Þetta gerir Ragga nagli til að hugsa sem best um heilsuna

Ragga Nagli hugsar vel um heilsuna.
Ragga Nagli hugsar vel um heilsuna.

Ragnhildur Þórðardóttir, eða Ragga nagli eins og við þekkjum hana flest, er starfandi sálfræðingur með áherslu á að hjálpa fólki að öðlast heilbrigt samband við mat og hreyfingu. Hún segir margt hafa breyst eftir að veiran skall á heimsbyggðina. Frá þessu segir hún í Heilsublaði Nettó: 

COVID hafði margvísleg áhrif á okkur, bæði líkamlega og andlega, og  frá því hvaða áhrif lokanir sundstaða og líkamsræktarstöðva höfðu á líkamlegt atgervi fólks, þá var það félagsskapurinn og samfélagið sem datt út úr daglegu lífi sem líklega hafði hvað mest áhrif á heilsuna. Því enginn er eyland og maður er manns gaman. Við þrífumst á samskiptum og félagslegu samneyti.“ Segir Ragga það ástæðuna fyrir því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir félagslega einangrun sem versta form af refsingu.

Sálfræðingar upplifðu sprengju í COVID

„Félagsskapurinn sem fólk fær í gegnum sundferðir, líkamsræktartíma, gönguhópa og hlaupahópa er svo dýrmætur og mikil hvatning til að mæta og hreyfa sig. Ekki einungis kemurðu endorfíninu af stað í gegnum líkamlega hreyfingu, heldur verður losun á vellíðunarhormónunum serótónín, dópamín og oxytósín við félagsleg samskipti og snertingu. Þegar þessi félagslegi þáttur dettur alveg út úr okkar lífi, þá verður lundin þyngri og depurð, einmanaleiki og kvíði fer að herja á okkur. Allir sálfræðingar upplifðu sprengingu í eftirspurn og sjálf er ég ennþá að vinna úr biðlistanum sem myndaðist hjá mér.“

Fólk mun meðvitaðra um mikilvægi heilsunnar

Aðspurð hvort hún upplifi að fólk sé búið að breyta áherslum sínum þegar kemur að heilsu segir hún það hiklaust þannig.

„Mér finnst fólk vera mun meðvitaðra um mikilvægi góðrar heilsu í dag til þess að vera betur í stakk búið til þess að tækla erfiða sjúkdóma á borð við COVID. Annað gott sem kom út úr COVID er að fleiri fóru að hreyfa sig utandyra. Miðað við eftirspurnina eftir sálfræðiþjónustu tel ég að margir hafi einnig fundið hversu mikilvægt er að hlúa að sálartetrinu sem fyrirbyggjandi vörn, og að fara til sálfræðings er orðið mun normalíseraðra en áður og fólk er mun opnara að segja frá því upphátt og kinnroðalaust.“

Breytingarnar þurfa að vera yfirstíganlegar

Ragga segir mikilvægt fyrir þau sem misstu móðinn í COVID og duttu mögulega út úr æfingum og ræktinni að byrja eins smátt og þau mögulega geta.

„Það er uppskrift að uppgjöf og vonleysi að ætla að detta aftur í sex daga vikunnar í einn og hálfan tíma í senn eftir langa pásu. Til að festa heilsuvenjur í sessi þurfa þær að fylgja prinsippum um allar aðrar venjur. Það þarf að vera áminning um að framkvæma hegðun og verðlaun fyrir hegðunina. Breytingarnar þurfa að vera yfirstíganlegar, auðveldar, augljósar og aðlaðandi:

1. Byrjaðu mjög smátt, t.d. með því fara í ræktina bara í 20 mínútur þrisvar í viku fyrsta mánuðinn.

2. Bættu bara 1% við til að verða betri. Svo geturðu aukið tímann upp í 22 mínútur eða bætt við 1-2 endurtekningum í æfingunum.

3. Brjóttu hegðunina niður í yfirstíganlegar einingar. Til dæmis ef þig langar að gera 50 armbeygjur á dag, gerðu fimm sett af tíu yfir daginn.

4. Ekki missa tvisvar úr. Ef þú kemst ekki í ræktina, ekki leyfa því að verða rennibraut í átt að uppgjöf með því að gefa skít í það næsta dag líka. Sama með mataræðið. Þú ert alltaf bara einni máltíð frá því að taka aftur góðar ákvarðanir.

5. Þolinmæði þrautir vinnur allar. Haltu þig við hraða sem þú getur viðhaldið að eilífu, amen. Ef þú bætir of hratt við tíma í ræktinni, eða þyngdir á stönginni, eða hraða á hlaupabrettinu, þá áttu á hættu á að brenna út. Venjur þurfa að vera auðveldar á meðan þær eru að setjast að í taugakerfinu.

Hreyfing aðal G-vítamínið

Hvað gerir Ragga sjálf til þess að lyfta andanum?

„Ég æfi 5-6 sinnum í viku og hreyfi mig alltaf eitthvað á hverjum degi meðfram og það er mitt G-vítamín. Þar sem ég er Kaupmannahafnarbúi þá er mitt samgöngutæki reiðhjól eða fæturnir og ég fer alltaf í sund eða sjósund á sumrin. Þessi daglega hreyfing með D-vítamíni og súrefni gerir meira fyrir líkamlega og andlega heilsu en fólk gerir sér grein fyrir. Ég þarf líka að næra félagstaugina mína til að halda sönsum því ég er algjör extróvert og elska að fara í mannfagnaði, matarboð, veislur og partý. Ég reyni sem allra mest að hitta vini mína í hverri viku og gera eitthvað skemmtilegt eins og að fara út að borða, í bíó, leikhús eða bara hanga á kaffihúsi.“

Munnurinn er ólíkindatól

„Hollur matur og heil fæða er nauðsynleg fyrir starfsemi frumanna, betri meltingu, hámarksframmistöðu, hugræna virkni og vellíðan. Við þurfum mat sem líkaminn okkar kann að melta sem er þessi heila fæða sem inniheldur öll vítamín og steinefni. En maturinn þarf líka að vera gómsætur og skora hátt á fullnægingarskalanum og máltíðirnar þurfa að vekja hjá okkur gleði í hjarta og tilhlökkun í huga. Munnurinn er nefnilega ólíkindatól og nýjungagjarn náungi sem vill fá alla pallettuna af bragði til að dansa á tungunni,“ segir Ragga. Hún segir að þegar öll skynfæri séu sátt eftir máltíðina minnka líkurnar á „cravings“. Þess vegna er mikilvægt að fá allan regnbogann af bragði, áferð og hitastigi með í hverri máltíð.

Gleði og góður næringardagur í lífi Röggu

„Það er án efa laugardagur. Ég vakna oftast í kringum 5.30–6 og svolgra Pre-workout BCAA Blast og skelli út í það kreatíni, glútamíni og rauðrófudufti, allt saman frá NOW, fyrir æfingu. Þar tæti ég upp járnið, krossfitta, hoppa á kassa eða hleyp og vesenast. Svo kem ég heim, fer í sturtu og fæ mér morgunmat sem er alltaf hafragrautur í einhverri útfærslu, kaldur, heitur, bakaður eða næturgrautur, og þrjú til fimm egg, fer eftir því hvað ég er svöng. Grauturinn er alltaf með einhverju smjöri, hnetu-, kókos- eða möndlusmjöri frá Monki eða MUNA, sem mér finnst frábær vörumerki.

Bætiefnin frá NOW sem ég tek allt árið um kring eru EVE fjölvítamín, D3-vítamín, Omega-3 fiskiolía og C-vítamín, magnesíum, Probiotics 25 billion, Rhodiola, B12 í vökvaformi og járn í vökvaformi.

Svo færum við hjónin kannski í bæinn að skoða mannlífið, jafnvel skella okkur í siglingu eða í bíó, og enda svo daginn á að fara í drykk og út að borða með vinum. Minn uppáhaldsmatur á veitingahúsi er ribeyesteik. Hún verður að vera allavega 350 grömm því allt undir því er álegg í mínum bókum. Með henni borða ég kartöflur, sveppi, salat og nóg af aioli-majónesi. Að vera komin heim ekki seinna en á miðnætti er algjör draumur, því þá er ég hress daginn eftir og get tekið sunnudaginn með trompi líka. Hreyfing, samvera, nánd, góður matur, útivera, félagsleg tengsl, hlátur og gleði, það er uppskrift að besta deginum að mínu mati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál