Örlygur Hnefill Örlygsson opnar hótel

Örlygur Hnefill Örlygsson hótelhaldari á Húsavík ásamt Emilíu Örlygsdóttur og …
Örlygur Hnefill Örlygsson hótelhaldari á Húsavík ásamt Emilíu Örlygsdóttur og Gunnari Hnefli Örlygssyni.

Þetta hefur verið svolítil törn að undanförnu en eigi að síður býsna skemmilegt og ekki síður lærdómsríkt verkefni. Hér höfum við haft með okkur vaskan hóp harðduglegra iðnaðarmanna en við höfum þó reynt af íslenskum búhyggindum að gera sem mest sjálf. Og þá hefur komið mér á óvart hvað maður getur glettilega mikið sjálfur. Að hafa iðnaðarmanninn í blóðinu var nokkuð sem ég bjóst ekki við,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, hótelhaldari á Húsavík.

Uppbygging og útsjónarsemi

Í fyrri viku var Hótel Húsavíkurhöfði opnað, en á ensku er það nefnt Húsavík Cape Hótel. Örlygur Hnefill stendur að þessum rekstri með fjölskyldu sinni sem á síðustu misserum hefur verið að hasla sér völl í ferðaþjónustu. Nyrðra reka þau gistiheimili í Reykjahverfi og á Húsavík og nú bætist hótelið nýja við. Geta Örlygur og hans fólk nú boðið gistipláss fyrir alls 57 gesti – og stefna hærra.

„Uppbyggingin nú hefur verið tímafrekt verkefni og kallað á talsverða útsjónarsemi,“ segir Örlygur Hnefill um hótelið nýja sem stendur á svonefndum Húsavíkurhöfða. Það er í húsi þar sem eitt sinn var rækjuverksmiðja, síðar saltfiskverkun og loks trésmíðaverkstæði. Nokkur undanfarin ár hefur húsið hins vegar staðið autt og var raunar í frekar bágu ásigkomulagi þegar nýir eigendur tóku við því – með breytingar og nýtt hlutverk í huga.

Verður með sautján herbergi

„Við byrjuðum á því að strípa húsið algjörlega að innan og moka gólfunum út til að koma fyrir nýju lagnakerfi. Svo voru steypt upp ný gólf, komið fyrir veggjum og þannig komið fyrir sjö herbergjum og annarri aðstöðu sem þarf. Þá eigum við eftir uppbyggingu á annarri hæð hússins þar sem eiga að verða tíu herbergi. Ég vænti þess að sú aðstaða verði komin í notkun eftir eitt til tvö ár og þá verður þetta orðið sautján herbergja hótel á besta stað í bænum,“ segir Örlygur Hnefil.

Ferðasumarið nyrðra fer vel af stað og gestkvæmt er á Húsavík. „Veðráttan að undanförnu hefur verið afskaplega ljúf og á þann hátt hafa ytri aðstæður unnið með okkur. En mestu skiptir samt að hér bjóðist ferðamönnum einhver skemmtileg afþreying og þar býr Húsavík að hvalaskoðunarferðunum. Hingað koma þúsundir innlendra og erlenda ferðamanna á hverju ári til þess að sjá þessar undraskepnur hafsins bylta sér úti á haffletinum. Þetta skapar svæðinu sérstöðu. Og svo vona ég bara líka að brátt komi einhver raunveruleg hreyfing í uppbyggingu atvinnulífs hér; t.d. iðnaðarstarfsemi eins og lengi hefur verið stefnt að. Slíkt myndi styrkja stöðu byggðarinnar hér mikið – ferðaþjónustunnar ekki síst,“ segir Örlygur Hnefill – sem segir ferðaþjónustu áhugaverðan og spennandi starfsvettvang.

Fróðleikur og ferðamenn

„Dagarnir eru oft langir. Maður er kominn á stjá eldsnemma að finna til morgunmatinn og svo bíða önnur verkefni; þrif, innkaup, bókanir, pappírsvinna, útvega þetta og hitt, segja fólki til vegar og svona gæti ég haldið áfram. Vinnudeginum lýkur oft ekki fyrr en undir miðnætti og það er ekki alltaf mikill tími til að hvílast. En á móti kemur að sólríkir dagarnir gefa manni mikla orku sem kemur sér vel,“ segir Örlygur Hnefill sem þykir mikill fjöldi spænskra ferðamanna í sumar eftirtektarverður.

„Mér finnst afar lærdómsríkt að rabba við þessa erlendu ferðamenn; kynnast viðhorfum þeirra og heimalöndum. Er aðeins kominn með tilfinningu fyrir Spáni; landi og þjóð. Einnig hefur verið hér talsvert af fólki frá Japönum og Kínverjum sem er ekki síður áhugavert að rabba við; enda er flest í heimalöndum þeirra með allt öðrum brag en hér á landi.“

Hótel Húsavíkurhöfði.
Hótel Húsavíkurhöfði.
mbl.is