Vandræðarými – hvað er til ráða?

Sesselja Thorberg er Fröken Fix.
Sesselja Thorberg er Fröken Fix. Ljósmynd/Saga SIg

Sesselja Thor­berg, vöru- og inn­an­húss­hönnuður, rek­ur hönn­un­ar- og ráðgjafa­fyr­ir­tækið Frök­en Fix og svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Frök­en Fix er löngu orðin þekkt fyr­ir djarfa og óvenju­lega hönn­un sem og hag­kvæm­ar lausn­ir en Frök­en Fix sér­hæf­ir sig í inn­an­húss­hönn­un fyr­ir fyr­ir­tæki jafnt sem ein­stak­linga.

Sæl Sesselja – Fröken Fix, 

 

Ég flutti inn í íbúðina mína fyrir rúmu ári síðan og er með eitt rými sem er til vandræða, þar sem mér finnst það aldrei vera kosý. Þetta er inngangurinn og miðja íbúðarinnar, þar er gengið inn í öll önnur rými. Mig hefur lengi langað að mála einn vegg með lit en er hrædd við það þar sem þetta er frekar lokað rými og ekki mikil birta. 

Ertu með einhverjar hugmyndir? 

 

Kær kveðja,

Karen 

Heil og sæl Karen og takk fyrir fyrirspurnina. 

Þú tekur að vísu ekki fram hversu stórt þetta hol er. Ég hef þó sjálf oft veitt ráðgjöf í svipuðum aðstæðum, enda er þetta algeng hönnun á íbúðum til dæmis í Grafarvogi og í Kórahverfinu svo eitthvað sé nefnt.

Ef holið er þolanlega stórt eru margir sem nýta svæðið í sjónvarpssvæði en ef það er lítið er upplagt að framlengja t.d. forstofuna fram í holið og gera svæðið að einu.

Hvort sem þú gerir þá eru nokkrir hlutir sem þú getur gert til þess að gera það huggulegra.

Veggkertastjakar búa til fallega stemningu.
Veggkertastjakar búa til fallega stemningu.

Tvö rými verða eitt

Taktu ákvörðun um huggulegan lit, sem er afgerandi en þó í ljósari kantinum og heilmálaðu bæði svæðin í sama lit. Þannig stækkar þú í raun bæði svæðin. Ef þú ert hrifin af „hvítum“ litum mæli ég með monroe-hvítum úr litakortinu mínu frá Slippfélaginu. Það er í raun bara dálítill tónn af gráum en nóg til þess að veita góðan bakgrunn. Aftur á móti ef þú ert hrifin af litum þá myndi ég mæla með kaldari tónum eins og grábláum þar sem þeir veita meiri fjarlægð. Forðastu brúna/hlýja tóna á veggjunum á svona lokuð svæði, en veittu þeim meira frelsi frekar í húsgögnum.

Hlýleg húsgögn – kaldir veggir

Veldu frekar húsgögn úr tré eða lit, fremur en hvít húsgögn. Þau veita aðeins meiri hlýju og virka vel með kaldari tónum á veggjunum.

Stórir fletir á veggjum

Það er frekar freistandi að nota þessi svæði í „fjölskylduvegginn“ og safna saman mörgum myndum á einn stað. Þótt það gæti verið svakalega huggulegt þá mæli ég ekki með því EF svæðið er mjög lítið. Á minni svæði er betra að hengja frekar upp veggspjöld eða málverk í yfirstærð. Stærri verk róa ásýndina. Speglar eru að sjálfsögðu líka góður kostur.

Risastór plaköt stækka rými.
Risastór plaköt stækka rými.

Ljós og huggulegheit

Ef það er ekki mikil birta er mikilvægt að setja inn ljós sem skapa dramatíska birtu en forðast ljóskúpla sem gefa aðeins dreifða almenna birtu frá sér. Notaðu hvíta kastara í loftin (þeir falla inn í hvíta loftmálninguna) og lýstu upp veggina og myndverkin og skapaðu þannig drama. Hafðu lýsinguna eins í holinu og í forstofunni.

Notaðu litla borðlampa í holinu. Þú gætir sett þá á lítil hliðarborð við sófann (ef þú ert með sjónvarpsholið) eða á langt hliðarborð.

Nettir veggkertasjakar á lituðum veggjum eru líka gríðarlega huggulegir. Settu saman nokkra í hnapp.

Fallegar körfur geta gert mikið. Stórar körfur undir falleg ullarteppi, minni körfur undir inniskó, körfur undir ruslpóstinn og þess háttar.

Ég vona að þetta hjálpi þér eitthvað kæra Karen.

Kær kveðja,

Sesselja Thorberg

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Fröken Fix spurningu HÉR. 

Körfur eru sniðugar.
Körfur eru sniðugar.
Viðarhúsgögn skapa meiri hlýleika en hvít.
Viðarhúsgögn skapa meiri hlýleika en hvít.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál