„Ojjjj hvað ég er feit í þessum buxum“

Ragnhildur Þórðardóttir er kölluð Ragga nagli.
Ragnhildur Þórðardóttir er kölluð Ragga nagli.

„Hvað fyllir á og tappar af þinni streitufötu,“ spyr Ragga nagli, sálfræðingur. Hún segir flesta fullorðna vera með hálffulla fötu af streituvöldum, meðal annars vegna áfalla eins og dauðsfalla, ofbeldis, eineltis og gamalla, óleystra ágreininga. En hvað er í fötunni þinni og hvernig hellum við úr henni? Hún deildi hugleiðingum sínum í Heilusblaði Nettó: 

Hvað veldur streitu?

  • Of mörg verkefni
  • Skilnaður
  • Einelti á vinnustað
  • Langvarandi veikindi
  • Óheilbrigð samskipti
  • Sorg og söknuður
  • Svefnleysi

Daglegir streituvaldar

Það sem fyllir fötuna enn meira köllum við daglega streituvalda sem drippa ofan í um leið og við opnum glyrnurnar á morgnana.

  • Vont andrúmsloft á vinnustað
  • Rifrildi við makann
  • Skilafrestur í vinnu
  • Skutla og sækja í fimleika, fótbolta, píanó
  • Borða ruslfæði
  • Félagsleg einangrun

Innri streituvaldar

Svo bætast við dropar af innri streituvöldum sem eru samtalið sem við eigum við okkur sjálf í hausnum.

Neikvætt sjálfstal og niðurrif: 

„Ég var eins og fífl á árshátíðinni um síðustu helgi.“

„Ojjjj hvað ég er feit í þessum buxum, eins og illa vafin rúllupylsa.“

„Þessi kynning í vinnunni var ömurleg hjá mér.“

Kvíði, sjálfsefi og áhyggjur

„Ég meika ekki að labba inn í ræktina, það munu allir horfa á mig og hlæja.“

„Ég þori ekki að segja NEI við yfirmanninn því ég vil ekki missa vinnuna.“

„Ég veit ekki hvort ég nái endum saman í lok mánaðar.“

Flæðir yfir barmana á fötunni

Heilinn gerir ekki greinarmun á ímyndun og raunveruleika og neikvætt sjálfstal, áhyggjur og kvíði fara lóðrétt í fötuna. Svo flæðir yfir barmana á fötunni. Og við upplifum kulnun. Örmögnun. Af því að kröfurnar eru of margar, of háar, of miklar fyrir þau úrræði sem við höfum yfir að ráða. Úrræðin okkar eru tími, athygli og orka. Við eigum ekki meira af þessum auðlindum, það er kominn bullandi yfirdráttur og gulu miðarnir streyma inn um lúguna. Og í því ástandi verður framheilinn utan þjónustusvæðis og við bregðumst við áreitum eins og unglingar, með tilfinningum en ekki rökhugsun.

Streitan lætur á sér kræla í hegðun og hugsun

Streitan fer að koma fram í hegðun og hugsun. Við erum pirruð, grátgjörn, alltaf þreytt, gleymin. Hugsum neikvæðar hugsanir. Líkaminn lætur líka vita þegar streitan er farin að flæða: Meltingartruflanir, hár blóðþrýstingur, hækkandi kólesteról, ör hjartsláttur, kvíðahnútur í maga, svefn- truflanir. Öll verkefni verða óyfirstíganleg. Við viljum ekki hitta neinn og missum áhugann á öllu sem áður gladdi okkur.

Hjálpleg bjargráð búa til göt í botninn á fötunni svo streitan míglekur úr fötunni og út í hafsjó. Hjálpleg bjargráð eru að styrkja félagstengslin, stunda hreyfingu, horfa á grínþætti og hlæja duglega, setja svefninn í algjöran forgang, hvílast, stunda öndunaræfingar og núvitund, borða hollt og gómsætt.

Aðrir hlutir sem tappa af fötunni

  • Núvitund
  • Þakklætisdagbók
  • Jóga
  • Bandvefslosun
  • Sálfræðimeðferð
  • Saumaklúbbur
  • Nudd
  • Dúll og dekur

Semsagt sjálfsrækt „par excellence“.

Óhjálpleg bjargráð sem endurvinna streituna

Svo áttu bjargráð sem tappa af streitu en bara í örstutta stund því þau eru í raun hringrás og endurvinna streituna með því að bæta enn meiru ofan í fötuna. Þetta köllum við óhjálpleg bjargráð. Eins og að fá sér sjúss. Smóka rettu. Úða í sig kexi. Sjoppa drasl á netinu. Eitthvað sem keyrir upp dópamínið og okkur líður dúndurvel en bara í stutta stund. En við fyllumst sektarkennd, eftirsjá, samviskubiti, áhyggjum og niðurrifi í kjölfar slíkrar hegðunar. Eins og að pissa í skóna sína til að hlýja sér á fótunum. Það verður enn kaldara eftir á. Og streitufatan fyllist enn meira og nú með kokteil af neikvæðum tilfinningum. Svo eru innri óhjálpleg bjargráð eins og að taka strútinn á þetta og bora hausnum í sandinn með því að hunsa vandamálið. Fresta því að takast á við hlutina. Halda leikritinu gangandi og segja að allt sé í gúddí þegar við erum í molum að innan.

Súrefnisgríman þín þarf að vera á andlitinu

Þrálát streita er hinn þögli skaðvaldur nútímans. Skaðvaldur sem smám saman ýtir fólki út úr atvinnulífinu. Út úr félagslífinu. Út úr gleðinni. Út úr heilsunni. Það er því mikilvægt að tappa reglulega af streitufötunni áður en heilsan hrynur í gólfið með tilheyrandi kulnun í starfi eða tilfinningalegu krassi á vegg. Sjálfsrækt er ekki sjálfselska. Þú hjálpar engum í flugvélinni ef súrefnisgríman þín hangir bara um hálsinn á þér.

Gulrótarkökugrautur fyrir streitupésa

Kolvetni eru bóluefni við of háu kortisóli því þau keyra það niður á núll einni. Og haframjöl lækkar kólesterólið sem oft keyrist upp í rjáfur þegar við erum undir miklu álagi. Haframjöl er líka ríkt af B1 en líkaminn spænir oft upp B-vítamínið þegar við erum undir miklu álagi. Rúsínur eru stútfullar af andoxunarefnum sem draga úr bólgumyndun sem oft er viðvarandi í streitu. Möndlur eru ríkar af magnesíum sem róar miðtaugakerfið. Husk hjálpar meltingunni og heldur henni reglulegri en streita hefur áhrif á þarmaflóruna með því að ráðast á góðu bakteríurnar.

Þessi bakaði gulrótarkökugrautur er þess vegna dúndurbyrjun á deginum fyrir þau sem glíma við kulnun eða örmögnun.

Bakaður gulrótarkökugrautur

50 g haframjöl frá MUNA

1 tsk. lyftiduft

1 msk. NOW Psyllium Husk

1 msk. rúsínur 

1 rifin gulrót

½ tsk. Ceylon kanill 

½ tsk. engifer

½ tsk. múskat

1 tsk. vanilludropar

1 klípa salt

100 ml eplamús, ósæt

150–200 ml mjólk (úr plöntu eða belju)

1 msk. möndlur 

Hitið ofninn í 180°C. Blandið höfrum, huski, kryddi, lyftidufti og rifinni gulrót saman í stórri skál. Blandið mjólk, vanilludropum og eplamauki saman í minni skál og hrærið vel. Blandið blautu hráefnunum saman við þurru hráefnin og bætið svo rúsínum saman við. Setjið blönduna í lítið eldfast mót og dreifið möndlum yfir. Bakið grautinn í 35–40 mínútur. Látið kólna í 5–10 mínútur.

Toppaðu gleðina með sykurlausu Good Good sírópi og jafnvel góðri vanillujógúrt til að fá smá kremfíling. Þennan graut má líka gera kvöldið áður svo hann sé klár þegar þú rúllar þér fram úr bælinu. Þá er bara að opna ísskápinn og vopnast gaffli til að njóta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál