Epli í íslenskum görðum

Eplatré.
Eplatré. mbl.is

Ávaxtatrén hafa verið að sækja almennilega í sig veðrið síðustu árin, en eru þó ekki glæný af nálinni, eins og Steinunn útskýrir. „Á 8. og 9. áratug síðustu aldar voru menn að prófa sig áfram með innflutning á ávaxtatrjám. Þessi tré hafa lifað, og á seinni árum, með betri tíð og hækkandi hitastigi, hafa þau svo farið að gefa aldin,“ segir Steinunn um líklegar ástæður þess að áhuginn á ræktuninni hefur stóraukist á síðustu misserum. „Sæmundur Guðmundsson á Hellu byrjaði til dæmis í kringum 1988, og hefur verið að fikra sig áfram smátt og smátt. Svo hefur hann verið iðinn við að breiða út boðskapinn þegar hann sér að þetta er að ganga vel. Hitastigið og lenging á sumrinu hin seinni ár hefur svo gert gæfumuninn. Nú er svo komið að trén ná að blómstra á vorin og þroska aldin yfir sumartímann.“

Margar tegundir í boði

Eins og Steinunn bendir á selja Garðheimar talsvert úrval af ýmsum aldintrjám. Þannig er úrvalið af eplatrjám hátt í tuttugu tegundir, ásamt nokkrum mismunandi afbrigðum af plómutrjám, perutrjám og kirsuberjatrjám. Að sögn hennar var valið vandað og eiga afbrigðin öll að geta plumað sig ágætlega við íslenskar aðstæður. „Úrvalið er satt að segja ótrúlega mikið í vor og vinsældirnar eftir því. Við höfum ekki boðið upp á viðlíka úrval trjáa áður en með hliðsjón af viðtökunum reikna ég með að úrvalið er komið til að vera á næstu árum,“ segir Steinunn. „Oft hefur fólk byrjað með plöntur í sumarbústaðnum og svo þegar það sér trén vaxa og dafna vill það gjarna bæta við í garðinn heima.“

Það þarf tvö til – ef ekki þrjú

Eins og Steinunn bendir á þarf oft að hafa fleiri en eitt eplatré í garðinum til að tryggja ræktunin muni gefa almennilega aldin. „Það þarf ákveðin frjóvgun að eiga sér stað sitt á hvað. Það eru dálítil vísindi í þessu öllu saman, ekki síst í því hvað passar best saman í garðinn.“ Steinunn útskýrir að nauðsynlegt sé að reyna að finna það út eftir fremsta megni. Sum trén eru meiri frjógjafar, en gefa aftur á móti ekki mörg aldin af sér. Það er hins vegar allt í besta lagi því þá eru hin trén, sem höfð eru á móti, að gefa meira af sér. Svona þarf að spila þessu saman. Hvert tré hefur sitt hlutverk.“ En sem fyrr sagði eiga allar tegundirnar að pluma sig vel við íslenskar aðstæður og Steinunn bendir á að afbrigðin hafi verið valin sem þegar hafi verið reynd hér á landi og mælt með í framhaldinu, bæði af áðurnefndum Sæmundi á Hellu og eins Jóni Guðmundssyni á Akranesi, sem vakið hefur athygli við umfangsmikla og vel lukkaða aldintrjárækt. „Maður reynir að fylgja þeirra fræðum, því sem þeir eru að tala um og því sem þeir hafa prófað.“

Tveggja ára verkefni

„Það er best að gróðursetja sem fyrst á vorin, bara um leið og frost er úr jörðu,“ segir Steinunn um tímarammann sem er á ræktuninni yfir sumartímann. „Það er ákaflega mikilvægt að plantan fái nægan tíma til rótarvaxtar, og nái að festa sig almennilega fyrir veturinn. Eins er ekki endilega æskilegt að hún beri aldin fyrsta sumarið,“ en eins og Steinunn útskýrir er hægur vandi að stýra aldingjöfinni með umhirðu og klippingu á trjánum. „Það fer svo mikil orka í að mynda aldinin, og um leið fer þá minni orka í rótina.“ Það fer því best á því að fyrsta sumarið fari í að búa í haginn fyrir framtíðina og koma sér almennilega fyrir. Vitaskuld vill fólk helst fá epli strax sama haustið og trén eru gróðursett en ég reyni að útskýra fyrir því að þetta sé tveggja ára ferli.“ Að sögn Steinunnar verða eplatrén 3 til 4 metrar á hæð, og safni á sig breiða og myndarlega laufkrónu fái þau að vaxa óáreitt, en það sé þó í hendi hvers og eins að stýra stærðinni með klippingu og umhirðu. Það skiptir hins vegar öllu máli að fá hámarks birtu inn í allt tréð, frá rótum og upp úr, á öll lauf, öll blóm og öll aldin, til að það þroskist sem best. Sé krónan ekki snyrt dreifist birtan ekki jafnt á laufin og þá fylgir að mest af blómum verður á toppnum, en ekkert inni í krónunni því birtan einfaldlega kemst ekki þangað inn.“ Það er því eitt og annað sem hafa þarf í huga ef vel á að takast til, en Steinunni segir fólk almennt fróðleiksfúst og tilbúið að hlusta á tilsögn. „Enda er bara skemmtilegra að þurfa aðeins að skoða hlutina og velta þeim fyrir sér.“

Mörg smá eða færri stór

Hvað skyldi fólk svo mega eiga von á stórum eplum þegar kemur að því að uppskera í lok annars sumars? Erum við að tala um sambærileg epli og fást úti í næstu matvörubúð? „Þetta eru að jafnaði um 40-50 gramma epli. Eitt má nefna í þessu sambandi; fólk er oft smeykt við að grisja, en ef í hverjum blómaklasa eru mörg blóm og þau ná öll að frjóvgast fylgir það að plantan hefur ekki kraft til að gera öll eplin risastór. Eftir því sem eplin eru fleiri þeim mun smærri eru þau. En ef maður grisjar og gerir þá ráð fyrir að hver blómaklasi beri tvö epli er það í raun feikinóg fyrir þá grein á plöntunni. Hver blómklasi þarf um 80 lauf til að þroska stórt og fallegt epli.“ Það sem hljómar því fyrst um sinn sem flókin náttúruvísindi verður einfalt og borðleggjandi þegar sérfræðingurinn útskýrir málið: tréð hefur tiltekinn og afmarkaðan kraft til aldingerðar. Hvort sá kraftur deilist á fá og stór eða mörg og smá epli veltur svo á því hvort grisjað er eður ei.

Hollráð í hreti

Um daginn varð hér á landi myndarlegt vorhret, að því marki að kallað var krossmessukast. Lumar Steinunn ekki á hollráðum fyrir ræktendur til að verjast skakkaföllum þegar veður gerast válynd fyrir aldintrén í garðinum? „Mestu skiptir að vökva vel og rækilega,“ segir hún. „Þegar svona hressilega gustar dregur vindurinn vatnið úr blöðunum, og þess vegna skorpna þau. Eins er best að úða hreinlega yfir allar plönturnar í svona kuldakasti þar sem frystir og hjúpa blöðin hreinlega með klaka. Klakinn ver plöntuna og vindur nær þá ekki til laufanna.“ Laufin halda sem sé eftir sem áður í sér varmanum og hafa það fínt þó að þau séu klakahjúpuð, enda þar með prýðilega einangruð. „Eins er gott að breiða akríldúk yfir plönturnar, þennan hvíta sem notaður er yfir kartöflur, það hefur hjálpað mikið,“ segir Steinunn Reynisdóttir hjá Garðheimum.

Eplatré.
Eplatré. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál