Kynna sjálfvökvandi vatnsgel á HönnunarMars

Brynja Þóra og Grétar unnu að verkefninu saman.
Brynja Þóra og Grétar unnu að verkefninu saman. Styrmir Kári

„Á Hönnunarmars mun ég sýna verkefnið „Season”. Verkefnið byrjaði sem meistaraverkefni í hönnun við Listaháskólann en  þar var lagður grunnurinn að hugmyndafræðinni. Verkefnið var síðan þróað áfram síðasta sumar í samstarfi við Grétar Guðmundsson, nema í sameindalíffræði við Háskóla Íslands og Matís. Verkefnið var styrkt síðasta sumar af Nýsköpunarsjóði námsmanna og var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Á HönnunarMars mun ég sýna afrakstur þeirrar vinnu og vonandi gefa gestum Hönnunarmars tilfinningu fyrir heimaræktunarkerfinu,“ segir hönnuðurinn Brynja Þóra Guðnadóttir.

Hraðinn og áreitið sem einkennir nútímasamfélag var kveikjan að hugmyndinni á bak við verkið Season. „Það er margt í okkar umhverfi sem að dregur úr samskiptum. Sú þróun á ekki eftir að breytast en við þurfum að auka mótvægi við hraðann og búa okkur umhverfi sem að hægir einnig á og  stuðlar einnig að samskiptum. Matur er eitthvað sem að við eigum öll sameiginlegt og mikilvægt að hlúa að matmálstímum því þeir eru oft sá tími dags sem að fjölskyldan gefur sér tíma fyrir hvort annað. Markmiðið með „Season“ er að gera ræktun auðveldari og gefa þannig fleirum kost á að rækta.“

En hvað er „Season” nákvæmlega?

„Season er ræktunarkerfi fyrir heimaræktun á grænlingum (microgreens). Plönturnar vaxa í vatnsgeli sem er unnið úr brúnþörungum. Ekki þarf að vökva kryddjurtirnar yfir ræktunartímann sem að gerir það mjög notendavænt og ætti að gera fleiri kleift að rækta.  Eftirspurn eftir grænlingum hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár. Þeir eru notaðir víða á veitingastöðum og nýttir bæði sem krydd og skraut enda gefa þeir matnum bæði lit og ferskleika,“ útskýrir Brynja Þóra.

„Brúnþörungar eru útflutningsvara en þeir eru slegnir og grófunnir hér á landi en fluttir út til frekari verðmætasköpunar. Með „Season“ er  verið að auka verðmætasköpun innlendri afurð.“

Ekki þarf að vökva kryddjurtirnar yfir ræktunartímann sem að gerir …
Ekki þarf að vökva kryddjurtirnar yfir ræktunartímann sem að gerir það mjög notendavænt.

Í rannsóknum sínum komst Brynja Þóra að því að mikið að þeirri gróðurmold sem íslendingar nota er innflutt. „Það fer mikil orka í að flytja inn moldina þar sem að hún er bæði umfangsmikil og þung. Vatnsgel hefur þá kosti að hægt er að frostþurrka efnið og við það verður það fislétt og umfangslítið.“

Vatnsgelið er auðvelt í notkun og umhverfisvænt

Rannsóknir og tilraunir Brynju Þóru og Grétars heppnuðust vel og í ljós koma að vatnsgelið var notendavænt og auðvelt var að rækta grænlinga í því.

„Grænlingar eru plöntur sem að vaxa á 7 - 16 dögum, hafa þá myndað kímblöðin og þriðja blaðið er að myndast. Þær eru taldar innihalda mikilvæg næringarefni á þessu vaxtarskeiði. Hægt er að nota flest allar ætiplöntur til að rækta grænlinga en yfirleitt eru notaðar bragðsterkar og litríkar kryddjurtir eins og klettasalat, rauðrófur og ýmis salöt. Þeir þurfa ekki eins mikla náttúrulega birtu og flestar kryddjurtir svo sem basilíka og mynta. Ef notast er eingöngu við náttúrulega birtu er hægt að byrja að rækta grænlinga fyrr en aðrar ætiplöntur, en það framlengir ræktunartímabilið sem er mikill kostur.”

Eins og áður sagði var verkefnið tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. „Nýsköpunargildi verkefnisins felst í því að nota vatnsgel sem er í dag nýtt í fjölbreyttum iðnaði, eins og lyfjaiðnað, matvælaiðnað og fleiru, og yfirfæra þá þekkingu yfir á ræktunarefni fyrir plöntur. Það hefur ekki verið gert áður svo vitað sé. Markmiðið með Season er að hanna ræktunarefni fyrir grænlinga þar sem plantan fær að njóta sín og fegrar umhverfið.”

Þess má geta að vatnsgelið er umhverfisvænt eftir að það hefur lokið sínu upphaflega hlutverki. „Þá má skila því aftur út í jarðveginn þar sem hringrásin heldur áfram og getur vatnsgelið stuðlað að bættri jarðvegsflóru með því að viðhalda raka í moldinni.”

Hlutverk vatnsgelsins er að gera ræktun auðvelda.
Hlutverk vatnsgelsins er að gera ræktun auðvelda.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál