Setur sitt „fingrafar“á öll verkin

Innanhússhönnuðurinn Sæbjörg Guðjónsdóttir.
Innanhússhönnuðurinn Sæbjörg Guðjónsdóttir. Morgunblaðið/ Golli

Innanhússhönnuðurinn Sæbjörg Guðjónsdóttir hefur unnið að mörgum spennandi verkefnum undanfarið, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Til að mynda sá hún um hönnun og endurbætur fyrir allar verslanir Fríhafnarinnar og eins var innanhússhönnun á nýju húsnæði fasteignasölunnar Stakfelli í hennar höndum. Þó verkefnin sem Sæbjörg, eða Sæja eins og hún er gjarnan kölluð, tekur að sér séu ólík tekst henni alltaf að setja sitt „fingrafar“ á þau. 

Sæbjörg segir mikinn mun á að vinna fyrir fyrirtæki og einstaklinga. „Þetta er frekar ólíkt þar sem annað er heimili og hitt almenningsrými þar sem mikill og fjölbreyttur fjöldi fólks fer í gegn. Það er oft hægt að vera aðeins „djarfari“ þegar hannað er fyrir almenningsrými eins og flugstöð en það þarf þó að hugsa um margt eins og verslunarhegðun fólks, flóttaleiðir, endingu á efnum og ekki síst heildarupplifunina. Það eru margir sem koma að svona verkefni og margt sem spilar saman til að allt gangi upp. Ég er mjög glöð að hafa fengið tækifæri að vinna fyrir Fríhöfnina og þykir alltaf vænt um verkefnið þar sem það var eitt af mínum fyrstu stóru verkefnum sem ég gerði sjálf.“

Sæbjörg segir innblásturinn koma alls staðar frá. „Ég leita oft í gamla tíma og fæ hugmyndir þannig, list hreyfir líka mikið við mér og þá sérstaklega innsetningar. Maður kemst ekki hjá því að skoða blöð, Instagram og Pinterest en ég reyni að taka því ekki of bókstaflega og fæ frekar innblástur af til dæmis formum og mynstrum sem ég sé eða tilfinningunni af einhverju rými á mynd frekar en að endurgera það sem ég sé, enda væri ég ekki að hanna neitt ef ég gerði það. Ég reyni alltaf að skapa eitthvað nýtt og fara nýjar leiðir.“

Einn kúnninn fékk hana til að hanna brúðkaupið sitt

Verkefnin sem Sæja tekur að sér eru fjölbreytt en yfirleitt snýst vinnan um að fá einhverja heildarmynd á rými. „Hér áður var þetta meira baðherbergi og eldhús sem fólk vildi fá aðstoð við en innanhússhönnuðir gera svo mikið meira eins og að endurskipuleggja rými, vinna með húsgögn, efnis- og litaval ásamt lýsingu og fleira, fólk er orðið meðvitaðra um það. Allt þarf þetta að spila saman svo útkoman sé sem best. Sumir kúnnar vilja ekki bara aðstoð innandyra og fá mig með sér í ólíklegustu verkefni eins og að hanna garðana og sjá um litaval utanhúss. Einn kúnni sem ég hef unnið mikið fyrir fékk mig til að hanna brúðkaupið sitt, það var stuð,“ útskýrir Sæja.

Aðspurð hvað einkenni stíl hennar kveðst Sæja vera með hlýlegan stíl. „Ég var einmitt að ræða þetta við vin minn um daginn sem ég leita oft til þegar ég er að vinna verkefni, en hann er einnig hönnuður og starfar í London. Ég myndi segja að minn stíll sé frekar hlýlegur og nútímalegur stíll í bland við skírskotanir frá 20. öldinni. Eins og áður sagði þykir mér gaman að leita í gamla tíma og vinna með á nýjan hátt. Einnig þykir mér mikilvægt að reyna að nota ljósmyndir og listaverk í bland því þau gera heimilin persónulegri. Stíllinn er þó breytilegur og ég er alltaf að þróast, en ég held þú sjáir alltaf mitt „fingrafar“ á verkefnunum mínum.“

Sæja er með mörg verkefni á dagskrá þessa stundina. „Núna er ég til dæmis að vinna að breytingum á Bed & Breakfast Keflavik Airport þar sem 8. og 9. áratugurinn fær að skína í gegn eftir breytingar ásamt mörgu öðru. Mig langaði til þess að búa til hótel sem er ólíkt þeim sem fyrir eru og hugsunin er að þú bæði byrjir og endir ferðalagið þitt á skemmtilegan og minnisstæðan hátt þar sem bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn nýta sér hótelið og það sem það hefur upp á að bjóða,“ segir hún.

Rennt yfir nokkur verk

*„Ég kom að hönnun allra verslana Fríhafnarinnar ásamt starfsmannarými,“ segir Sæbjörg. Í uppáhaldi hjá henni er þá Schengen-verslun Fríhafnarinnar. „Hún átti að vera svolítið öðruvísi en hinar verslanirnar og Fríhöfnin vildi fá íslenskt þema. Verslunin er ljós og létt og það ríkir kyrrð yfir henni sem var eitt af markmiðunum, að róa flugfarþega þar sem stutt er í „gate“.

*Sæbjörg sá um innanhússhönnun í fasteignasölunni Stakfelli. Hún kveðst hafa lagt mesta áherslu á að gera stofuna hlýlega. „Enda fólk oft að gera stærstu kaup lífs síns þarna inni og umhverfið þarf því að vera þægilegt. Glerveggir voru notaðir til að gera rýmið opið og á móti var ákveðið að mála veggi í hlýjum gráum tón, sprauta allar hurðir dökkgráar og steypt gólfið var pússað og lakkað,“ útskýrir Sæja sem notaði svo meðal annars plöntur og fallega potta til að fá lit inn í rýmið.

*Sæbjörg sá um að taka Tannlæknastofu Þorsteins og Jóns á Selfossi í gegn, útkoman er glæsileg. „Þetta er rótgróin stofa og það þurfti að bæta við einum stól, færa sótthreinsun, nýjar innréttingar og fleira. Gangurinn var ekki stór og lítið var um birtu. Því ákvað ég að gera heldur stórt skilrúm á nýju stofuna til að rýmið virki opnara og bjartara í stað þess að setja vegg. Eins var ákveðið að setja glerhurðir í stað þeirra sem fyrir voru til að opna rýmið betur og svo var flikkað upp á biðstofuna.“

Bæsaðar OBS-plötur í afgreiðslunni.
Bæsaðar OBS-plötur í afgreiðslunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Sæja sá um innanhúshönnun í húsnæði fasteignasölunnar Stakfell.
Sæja sá um innanhúshönnun í húsnæði fasteignasölunnar Stakfell. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Sæju tókst vel til þegar hún hannaði allar versalnir Fríhafnarinnar. …
Sæju tókst vel til þegar hún hannaði allar versalnir Fríhafnarinnar. Hún notaði meðal annars ösku úr Eyjafjallajökli í gólfstanda og í innganginn.
Bjart og fagurt í Fríhöfninni.
Bjart og fagurt í Fríhöfninni.
Eldhús úr smiðju Sæbjargar.
Eldhús úr smiðju Sæbjargar.
Einkaheimili sem Sæja tók í gegn.
Einkaheimili sem Sæja tók í gegn.
Sæbjörg notar hér
Sæbjörg notar hér "statement"-hluti til að gera stofuna einstaka.
Einkaheimili. Sæja notast mikið við plöntur og ljósmyndir til að …
Einkaheimili. Sæja notast mikið við plöntur og ljósmyndir til að lífga upp á rýmin.
Sæja setur sitt „fingrafar“á öll verk sem hún tekur að …
Sæja setur sitt „fingrafar“á öll verk sem hún tekur að sér.
Töffaralegt lúkk á tannlæknastofu á Selfossi.
Töffaralegt lúkk á tannlæknastofu á Selfossi.
Af tannlæknastofu Þorsteins og Jóns.
Af tannlæknastofu Þorsteins og Jóns.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál