Gatan mín Völusteinsstræti í Bolungarvík

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson. mbl.is

Völusteinsstræti og byggðin í Bolungarvík er með talsvert öðrum svip nú en þegar ég ólst upp. Það má kannski segja að breytingarnar séu öðrum þræði táknmynd breytingar og þróunar samfélagsins sem orðið hefur síðustu áratugi,“ segir Bolvíkingurinn Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður. Hann fæddist og ólst upp við götuna sem dregur nafn sitt af Völusteini sem var sonur landnámskonunnar Þuríðar sundafyllis.

Sveitungar Völusteins

„Sigurður Nordal færði fyrir því rök á sínum tíma að Völusteinn kynni að vera höfundur Völuspár. Og auðvitað höfum við sveitungar Völusteins þá kenningu í hávegum,“ segir Einar sem ólst upp í bæ þar sem höfuðáttirnar eru tæpast til í daglegu mæli. Bolvíkingar tala um að fara inneftir og úteftir ella uppeftir eða niðureftir. Svo er sagt að farið sé niður á Malir, liggi leiðin inn í bæ, en upp á Holtin þegar rætt er um ofanverða byggðina. Og svo er farið út á Bakka og inn á Grundir – en svo er byggðin innan Hólsár nefnd.

Einar Kristinn fæddist 1955 í húsinu í Völusteinsstræti 28 þar sem foreldrar hans, Guðfinnur Einarsson og María Haraldsdóttir, áttu heimili sín fyrstu búskaparár.

„Þetta var hús þeirra sæmdarhjóna Sigurðar Guðbjartssonar og Ólínu Bæringsdóttur sem foreldrar mínir leigðu hjá. Þar átti ég gott atlæti og þeim á ég margt gott upp að unna. Uppi í Holtunum voru þau með fjárbúskap og oft fylgdi ég Sigurði þegar hann fór til gegninga og einnig þegar þau Ólína heyjuðu stykkið sitt inni í Syðridal. Þannig kynntist ég í þessum bæ bernsku minnar bæði sjávarútvegi sem landbúnaði,“ segir Einar.

Líflegur krakkaskari

Í fyllingu tímans kom að því að foreldar Einars byggðu sitt eigið hús, sem var í Völusteinsstræti 26, og þangað flutti fjölskyldan árið 1958. Er húsið byggt skv. teikningu Bárðar Ísleifssonar arkitekts og með líku lagi og prófessorabústaðirnir við Ara- og Oddagötu í Reykjavík; einföld hús og hagnýt.

Við Völusteinsstræti bjuggu flest föðursystkina viðmælanda okkar; börn hjónanna Einars Guðfinnssonar og Elísabetar Hjaltadóttur. Þarna í nágrenninu bjuggu sem sagt; Jónatan og Halla Kristjánsdóttir kona hans; Hildur og Benedikt Bjarnason; Guðmundur Páll og Kristín Marselíusdóttir og Jón Friðgeir sem giftur er Margréti Kristjánsdóttur. Annars staðar í bænum, en skammt frá, bjuggu svo Pétur Guðni Einarsson og Helga Aspelund kona hans – en tvö Einarsbarna hinna eldri bjuggu fyrir sunnan; þau Hjalti og Halldóra.

„Flest föðursystkini mín áttu börn á líkum aldri og þú getur rétt ímyndað þér að oft var líflegt hjá öllum þessum krakkaskara í Völusteinsstrætinu og öðrum krökkum sem þar ólust upp eða í nágrenninu,“ segir Einar.

Mikill uppgangsstaður

„Við strákarnir drógum á eftir okkur vörubíla, lögðum vegi í lautunum sem skáru Völusteinsstrætið og töldum okkur hafa rutt brautina með varanlegum hætti. Raunin var önnur. Ég fór í alltaf í sveit í Skagafjörð á sumrin og þegar ég kom til baka eitthvert haustið hafði verið fyllt upp í lautirnar til þess að rýma til fyrir nýjum húsum. Okkur þótti þetta auðvitað súrt en urðum að lúta í lægra haldi fyrir uppbyggunni og framförunum,“ segir Einar sem með fjölskyldu sinni, Sigrúnu Þórisdóttur og börnum þeirra, Guðfinni Ólafi og Sigrúnu Maríu, flutti síðar í Völusteinsstræti 16 árið 1984 eftir að hafa búið annars staðar í bænum í nokkur ár.

„Bolungarvík var mikill uppgangsstaður lengi vel og nú er þar alveg ótrúleg uppbygging í sjávarútveginum á nýjan leik,“ segir Einar sem í dag býr á Bakkastíg 9 – úti á Bökkum eins og Bolvíkingar segja.

Mikil hlunnindi

„Af Bakkastígnum er fallegasta útsýni í heimi. Ég sé yfir Ísafjarðardjúpið, inn í Æðey og til bæjanna á Snæfjallaströnd, en yst á henni er Bjarnarnúpur. Og svo blasa Jökulfirðirnir við, Grænahlíðin og alveg út að Rit. Að hafa þessa einstöku náttúrufegurð í stofuglugganum eru mikil hlunnindi, sem margir öfunda mig af.“ sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »