eina við að finna út hvað hentar best.

Í dag borða ég í raun allt og reyni að leggja áherslu á næringarþéttni í fæðunni. Hún á að innihalda sem minnst af aukaefnum, gefa mér góða orku og láta mér líða vel.

Hvað viðkemur mataræði og fæðuvali einblíni ég á stóru myndina. Það sem ég geri oft og endurtekið skiptir mestu máli. Í einföldu máli legg ég áherslu á fjögur atriði: Næringu, ánægju, seddu og tilfinningu.“

Hvaða ráð áttu varðandi skipulag og innkaup? Er best að versla einu sinni í viku eða gera lista fyrir hvern dag?

„Mér finnst gott að „gefa tóninn“ með því að fara í búðina og versla sirka inn fyrir vikuna. Ég hugsa að ég fari 2-3 sinnum í viku í búð, en versla auðvitað mismikið í einu. Gott er að stilla upp mjög einföldum vikuseðli og ákveða kvöldmatinn og hafa allt klárt fyrir hvern rétt til að auðvelda sér lífið. Kaupið mest inn af ferskvöru eða vörum sem hafa stuttan líftíma; brauði, mjólkurvörum, ávöxtum, grænmeti, kjöti, fiski og eggjum. Þessar vörur finnur þú oftast í jaðrinum í matvöruverslunum því þar þarf oftast að fylla á.

Verslið frekar minna en meira og takið eftir því ef þið hendið ákveðnum mat ítrekað í ruslið og kaupið minna af honum næst. Ég er líka dugleg að setja matvæli í frysti til að lengja geymslutíma þeirra. Til dæmis set ég brauð yfirleitt beint í frysti og svo rista ég sneið og sneið.

Ég er ein þeirra sem finnst í alvöru skemmtilegt að fara í búðina og dunda mér við að kaupa inn. Það eru ekki allir þannig, en þá er þægilegt að versla á netto.is og fá matinn sendan heim! Ég mun eflaust nýta mér þetta oft í fæðingarorlofinu.

Sjálf notar þú MUNA-vörurnar. Hvernig passa þær inn í lífsstílinn og af hverju notar þú þær? Ég er virkilega hrifin af lífrænni matvöru og það skiptir mig máli að velja annaðhvort íslenskar afurðir eða lífrænar vörur eða hvort tveggja. Vörulínan frá MUNA er svo ótrúlega breið og það eru ýmsar vörur sem ég vil alltaf eiga til heima eins og kókosolía, hafrar, chiafræ, hampfræ og kanill, til dæmis.“

Hvernig lítur klassísk vikukarfa Indíönu út?

„Í henni er lax, nautahakk og gott lambakjöt á beini með fitu. Íslenskt grænmeti, lífrænir ávextir, íslenskt smjör, feitur ostur og lífræn sulta. Hnetur frá MUNA í heimagert granóla og til að setja út í salat með kvöldmatnum eða ofan á laxinn í bland við döðlur og parmesan- eða fetaost. Haframjöl frá MUNA verður alltaf að vera til í bakstur en við fjölskyldan erum mjög hrifin af því að eiga rólega morgna og baka saman bananapönnsur.“

Hvar er best að nálgast frekari upplýsingar um netnámskeiðið?

„Á heimasíðu GoMove Iceland finnurðu allar upplýsingar um bæði þjálfun og netnámskeiðið.“

mbl.is