Af hverju get ég ekki haldið heimilinu í röð og reglu?

Það getur verið ansi erfitt að halda heimilinu hreinu.
Það getur verið ansi erfitt að halda heimilinu hreinu. mbl.is/GettyImages

Bókin Taktu til í lífi þínu! eftir Marie Kondo kom út í íslenskri þýðingu á dögunum. Bókin hefur notið mikilla vinsælda víða um heim - sérstaklega hjá þeim sem aðhyllast mínímalískan lífsstíl. Hér getur þú lesið fyrsta kafla bókarinnar: 

Þú getur ekki tekið til ef þú hefur aldrei lært hvernig á að fara að því

Þegar ég segi fólki að atvinna mín sé að kenna öðrum að taka til lítur það venjulega furðu lostið á mig. „Geturðu raunverulega haft tekjur af því?“ er fyrsta spurningin. Því fylgir næstum alltaf: „Þarf fólk kennslu í tiltekt?“

Það er staðreynd að þótt leiðbeinendur og skólar bjóði upp á námskeið í öllu mögulegu, allt frá eldamennsku og garðyrkju til jóga og hugleiðslu, getur verið mjög erfitt að finna námskeið um það hvernig á að taka til. Almenna hugmyndin er sú að ekki þurfi að kenna tiltekt, heldur finni fólk út úr slíku af hreinni eðlishvöt. Eldunaraðferðir og mataruppskriftir ganga gjarnan milli kynslóða, frá ömmu til móður til dóttur, en aldrei heyrist talað um að verið sé að deila fjölskylduleyndarmálum um hvernig best sé að taka til, jafnvel innan veggja heimilisins.

Hugsið til baka til bernskuáranna. Ég er viss um að flest höfum við verið skömmuð fyrir að taka ekki til í herbergjunum okkar, en hversu margir foreldrar litu á það sem þátt í uppeldinu að kenna börnum sínum markvisst að taka til? Í rannsókn á þessu sviði kom í ljós að innan við 0,5% fólks svaraði játandi spurningunni: „Hefurðu lært formlega að taka til?“ Foreldrar okkar kröfðust þess að við tækjum til í herbergjum okkar en sjálf höfðu þau heldur aldrei lært hvernig
best væri að bera sig að. Þegar kemur að tiltekt erum við öll sjálflærð.

Leiðsögn í tiltekt er vanrækt í skólakerfinu ekki síður en á heimilunum. Í Japan og víða um veröldina fer fram kennsla í heimilisfræði og handmennt og börnum er jafnvel kennt að
matreiða hamborgara eða nota saumavél og sauma svuntu, en engum tíma er varið í námsgreinina tiltekt. Fæði, klæði og húsaskjól eru grundvallarþarfir fólks svo að ætla mætti að það hvernig við búum væri álitið jafn mikilvægt og það hvað við borðum eða hverju við klæðumst. Samt er tiltekt, það sem gerir heimilin íbúðarhæf, fullkomlega hunsuð vegna þeirrar hugsanavillu að grunnþekking í tiltekt fáist með reynslunni og þess vegna þurfi ekki að þjálfa hana sérstaklega.

Gengur fólki sem hefur tekið til í mörg ár betur að taka til en öðrum? Svarið er nei. Tuttugu og fimm prósent nemenda minna hafa verið konur á sextugsaldri og flestar þeirra hafa rekið heimili í hátt í 30 ár, sem ætti að gera þær að algerum reynsluboltum í þessu starfi. En eru þær flinkari að taka til en konur á þrítugsaldri? Reyndin er sú að svo er ekki. Margar þeirra hafa eytt svo mörgum árum í að nota aðferðir sem duga ekki að heimilin eru yfirfull af óþarfa dóti sem þær
berjast við að halda í skefjum með ómarkvissu geymsluskipulagi.

Hvernig er hægt að ætlast til að þær kunni að taka til ef þær hafa aldrei lært það almennilega?
Þótt þú vitir ekki heldur hvernig best er að taka til svo árangur náist skaltu ekki missa móðinn. Nú er kominn tími til að læra það. Með því að læra og nota KonMari-aðferðina sem kynnt er í þessari bók munt þú losna úr andstyggilegum vítahring ruslahaugsins. Tekið almennilega til, einu sinni. 

„Ég tek til þegar ég sé hversu draslaralegt er orðið í íbúðinni minni en þegar ég er búin líður ekki á löngu þar til allt draslið er komið aftur.“

Þetta er algeng umkvörtun og staðlaða svarið sem tímaritin gefa er þetta:

„Ekki reyna að taka til í öllu húsinu þínu í einu. Þá gefstu bara upp. Vendu þig á að
gera frekar lítið í einu.“

Ég rakst fyrst á þetta svar þegar ég var fimm ára. Þar sem ég var miðbarnið í hópi þriggja systkina naut ég mikils frelsis í uppeldinu. Móðir mín var upptekin við að hugsa um litlu systur mína sem var nýfædd á þessum tíma og bróðir minn sem var tveimur árum eldri en ég var
alltaf límdur við sjónvarpið í tölvuleikjum. Afleiðingin var sú að ég var mikið út af fyrir mig.

Eftir því sem ég óx úr grasi varð það að lesa lífsstílstímarit fyrir húsmæður smám saman að mínu helsta áhugamáli. Móðir mín var áskrifandi að ESSE – lífsstílstímariti sem var fullt af greinum um innanhússhönnun, hvernig hægt væri að gera líf húsmóðurinnar auðveldara og umsögnum um ýmsar vörur. Um leið og blaðið barst greip ég það úr póstkassanum,
jafnvel áður en móðir mín vissi að það var komið, reif upp umslagið og sökkti mér ofan í innihaldið. Á leiðinni heim úr skólanum fannst mér skemmtilegt að koma við í bókabúðinni
og fletta í gegnum Appelsínugult, vinsælt matreiðslutímarit í Japan. Ég gat ekki lesið öll orðin en þessi blöð með myndum af ljúffengum mat, stórkostlegum ráðum til að hreinsa bletti og fitu og sparnaðarráðum voru jafn heillandi fyrir mig og tölvuleikjablöð voru fyrir bróður minn. Ég var
vön að brjóta eyra á blaðsíður með sérlega áhugaverðu efni og mig dreymdi um að prófa þessi ráð.

Ég bjó líka til ýmiss konar „leiki“ sem ég gat leikið ein. Eftir að hafa lesið grein um peningasparnað bjó ég til dæmis til leik um ofursparnað sem fólst í því að þjóta um allt húsið og taka úr sambandi öll raftæki sem voru ekki í notkun, jafnvel þótt ég vissi ekkert um rafmagnsmæla. Eftir að hafa lesið aðra grein fyllti ég plastflöskur af vatni og setti þær í klósettkassann í „vatnssparnaðarkeppni fyrir einn“. Greinar um geymslutækni fengu mig til að breyta mjólkurfernum í skilrúm fyrir skrifborðsskúffurnar mínar og ég bjó til blaðagrind með því að raða tómum vídeóspólukössum upp milli tveggja húsgagna. Þegar aðrir krakkar í skólanum voru í eltingaleik eða að sippa tók ég að mér að endurraða í bókahillurnar í skólastofunni
okkar eða rannsaka innihald moppuskápsins, allan tímann tautandi eitthvað um slæmt geymsluskipulag.

„Ef það væri nú bara S-krókur hérna væri mun auðveldara að nota þetta.“

En það var eitt vandamál sem virtist óleysanlegt: Hversu mikið sem ég tók til leið ekki á löngu þar til allt var aftur komið á hvolf. Fljótlega fóru pennar að flæða upp úr mjólkurfernuílátunum
í skrifborðsskúffunni minni. Blaðagrindin úr vídeókössunum varð fljótlega svo full af pappírum og bréfum að hún beyglaðist saman á gólfinu. Í eldamennsku og saumaskap er hægt að ná mikilli færni með því að æfa sig, en þótt tiltekt falli líka undir heimilisstörf tókst mér aldrei að
bæta mig, hversu oft sem ég tók til – það var bara snyrtilegt hjá mér í stuttan tíma.

Ég reyndi að hughreysta sjálfa mig: „Það er ekkert við þessu að gera. Það hlýtur alltaf að sækja í sama farið. Ef ég ræðst á allt verkið í einu missi ég bara móðinn.“ Þetta hafði ég lesið í
fjölmörgum greinum um tiltekt og ég gerði ráð fyrir að það væri rétt. Ef ég ætti tímavél núna myndi ég fara til baka og segja við sjálfa mig: „Þetta er rangt. Ef þú nálgast þetta á
réttan hátt mun aldrei koma bakslag.“

Flestir tengja bakslagið við megrunarkúra en þegar fólk heyrir orðið notað í tengslum við tiltekt gengur það fullkomlega upp. Það virðist algerlega rökrétt að skyndileg minnkun
á drasli geti haft sömu áhrif og skyndileg fækkun hitaeininga – skammvinn bót getur orðið en ekki haldist til frambúðar. En ekki láta blekkjast. Á því augnabliki sem þú byrjar að færa húsgögnin til og losa þig við hluti munu herbergin fara að taka breytingum. Þetta er mjög einfalt. Ef þú kemur húsinu þínu einu sinni í lag með óheyrilegri fyrirhöfn hefurðu
tekið til fyrir fullt og allt. Bakslagið verður vegna þess að fólk heldur að það hafi tekið vandlega til en það hefur aðeins verið að flokka og raða hlutum í hirslur. Ef þú kemur húsinu þínu almennilega í lag geturðu alltaf haldið herbergjunum snyrtilegum, jafnvel þótt þú sért löt/latur eða draslari að eðlisfari.

Taktu til í lífi þínu! kom nýlega út hjá Forlaginu.
Taktu til í lífi þínu! kom nýlega út hjá Forlaginu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál