Þú getur borðað allt, bara ekki alltaf og ekki allt í einu

Elísa Viðarsdóttir matvæla- og næringarfræðingur hefur allta tíð haft áhuga á íþróttum og öllu sem viðkemur góðri heilsu og lífsstíl. Hún segir frá sínum aðalhugðarefnum í Heilsublaði Nettó: 

Framundan hjá mér er spennandi verkefni sem ég er að vinna með okkar allra flottasta íþróttafólki þar sem það deilir með okkur hvaða hlutverki næringin hefur spilað í þeirra lífi sem afreksmenn í íþróttum.

Fjölbreytt mataræði, í hæfilegu magni, er gott fyrir líkama og sál. Matvæli í sinni upprunalegu mynd eins og grænmeti, ávextir, fiskur, kjöt, kornmeti, baunir og linsur eru frábær uppspretta góðra næringarefna. Ef við borðum fjölbreytta fæðu, þá tryggjum við að líkaminn fái öll þau næringarefni sem hann þarf til þess að stuðla að góðri heilsu og í kjölfarið getum við minnkað líkurnar á ýmsum sjúkdómum.

Matur veitir okkur ekki einungis orku heldur sinnir mikilvægu hlutverki í félagslífinu. Þess vegna er mikilvægt að eiga í góðu og heilnæmu sambandi við mat og engin ástæða er til að útiloka neinar fæðutegundir úr mataræðinu nema ef um ofnæmi eða óþol er að ræða.

Fæðukúrar eins og ketó, föstur og hreinsanir geta virkað í stuttan tíma en er það mataræði sem við gætum hugsað okkur að halda út allt lífið? Er tímabundið þyngdartap þess virði að sneiða hjá ákveðnum fæðutegundum? Við slíka útilokun, boð eða bönn myndast samband við mat sem getur orðið mjög óheilbrigt. Maturinn fer að stjórna þér en ekki öfugt og það getur myndast einhvers konar þráhyggja sem getur skert lífsgæðin okkar mjög mikið.

Að breyta um lífsstíl þarf ekki að liggja í fæðukúrum eða boðum og bönnum. Það hljómar kannski ekkert mjög spennandi að vera á „skynsama“ kúrnum en treystið mér, til lengri tíma þá virkar hann … oftast. Gæti ekki verið skynsamlegt að prufa að byrja að borða minna, reyna að borða meira fjölbreytt, borða reglulega, minnka gosið eða viðbætta sykurinn?

Reynum að tileinka okkur mataræði sem við getum hugsað okkur að halda út allt lífið. Mataræði þar sem við borðum fjölbreytta og næringarríka fæðu 80-90% af tímanum. Ef við náum að tileinka okkur slíkt mataræði þá er svigrúm fyrir 10-20% fæðu sem er ekki eins næringarrík. Það er mjög frelsandi tilfinning að ná jafnvægi sem hentar okkur í mataræðinu og þegar við komumst á þann stað þá gerist það oftar en ekki að við náum að halda okkur í þeirri þyngd sem við erum sátt við.

Þegar heilsuhjólið fer að snúast okkur í hag og við erum orðin leikstjórar í eigin lífi þá verður allt svo miklu, miklu auðveldara.

Heimagert múslí

Ég elska að eiga heimagert múslí til þess að orkubæta grauta, jógúrt eða setja út á salat.

• 3 bollar grófir hafrar • 1 bolli fræ • 2 bollar saxaðar hnetur • ½ bolli kókosflögur (bætt við í lokin) • ½ bolli kókosolía • ½ stappaður banani • 1 msk. síróp • 1 msk. kanill • 1 tsk. salt

1. Blandið þurrefnunum saman í skál.

2. Stappið bananann og blandið við kókosolíuna og sírópið.

3. Stillið ofninn á 165°C.

4. Hellið vökvanum yfir þurrefnin og blandið vel saman. Setjið smjörpappír í ofnskúffu og hellið blöndunni í skúffuna.

5. Bakið í 15 mínútur og hrærið í öðru hverju.

6. Bætið kókosflögunum við síðustu 3-4 mínúturnar í ofninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál